Það er eflaust flestum United stuðningsmönnum í fersku minni síðasti leikur gegn Leeds United sem var núna á miðvikudaginn. Fyrir þá sem ekki sáu leikinn þá lauk honum með 2-2 jafntefli eftir að gestirnir frá Leeds komust 2 mörkum yfir með marki á 1. mínútu og 48. mínútu. Það voru svo Marcus Rashford og Jadon Sancho sem klóruðu eitt stig úr greipum gestanna sem voru í fyrsta sinn undir stjórn þriggja bráðabirgðastjóra eftir að Jesse Marsch var látinn taka pokann sinn.
Það var ömurlegt að sjá hvað United menn voru gjörsamlega heillum horfnir í upphafi fyrri hálfleiks og Leedsarar voru mun betri. En eftir því sem leið á leikinn tók United völdin á vellinum og voru í raun óheppnir að fara inn í hálfleikinn undir eftir að Garnacho átti frábært færi þar sem Wöber bjargaði á línu og eins fór boltinn í tréverkið. En það sem var skelfilegast að sjá að þrátt fyrir þessa hörmungarbyrjun þá lærðu okkar menn ekki neitt af því þar sem síðari hálfleikur hófst með nákvæmlega því sama, Leeds sóttu og voru betri og tókst að tvöfalda forystuna með örlítilli heppni en engu að síður telur markið jafnmikið og eftir það varð talsverð brekka upp á við.
En United eiga hins vegar hrós skilið fyrir baráttuna og hefðu með örlítilli heppni geta tekið öll þrjú stigin en ætli liðið að blanda sér í toppbaráttuna verða heimaleikir gegn liðum á borð við Leeds að enda með sigri. United hefði geta með þremur stigum stillt sér upp við hlið Manchester City í töflunni og sett pressu á bæði nágrannana og toppliðið frá Lundúnum en þess í stað sitjum við áfram í þriðja sæti með 43 stig.
Leeds United
Hins vegar verður síðari leikurinn á heimavelli Leeds sem er þekktur fyrir að vera erfiður völlur heim að sækja enda stuðningsmenn Leeds ekki eftirbátur nokkurra stuðningsmanna á Englandi. Leeds rak um síðustu helgi stjórann og greinilegt að þrátt fyrir þrjá bráðabirgðastjóra hefur þeim tekist að fá a.m.k. vott af því sem er kallað „new manager bounce“ þar sem liðið virkar mun sprækara og leikmenn tilbúnir í slaginn gegn erkifjendunum. Þeirra hættulegustu leikmenn að undanförnu hafa verið Wilfried Gnonto, táningur frá Ítalíu sem kallar ekki allt ömmu sína og Rodrigo og Sinisterra en sem betur fer fyrir okkar menn eru þeir síðarnefndu á meiðslalistanum.
Hins vegar var fyrsti byrjunarliðsleikur Weston McKennie sem virðist passa inn í liðið eins og glerskórinn við fót Öskubusku enda hefur hann um árabil spilað með Tyler Adams en Bandaríkjamennirnir tveir mynda miðju Leedsara. Jack Harrison hefur verið að spila í holunni fyrir framan þá og hefur verið sá leikmaður sem hefur hvað mest verið að skapa hættu fyrir andstæðingana en hann átti ekki sinn besta leik fyrir Leeds á miðvikudaginn var og vonum við að það haldist áfram núna um helgina.
Fyrir leikinn gegn United sveif Leeds rétt yfir fallsætunum þremur með jafnmörg stig og Everton sem er í 18. sæti en með mun verri markatölu. Liðin sem sitja í kringum liðið í töflunni eru Leicester City og Wolves í sætunum fyrir ofan og West Ham og Everton fyrir neðan en öll þessi lið styrktu sig með einhverjum hætti eftir áramót, hvort heldur sem er með nýjum leikmönnum eða stjórum og það verður því áhugaverð botnbaráttan á næstu vikum.
Leeds gerði sér lítið fyrir og setti þrjá stjóra í brúnna í stað Jesse Marcsh eins og áður sagði, þá Michael Skubala, Chris Armas og Paco Gallardo sem höfðu einungis náð sólarhring og einni æfingu áður en liðið mætti á Old Trafford en tókst samt sem áður að ná í úrslit og því verður hægt að spyrja sig hvað gerist á Elland Road á sunnudaginn?
