Erik ten Hag stillti upp áhugaverðu liði í dag þar sem hvorki Varane né Martinez voru sjáanlegir. Þeir fundu sér stað á tréverkinu á meðan Luke Shaw og Harry Maguire stilltu sér upp í miðju varnarinnar með Tyrell Malacia og Diogo Dalot í bakvarðastöðunum. Annars leit liðið svona út:
Byrjunarlið heimamanna í Leeds var nokkuð sterkt en þeir voru án Pascal Struijk og Sinisterra sem báðir byrjuðu á Old Trafford á miðvikudaginn s.l.
Leikurinn
Þetta var ekki skemmtilegasti eða fallegasti leikurinn sem við höfum séð undir Erik ten Hag. United var miklu meira með boltann en Leeds voru mun hættulegri. Það gefur eflaust ekki rétta mynd að horfa á hlutfall með bolta þar sem langmestan tíma sem United var með boltann var Maguire á honum að taka fleiri snertingar en hugsanir og heimamenn virtust bara bíða eftir því að hann gerði mistök með boltann frekar en að pressa hann. En aðra pressuðu þeir eins og lífið væri að veði.
Vörn United virkaði ósamhæfð, ryðguð og hægfara og átti í stökustu vandræðum með að koma boltanum til miðjumannanna, svo miklum vandræðum að Sabitzer var farinn að koma nánast að vítateigsboganum að sækja tuðruna. Fremstu þrír voru líka ekki að tengja vel saman og fyrsta og besta tækifæri okkar manna kom eftir mistök í vörn Leeds þegar Bruno komst inn í sendingu og komst einn á móti Meslier sem gerði vel og varði í horn. Portúgalinn hefði átt að gera mun betur enda sannkallað dauðafæri en inn vildi boltinn ekki að þessu sinni.
United tókst aldrei að taka völdin á vellinum. Miðjubardaginn var eins og góður tennisleikur þar sem boltinn skaust á milli, aðallega fyrir tilstilli mistaka beggja liða, sem bæði virtust ekki geta með nokkru móti komist í sinn gír. En bæði liðin fóru inn með hreint lak og engin mörk skoruð í hálfleik.
Í síðari hálfleik hélt sama refskákin áfram. Liðin djöfluðust í hvort öðru en allir leikmenn virkuðu langt frá sínu besta og er líklegast um að kenna erfiðum leik í miðri viku. Heimamenn byrjuðu af krafti í síðari hálfleik en Dalot var sá sem komst næst því að skora í upphafi hálfleiksins eftir fyrirgjöf en bylmingsskot hans lét braka í þverslánni en inn fór hann ekki. Næsta færi féll til Luke Ayling eftir hornspyrnu en varnarmaður reyndi að setja boltann á markið með bakfallsspyrnu en beint í fangið á de Gea. Summerville, sem var ábyggilega hættulegastur heimamanna, átti líka stórgott færi áður en það dróg til tíðinda í leiknum.
En það gerðist loks þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum. Luke Shaw dröslaðist framhjá Ayling og kom með þessa líka huggulegu fyrirgjöf sem flaug yfir tveggja metra Hollending og nokkra hvítklædda varnarmenn áður en Rashford smellti enninu í knöttinn sem söng því næst í netinu án þess að Meslier kæmi nokkrum vörnum við. 1-0 og staðan allt í einu orðin allt önnur, stuðningsmenn liðsins tóku við sér í stúkunni og liðið fílefldist um leið.
Það liðu ekki nema rétt um fimm mínútur áður en boltinn staðnæmdist hjá Weghorst sem sendi boltann inn fyrir vörnina og á Garnacho, sem kom inn á í stað Sancho, en táningurinn þakkaði pent fyrir sig með því að smella boltanum í stöngina inn framhjá Meslier og tvöfalda forystuna með fimm mínútur á klukkunni. Fleiri urðu mörkin ekki og þrjú stig á erfiðum útivelli staðreynd.
Að leik loknum…
Einkunnagjöf úr leiknum: De gea (7) hélt hreinu en þrátt fyrir það komu fáein tilvik þar sem spænski kötturinn í markinu hefði mátt gera betur en honum tókst þó að tapa boltanum og skapa vandræði en varði nokkrum sinum mjög vel frá heimamönnum í 400. deildarleiknum sínum. Dalot (6) átti sæmilegan leik en virkaði langt frá sínu besta og var ekki mikið sjáanlegur á köflum í leiknum, a.m.k. ekki framarlega á vellinum. Maguire (5) virtist haugryðgaður og greinilegt að heimamenn voru rólegir þegar hann var á boltanum. Átti nokkrar glórulausar sendingar og hljóp úr stöðu þegar þess var ekki þörf. Sýndi ekkert sem réttlætir það að hann færist oftar en Martinez og Varane í goggunarröðinni.
