Erik ten Hag mætti brosmildur en ákveðinn á Wembley í kvöld og stillti upp sínu sterkasta liði enda mikið í húfi. Sem betur fer sást Rashford á leikskýrslunni en liðið leit svona út:
Á bekknum voru þeir Heaton, Lindelöf, Maguire (’88), Wan–Bissaka (’46), Malacia, McTominay (’69), Sabitzer (’69), Garnacho og Sancho (’82).
Eddie Howe mætti ekki síður ákveðinn til leiks og fyrir utan Nick Pope sem var í banni stillti hann sínu sterkasta liði upp í von um að tryggja Newcastle fyrsta titil sinn í hálfa öld (fyrir utan það að vinna Championship deildina):
Á bekknum voru Gillespie, Lascelles, Ritchie, Targett, Isak (’46), Manquillo, Murphy (’79), Willock (’79) og Anderson.
Fyrri hálfleikur
Leikurinn fór vel af stað og var frekar kaótískur til að byrja með. Bæði lið skiptust á að missa boltann og virtist skjálfti í mönnum. Það rjátlaðist fljótlega af mönnum og við tók æsispennandi hálfleikur. Það kom í hlut Wout Weghorst að fá fyrsta færi leiksins þegar hann stóð rétt aftan við vítateigspunktinn og fékk boltann á lofti en það sem hann gerir sjálfsagt betur en nokkur annar leikmaður liðsins er að gera sig stóran og halda boltanum. Honum tókst með nokkrum snertingum að ná skoti með vinstri fæti á markið en boltinn skoppaði í grasinu og reyndist skotið hvorki hnitmiðað né fast og Loris Karius ekki í nokkrum vanda með að grípa hann.
Á 15. mínútu komst Diogo Dalot upp allan hægri kantinn með boltann, alveg upp að endalínu og átti hættulega fyrirgjöf út í teiginn en einhvern veginn virtist engum rauðklæddum detta í hug að ráðast á það svæði og Newcastle náðu að hreina frá. Næst átti Antony færi einungis fáeinum mínútum síðar en hann fékk boltann við vítateigshornið, lagði boltann pent fyrir sig og hamraði á markið en beint í fangið á Karius sem varla þurfti að hreyfa sig.
En Newcastle voru einnig hættulegir og jafnvel meira með boltann en United á stórum köflum í fyrri hálfleiknum. Þeir skiptust á að sækja á Allan Saint-Maximin og Trippier og Almirón á hinum helmingnum. Dalot fékk gult spjald snemma leiks og var augljós að Saint-Maximin ætlaði að keyra duglega á Portúgalann. Leikurinn stöðvaðist svo um stund þegar Lisandro Martinez og Fabian Schar skullu saman eftir fyrirgjöf frá hægri kantinum.
Næsta færi Newcastle kom þegar Trippier átti fínan samleik við Longstaff sem endaði með hættulegri fyrirgjöf eftir grasinu en boltinn endaði hinu megin á vellinum hjá Saint-Maximin sem fíflaði Dalot upp úr skónum og átti fast skot á nærstöngina en David de Gea var vel vakandi og bjargaði í horn. Þá loksins dróg til tíðinda þegar Rashford fékk boltann á vinstri vængnum og ætlaði að keyra á Trippier en Longstaff kom eins og eimreið og keyrði hann niður og aukaspyrna dæmd. Rétt einsog svo oft áður stóðu þeir Bruno og Luke Shaw yfir boltanum en Englendingurinn tók spyrnuna sem var fullkomin frá a-ö rétt eins og hlaupið frá Casemiro sem reis manna hæst og stangaði boltann í fjærhornið framhjá Karius í markinu. 1-0 og andrúmsloftið á vellinum varð yfirþyrmandi.
Newcastle-menn blésu til sóknar í kjölfarið oog juku sóknarþungann jafnt og þétt. En aftur refsuðu okkar menn því stuttu síðar átti de Gea útspark sem eftir smá darraðadans endaði hjá Rashford sem flikkaði boltanum pent með fætinum á Weghorst sem tók á rás. Hollenski skriðdrekinn stefndi að vítateignum en Rashford stakk sér inn fyrir vörnina, fékk sendinguna og skaut út þröngu færi. Boltinn hrökk af fætinum af Sven Botman og tók fallegan sveig yfir Karius í markinu og endaði í netmöskvanum. 2-0 fyrir United en markið síðar skráð sem sjálfsmark þótt boltinn virðist hafa verið að stefna á markið.
En Newcastle létu ekki deigan síga og fengu til að mynda ágætisfæri þegar Trippier átti hornspyrnu sem rataði á skallann á Dan Burn sem stýrði boltanum framhjá markinu. Mótherjarnir héldu áfram að banka og banka á dyrnar en enginn svaraði. Rétt undir lok fyrri hálfleiks átti Weghorst svo ágæitsfæri eftir að Antony leysti vel pressu mótherjanna á hægri kantinum og fann Weghorst í lappirnar. Sá brunaði í átt að markinu með varnarmann á hælunum sem fljótlega náði honum. Hollendingurinn skoðaði hvað var í kringum sig en ákvað svo að skjóta frá vítateigshorninu en Karius átti sjónvarpsvörslu og bjargaði í horn.