Þeir stilltu upp í 4-2-3-1 en munu ekki geta stillt upp sama liði þar sem tveir leikmenn meiddust í leiknum, þeir Sinisterra og Struijk. Annars spái ég liðinu svona:
Manchester United
Það var áhugavert að sjá að ten Hag stillti upp Garnacho á vinstri vænginn og Rashford á þeim hægri í síðasta leik. Garnacho var mjög sprækur og fékk maður á tilfinninguna að þetta yrði langur dagur á skrifstofunni fyrir Luke Ayling í vinstri bakverði hjá Leeds en Rashford var hins vegar hljóðlátari á hægri vængnum, allt þar til ten Hag gerði breytingar og færði Rashford fram í stað Weghorst. Hollendingurinn var frekar hljóðlátur og lét lítið fyrir sér fara þrátt fyrir að vera vaxinn eins og tröll. Það væri því óskandi að landi hans myndi hrista upp í liðinu fyrir helgina og setja Sancho inn sem átti flotta innkomu og skoraði annað markið við mikinn fögnuð stuðningsmanna og liðsfélaga hans. Gríðarlegt ánægjuefni að sjá hann aftur í takkaskónum.
Varnarlega var United ekki nálægt sínu besta. Það var stór svarthol þar sem brasilíska ryksugan okkar er vanalega fyrir framan vörnina en munurinn þegar Casemiro er ekki að spila er gífurlegur. Gæðin sem hann skilar inn á miðjunni eru langumfram hæfileika annarra miðjumanna (a.m.k. í þessari stöðu) og það er sárt að hugsa til þess að þurfa að vera án hans í næstu tvo leiki. Þrátt fyrir það held ég að Erik ten Hag haldi vörninni eins og hún var og geri ekki neinar breytingar. Lindelöf kom inn á í stað Sabitzer og leysti stöðuna sem varnarsinnaður miðjumaður undir lokin en undirritaður efast um að það sé staða sem hann getur spilað heilar 90 mínútur.
Annars spái ég liðinu svona:
Miðjan var sæmileg í síðasta leik, Sabitzer sýndi það aftur að hann hefur klárlega mikil gæði sem hann kemur með inn á miðjuna en hann og Fred virðast ekki vera á sömu bylgjulengdinni hvað sendingar og staðsetningar varðar. Hann mun líklega henta mun betur að spila hlutverkið hans Eriksen þegar Casemiro kemur tilbaka en hann er engu að síður mun betri varnarlega en daninn og vinnur boltann oftar ofar á vellinum eins og við sáum í leiknum á miðvikudaginn.
Fred átti hins vegar arfaslakan leik og virtist ekki á sömu bylgjulengd og nokkur annar í liðinu og setti boltann stanslaust í vitlaus svæði, fyrir aftan menn eða beint á mótherja og skapaði talsvert oft vandræði fyrir samherja sína. Það væri þess vegna sem ég myndi vilja gefa Kobbie Mainoo tækifæri með Sabitzer í leiknum gegn Leeds. Það verður samt sem áður að teljast ólíklegt að ten Hag hendi honum í svo fjandsamlega og djúpa laug eins og Elland Road er en það verður ekki litið framhjá því að United er í gífurlegum vanda hvað varðar meiðsli meðal miðjumanna og það verður að viðurkennast eins og er að Fred gerði fátt til að verðskulda byrjunarliðssæti fram yfir hungraða, unga vonarstjörnu sem er nýbúin að skrifa undir langtímasamning við uppeldisfélagið sitt.
Þá væri einnig gott að eiga Garnacho ferskan inni og setja hann inn þegar hálftími er eftir af leiknum þegar t.d. Rashford er búinn að láta Ayling hlaupa úr sér lungun á vinstri kantinum. Liðið verður einfaldlega að halda áfram að malla inn sigrum til þess að setja meiri pressu á liðin í kringum okkur í töflunni. City eru í seilingarfjarlægð og Newcastle og Tottenham anda ofan í hálsmálið hjá okkur. Þá munu lið eins og Chelsea og Liverpool reyna hvað þau geta til að eygja von á að blanda sér í baráttuna um Meistaradeildarsæti.
Flautuleikarinn er enginn annar en Paul Tierney en hann flautar leikinn á á slaginu 14:00 á sunnudaginn.15
Skildu eftir svar