Luke Shaw (8) hefur átt betri dagar sem miðvörður en lét ljós sitt skína þegar hann var færður í vinstri bakvarðarstöðuna eftir að Martinez kom inn á. Átti flotta spretti og þar á meðal glæsilega og hárnákvæma sendingu á kollinn á Marcus Rashford sem endaði í netinu. Maður leiksins að mínu mati. Sabitzer (6) gerði mjög vel á erfiðum útivelli í skugga besta miðjumanns deildarinnar. Hann og Fred (6) réðu þó illa við spræka miðju heimamanna en tókst engu að síður að vinna sig inn í leikinn og þeim brasilíska óx ásmegin eftir því sem leið á. Bruno (7) hélt áfram að vera sá Bruno sem við þekkjum og þrátt fyrir að eiga hvorki mark né stoðsendingu í þessum leik þá átti frammistaða hans alveg skilið annað hvort.
Marcus Rashford (7) og Jadon Sancho (6) hafa líka átt betri dag en þrátt fyrir að liði væri mun meira með boltann tókst liðinu sjaldan að finna þá bræður í fæturna. Rashford þarf hins vegar ekki nema eitt færi til að tryggja okkur stigin 3 ef vörnin heldur hreinu eins og hann hefur verið að sýna og virðist engin leið að stöðva drenginn núna. Sancho bjó til pláss fyrir leikmenn í kringum sig en tókst samt sem áður ekki að hafa sömu áhrif á leikinn og á miðvikudaginn.
Weghorst (5) átti stoðsendinguna á Garnacho en fram að því hafði hann verið mikið í því að koma djúp á völlinn og djöflast og þjöstnast á heimamönnum sem líklega átti einhvern þátt í því að United tókst að koma boltanum í netið 4-5x undir lok leik en við þurfum að sjá svo miklu meira frá framherjanum ef við ætlum okkur einhvert. Garnacho (8) var mjög flottur og kláraði færið sitt vel þegar Hollendingurinn stakk boltanum inn fyrir á hann og var eins og svo oft áður stórhættulegur og hélt varnarlínu Leedsara á barmi kvíðakasts. Martinez (7) kom inn í miðvarðarstöðuna og þá breyttist leikurinn, ekki útaf hans persónulega framlagi heldur leikskipulag og -stíll sem var það sem skilaði heim 3 stigum. Þá fór lítið fyrir Aaron Wan-Bissaka (5) og Anthony Elanga (5)
Þessi þrjú stig þýða að Manchester United skaust (tímabundið) upp fyrir Manchester City í annað sætið [sem þeir hafa nú endurheimt með 3-1 sigri á Aston Villa]. Liðið situr núna í 3. sæti, fimm stigum á eftir toppliðinu Arsenal en búið að leika tveimur leikjum fleiri. Öll liðin í kringum okkur (að City undanskildum) töpuðu stigum í umferðinni og því um að ræða mjög dýrmæt þrjú stig. Eflaust hefðu einhverjir stuðningsmenn tekið 4 stig úr 2 leikjum gegn Leeds þótt fullt hús sé ávallt ákjósanlegast. Elland Road hefur reynst mörgum liðum erfiður völlur heim að sækja og sérstaklega eru stigin góð í ljósi hagstæðra úrslita annars staðar.
Næsti leikur United er Evrópudeildarleikur gegn Barcelona á fimmtudagskvöld. GGMU!
Púki says
Fbjáni þessi þjálfari hjá manutd er með tvo hægustu menn á Englandi og skiptingar eins og hjá sauð.
Helgi P says
Mér sýnist nú skiptingarnar hafi heppnast fullkomlega
Friðrik Már Ævarsson says
Sumar athugasemdir eldast misvel :)
Audunn says
Maður leiksins að mínu mati var Fred.
Weghorst er að gera margt vel, mér finnst hans hlutverk vera vanmetið.
Jú ok hann er framherji og við viljum meiri ógnun og mörk frá þeim enn það er samt margt annað sem telur líka. Hann dregur að sér varnarmenn, er sterkur í loftinu og er að búa til pláss fyrir t.d Rashford.
Sabitzer er líka flottur, þótt hann sé ekki búinn að spila mikið fyrir liðið þá sjást margir flottir hlutir frá honum strax. Verður bara betri.
Við verðum líka að ath það að Man.Utd eru að spila í fjórum keppnum og því verður Ten Hag að dreifa álaginu. Það er ekki hægt að spila á ssama mannskap leik eftir leik, það endar ílla.
Þótt mönnum sé kannski ekkert sérstakega vel við það þá verður Ten Hag að nota leikmann eins og Maguire líka.
Annars virkilega sterkur sigur og mjög mikilvæg þrjú stig.
Það eru nánast allir leikir sem eftir eru úrslitaleikir, deildin er mjög sterk og nánast allir að taka stig frá öllum. Það er ekkert gefið í þessu. Hver og einn einasti leikur er mjög erfiður og mikilvægur.