Manchester United tekur á móti Reading í 4. umferð ensku bikarkeppninnar á Old Trafford kl 20:00 annað kvöld. United gerði sér lítið fyrir og vann Everton 3-1 í næstsíðasta leik þeirra bláklæddu undir stjórn Frank Lampard í síðustu umferð á meðan gestirnir í Reading lögðu Watford að velli með mörkum í uppbótartíma í sitthvorum hálfleiknum.
Á blaði gæti margur sagt að United hafi fengið auðvelda viðureign en bikarleikir hafa þá rómantík að þeir einfaldlega eru annars eðlis en hefðbundnir deildarleikir. Það væri þó afar lélegt af okkur að ganga út frá því að þetta verði léttur leikur því við höfum oftar en ekki brennt okkur á að vanmeta andstæðingana, sérstaklega þegar þeir fá að spila á „stóra sviðinu“. En þráhyggjukenndur sigurvilji Erik ten Hag er svo sterkur að hann einn og sér ætti að duga til að koma okkur áfram inn í næstu umferð bikarsins en lítum fyrst á mótherjana.
Reading
Fótboltafélagið Reading hefur verið atvinnumannalið frá árinu 1895 og spilar á Madejski vellinum sem tekur rúmlega 24 þúsund manns í sæti. Liðið er undir stjórn Paul Ince, fyrrum leikmanni Manchester United og Liverpool, en hann tók við liðinu 19. febrúar á síðasta ári. Hann þekkir það að vinna titla og hefur einnig gert það sem knattspyrnustjóri því árið 2008 vann hann tvennuna með MK Dons, þ.e.a.s. vann Football League Trophy og League Two og kom þeim þannig beint upp í c-deildina.
Hins vegar hafa síðustu ár ekki reynst honum auðveld því næst tók hann við Blackburn Rovers en sú saga endaði þegar þeir lágu á Old Trafford 5-3 einungis hálfu ári eftir að hann tók við stjórn þar. Þá snéri hann aftur til MK Dons en entist ekki nema ár þar, tók við Notts County, Blackpool og að lokum Reading á síðasta ári.
Hjá Reading hefur ekki gengið neitt gífurlega vel en liðið rétt bjargaði sér frá falli úr Championship deildinni í 21. sæti en eitthvað virðist ganga betur í ár en liðið var lengi vel meðal efstu liða og eftir fyrstu 13 umferðirnar var liðið í 4. sæti. En síðan þá hefur tekið að halla undan fæti og í dag situr liðið í 14. sæti deildarinnar. Síðustu leikir hafa ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir en liðið hefur einungis unnið tvo af síðustu sjö leikjum.
Þeir leikmenn Reading sem hvað mestan spilatíma hafa fengið á tímabilinu eru þeir Jeff Hendrick, Andy Yiadom og Tom Ince, sonur stjórans, en þeir eru allir komnir komnir yfir þrítugt. Erik ten Hag ætti því að sjá sér leik á borði og leyfa ungu, snöggu leikmönnunum að spreyta sig í þessum leik enda spilar þetta lið mikið upp á föst leikatriði sem er þeirra helsti styrkleiki fram á við en einnig talsverður veikleiki .
Paul Ince stillir ýmist upp í 3-5-2 eða 3-4-2-1 með vængbakverði en mögulega munu þeir spila með þá dýpra og vera þéttir til baka, sérstaklega miðað við að þeir verða á útivelli.
Manchester United
Það er áhugavert að velta fyrir sér liðsuppstillingunni fyrir leikinn því um er að ræða annan bikarleikinn af þremur í röð og heil vika í næsta deildarleik. Það er ærið verkefni fyrir Erik ten Hag að finna jafnvægi milli þess að hvíla leikmenn og halda þeim frá meiðslum annars vegar og hins vegar halda þeim í leikformi fram að næstu helgi þegar deildin fer aftur af stað.
Það væri að mínu mati óskynsamlegt að hrófla ekkert við liðinu því ten Hag hefur sýnt það að hann getur róterað liðinu og samt knúið út sigur þrátt fyrir að bekkurinn sé ekki eins sterkur og hann hefði viljað, rétt eins og við sáum í leiknum gegn Arsenal.
Ég myndi þó halda að ákveðnir einstaklingar þyrftu að spila og sumir þyrftu að fá hvíld. David de Gea ætti að fá hvíld en tel samt sem áður að hann byrji. Varnarlínunni verður breytt og mögulega verður Martinez látinn hvíla til móts við Varane sem ekki byrjaði gegn Nottingham Forest í vikunni. Annars spái ég liðinu svona:
Á meiðslalistanum eru þeir Dalot, Donny, Tuanzebe og Martial.
Eins og svo oft áður þá er gaman að líta til sögu þessara tveggja liða saman en af síðustu 22 leikjum sem United og Reading hafa att kappi hefur Reading einungis unnið einn og það var fyrir 96 árum síðan. Erik ten Hag hefur einnig tekist að breyta Old Trafford í ógnvænlegt virki og reynist liðum heimsókn í Leikhús draumanna oft líkari martröð þessa dagana og vonandi heldur það áfram.
Leikurinn hefst 20:00 og á flautunni verður Darren England.
Skildu eftir svar