Antony var svo aftur á ferðinni stuttu síðar þegar hann fíflaði Burn á kantinum aftur og aftur þar til Joelinton kom og keyrði hann útaf vellinum en endaði á því að brjóta á Casemiro og næla sér í gult spjald. Þetta var það síðasta sem gerðist fyrir hálfleik.
Seinni hálfleikur
Erik ten Hag gerði breytingar í hálfleik, Aaron wan-Bissaka kom inn á fyrir Dalot sem var á gulu spjaldi og augljóst að þeir svarthvítu voru að leita mikið að Saint-Maximin til að keyra á hann. Eddie Howe gerði líka breytingu og setti Alexander Isak inn fyrir Sean Longstaff og fór í 4-4-2.
Strax eftir um 30 sekúndna leik fékk United gott tækifæri. Rashford brunaði þá upp kantinn og renndi boltanum fyrir vítateigsbogann þar sem Fred kom valhoppandi og tók innanfótar skot en lang framhjá markinu. Antony átti líka skot örskammri stund síðar en það var nánast eins og afritað af færinu í fyrri hálfleik, skot fyrir utan og beint í fangið á Karius. Hinu megin á vellinum komst Saint-Maximin enn og aftur á auðan sjó og virtist alltaf líklegur til að láta hlutina gerast en lítið sem ekkert kom út úr því sem hann reyndi. Varnarmenn United höfðu mjög góðar gætur á honum allan leikinn og það hélst allar 95 mínúturnar.
Það hættulegasta sem skapaðist frá Frakkanum voru hornspyrnurnar en á þessum fyrstu 20 mínútum í síðari hálfleik átti United mjög erfitt með að losa pressuna og þó þeir hafi ekki verið í nauðvörn þá komust þeir lítið fram á völlinn. Mesta hættan fyrir framan mark United fram til þessa skapaðist eftir rúmlega klukkustundarleik þegar David de Gea kom út og kýldi fyrirgjöf út fyrir teiginn en aftur barst boltinn inn í teiginn. Þar fengu Newcastle tvö góð skotfæri en bæði skotin hrukku af varnarmönnum áður en þau komust að de Gea.
Á 69. mínútu gerði ten Hag fleiri breytingar, Marcel Sabitzer og Scott McTominay komu þá báðir inn fyrir Weghorst og Fred. Rashford virtist færast þá upp á toppinn. Skömmu síðar skapaðist hætta við mark United þegar Guimaraes átti stórgóða sendingu inn fyrir vörn United og Trippier náði til boltans og kom með lága fyrirgjöf en de Gea skaust eins og köttur úr markinu og sló boltann út í teig. Hins vegar var Trippier flaggaður rangur en það virtist mjög tæpur dómur og því mikilvægt varsla hjá spænska kettinum þó hún telji ekki inn í tölfræðina.
Loksins tókst United að fikra sig framar á völlinn og þegar Newcastle snéri vörn í sókn tókst Sabitzer að vinna boltann á miðjum vellinum og stakk boltanum inn fyrir á Rashford á fleygiferð í átt að markinu. Karius þurfti að hafa sig allan við að verja og gerði það meistaralega og bjargaði í horn. Á 77. mínútu komu svo þeim Joe Willock og Jacob Murphy inn fyrir Saint-Maximin og Guimaraes en á þessum tíma voru United menn dottnir mjög aftarlega og voru að reyna halda fengnum hlut. Newcastle fékk urmul af færum og hornspyrnum en náðu ekki að nýta sér þær en United hins vegar skapaði sér oft hættuleg færi einmitt eftir hornspyrnur Newcastle þar sem þeir neyddust til að ýta mörgum leikmönnum ofar á völlinn og taka áhættu.
Bruno komst á skrið eftir eina slíka með Rashford sér við hlið gegn einum varnarmanni og hefði sjálfsagt átt að nýta færið betur því þegar hann komst inn í vítateiginn ákvað hann að senda boltann yfir á Rashford en boltinn hafði viðkomu í varnarmanninum og beint til Karius. Sancho kom þá inn fyrir Antony þegar um átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Varamaðurinn Jacob Murpphy átti næsta færi þegar hann setti bylmingsskot með utanfótarsnúning rétt framhjá markinu og United stálheppnir að snúingurinn á tuðrunni var of mikill því boltinn virtist vera stefna í bláhornið og de Gea var steinrunninn á marklínunni. Næsta hættulega færið kom þegar Newcastle fengu aukaspyrnu á vinstri kantinum og úr henni kom ágætis fyrirgjöf sem rataði á pönnuna á Joelinton sem oft hefur átt betri leik. En skalli hans var ekki fastur en þó stefndi hann í sveig upp í vinkilinn á fjærstönginni. En enn og aftur kom spænski kötturinn okkur til bjargar og stökk á boltann eins og hann væri girnilegasti hnykill sem nokkur hefur séð og blakaði honum frá markinu.
