Manchester United verður með annan fótinn í Lundúnaborg í vikunni og byrjar á leik gegn Crystal Palace í kvöld. Vonir eru um að liðið haldi áfram þeirri frábæru siglingu sem það hefur verið á og að nýjasti leikmaðurinn, Wout Weghourst, verði frumsýndur.
Weghurst kom í lok síðustu viku að láni frá Burnley. Hann var upphaflega keyptur þangað fyrir ári frá Wolfsburg í Þýskalandi en vildi fara í haust eftir að Burnley féll úr ensku úrvalsdeildinni. Þá var hann lánaður til Besiktas í Tyrklandi og hefur leikið ágætlega þar síðustu vikur.
Weghorst er 1,97 metrar á hæð og út frá þeirri tölfræði ætti hann að bæta möguleika United á að skalla niður langa háa bolta eða stanga inn horn- og aukaspyrnur. Slíkt hefði átt að gera hann að hinum fullkomna Burnley-manni en þar olli hann vonbrigðum því þrátt fyrir hæðina er Weghorst ekki áberandi öflugur skallamaður, þótt líklega sé hann framför á því sviði frá öðrum framherjum United.
Hins vegar er hann, miðað við hæð, flinkur með boltann og hreyfir sig vel þótt hann sé eðlilega ekki sá fljótasti. Þannig benda leikgreinendur á að hann sé bæði duglegur að pressa andstæðingana en nýtist líka afskaplega vel í uppspili, til dæmis í skyndisóknum, þegar hann fái boltann í fæturna. United fékk að finna fyrir því þegar hann átti stoðsendingu í 1-1 jafntefli gegn Burnley fyrir tæpu ári.
Eins ætti Lisandro Martinez að geta vitnað um að ekki sé auðvelt að komast nærri Weghorst sem breiðir vel úr sínum stóra búk til að skýla boltanum, líkt og þegar hann skoraði eftirminnilegt jöfnunarmark Hollendinga gegn Argentínu í fjórðungsúrslitum heimsmeistarakeppninnar í desember.
Ljóst er að það yrði bratt hjá Erik ten Hag að setja Weghorst í byrjunarliðið í kvöld en ekki útilokað. Í fyrsta lagi var Anthony Martial skipt út af í síðasta leik þar sem hann kenndi sér meins og ekki mikið úrval af öðrum hreinræktuðum framherjum í hópnum. Hins vegar hefur ten Hag sýnt það hjá fyrri félögum að hann kann vel við stóra og stæðilega framherja.
Nóg af kostum
Annars hefur ten Hag aðeins breytt út af venjunni í uppstillingu sinni síðustu leikjum. Þannig hefur Bruno Fernandes verið á hægri kantinum og um helgina kom Fred inn á miðjuna með Casemiro þannig að Cristian Eriksen færðist framar. Brasilíumennirnir eiga báðir á hættu að missa af leiknum gegn Arsenal um næstu helgi ef þeir fá spjald í kvöld. Alejandro Garnacho og Anthony berjast síðan um stöður á köntunum.
Í vörninni hefur Luke Shaw troðið sér framfyrir Martinez, Harry Maguire og Viktor Lindelöf til að verða valinn sem vinstri miðvörður við hlið Raphael Varane í síðustu leikjum. Við það hefur Tyrrell Malacia fengið vinstri bakvarðarstöðuna.
Donny van de Beek er frá út leiktíðina vegna meiðsla og lítið að frétta af Jadon Sancho. Diego Dalot ætti að vera að nálgast en það verður ekki af Aaron Wan-Bissaka tekið að hann hefur spilað það vel í fjarveru Portúgalans að engar sögur eru lengur í gangi um sölu hans. Hann kom frá Crystal Palace á sínum tíma og þarf í kvöld að gæta fyrrum United manns, Wilfried Zaha. Annar leikmaður sem United hefur fengið frá Palace, Jack Butland, má ekki spila þar sem hann er í láni frá félaginu.
Af gestgjöfunum er það að frétta að Joachim Andersen fór meiddur af velli í tapi gegn Chelsea á sunnudag. Þá er Tyrick Mitchell kominn aftur eftir leikbann. Nathan Ferguson og James McArthur eru meiddir.
Skildu eftir svar