Loks fengu United aðra skyndisókn þegar Bruno, McTominay og Sabitzer voru komnir þrír á einn varnarmann en Bruno dundaði sér of lengi við að koma boltanum fyrir sig og Karius tókst að loka vel á hann og verja í horn. Leikurinn fjaraði svo út og United héldu áfram að vera þéttir og sigldu sigrinum þægilega í höfn.
Loksins, loksins…
Loksins skilar Manchester United titli í hús eftir tæplega sex mögur ár þar sem liðið hefur ýmis glímt við undanúrslitagríluna eða þá misst leikinn frá sér í úrslitunum sjálfum. Það að vera eina liðið sem er enn í öllum keppnum hefði ekki haft mikla merkingu lengur ef þessi leikur hefði tapast. Núna geta bjartsýnir og óraunsæir stuðningsmenn talað um fernuna áfram en staðreyndin er sú að við erum áfram í öllum keppnum og eigum tölfræðilegan möguleika á að gera nokkuð hreint út sagt magnað. Erik ten Hag neitaði því í viðtali á dögunum að vera hlynntur opinberum fagnaðarlátum ef liðið myndi einungis vinna deildarbikarinn en það mætti skoða það ef liðið myndi vinna tvo titla af þessum fjórum sem í boði eru.
Hins vegar er ljóst að það er mun öflugra fyrir sjálfstraust liðsins og allra sem koma að því að hafa klárað þessa keppni með sigri. Undanfarnar vikur hefur það verið á allra vörum að eitthvað áhugavert er að gerjast hjá United og kvöldið í kvöld hefur undirstrikað það. Liðið hefur öðlast baráttuanda og sjálfstrú sem hefur ekki sést síðan liðið vann síðast deildina og það að vera búnir að gera þetta lið að sigurvegurum á hálfu ári er ekkert minna en kraftaverk. Ten Hag og hans teymi hefur tekið liðsandann í klefanum upp í nýjar hæðir og framtíðin virðist gríðarlega björt fyrir þetta lið með hann við stýrið.
Eflaust hafa fleiri stuðningsmenn setið sveittir í stresskasti fyrir leikinn en áhrif Hollendingsins á leik United hefur gert það að verkum að eftir að mörkin tvö voru komin virtist allt stress fjara út eða svo til þar sem liðið skellti í algjöran lás. Casemiro og Fred hlífðu vörninni eins og við værum að spila með 7 varnarsinnaða miðjumenn og Newcastle tókst ekki að skapa nein færi í síðari hálfleik sem virkilega fengu hjartað til að slá hraðar. Newcastle voru miklu meira með boltann en þrátt fyrir að liðin hefðu átt jafnmörg skot (14) þá rötuðu einungis tvö þeirra á rammann hjá United á meðan níu þeirra fóru á rammann hinu megin.
Maður leiksins var án efa Casemiro, þvílíkur heimsklassa leikmaður sem hann er sama hvað Graeme Souness tautar og raular. Burtséð frá markinu sem hann skoraði þá leysir hann hlutverk sitt af svo mikilli yfirvegun að það færist stóísk ró yfir alla sem eru fyrir aftan hann á vellinum. Miðvarðarparið okkar, Varane og Martinez voru líka eins og þrepaskipt víggirðing fyrir framan vítateiginn og hleyptu hart nær engum boltum framhjá sér og eiga stór hrós skilið fyrir frammistöðu sína rétt eins og oftast.
En liðið spilaði frábærlega og var sigurinn aldrei í raunverulegri hættu að því manni fannst. United hefur núna einungis tapað tveimur af síðasta 31 leik í öllum keppnum og það er hreint út sagt magnað í ljósi þess að ekkert annað lið í toppdeildum Evrópu er að spila jafn þétt og United um þessar mundir. Næsti leikur er núna á miðvikudaginn 1. mars en þá mætir David Moyes á Old Trafford með West Ham í bikarnum og ekkert annað á teningnum en sigur þar til að komast í 8-liða úrslitin. En hvernig sem svo sá leikur fer þá fáum við a.m.k að njóta í bili!
EgillG says
Vid tökum þessa helv..dollu!!
Þorsteinn says
Það er ofboðslega gaman að fylgjast með liðinu í dag, greinilega komin góð stemmning í klefann, sigurinn á móti Barcelona frábær og síðan æðislegt að vinna þennan bikar. Það væri algerlega frábært hjá liðinu að taka Europa League líka og lenda í öðru til þriðja í deild – þá væri ég allavega mjög sáttur. Síðan neglum við í Englandsmeistara titilinn á næsta tímabili.
Helgi P says
Það ótrúlegt að real madrid hafi viljað selja Casemiro þvílíkur leikmaður
S says
ahh geggjað að sjá bikarinn á loft! Glory Glory