United mætir Everton í hádegisleiknum á morgun en um er að ræða fyrsta leik 30. umferðar. Í miðri viku lagði liðið Brentford sem var torsóttur en góður sigur enda hafði Thomas Frank og hans lærisveinar ekki tapað nema stökum leik af síðustu 17 viðureignum sínum í deildinni. Af þeim liðum sem Brentford mætti á þessu tímabili voru Liverpool, Arsenal, Tottenham og City en síðasta tapið kom einmitt gegn næstu mótherjum okkar manna, Everton.
Það er erfitt að segja að þessi leikur geti kallast skyldusigur því þó hann sé á heimavelli þá hafa Everton verið harðir í horni að taka og gefa ekkert erfitt og alls ekki um sama lið að ræða og mætti okkur fyrr í leik á Goodison Park í október sem endaði 2-1 þar sem United virtist vera með yfirhöndina mestallan leikinn. United hefur reyndar mætt Everon fyrr á leikíðinni á Old Trafford í bikarleik sem endaði 3-1 sem virtist endurtekning á því sama og í fyrri leiknum. En þá var annars stjóri og öldin önnur.
Everton
Everton hefur gengið illa á leiktíðinni en liðið situr í 16. sæti deildarinnar með jafnmörg stig og Bournemouth og einungis ofar á markatölu. Það er að miklu leyti tilkomið vegna þess hve illa liðið fór af stað á leiktíðinni en Everton tapaði fyrstu tveimur leikjunum og var án sigurs í fyrstu sex. Þá komu tveir góðir sigrar en eftir það hrundi liðið og tapaði sex af næstu átta leikjum og sat í fallsæti um áramótin þegar þeim tókst að klóra í stig gegn Man City 31. desember. En aftur fóru þeir að tapa leikjum og að lokum var Lampard látinn taka pokann sinn og í hans stað kom Sean Dyche með sína strangheiðarlegu „no bullshit approach“ aðferðafræði og er aðeins búinn að fá þá til að rétta úr kútnum.
Liðið hefur núna ekki tapað í síðustu fjórum leikjum og má segja að þeir séu komnir á smá skrið enda hitti Sean Dyche nokkra gamlakunna lærisveina sína hjá Everton sem komu í sumar, Dwight McNeil, Michael Keane og James Tarkowski. Það er talsverður munur á boltanum sem Everton spilar og Burnley spilaði undir hans stjórn. Sem dæmi má nefna uppstillinguna en hann hefur verið að notast við 4-5-1 og 4-1-4-1 síðan hann kom en Burnley virtust læstir í gamla góða 4-4-2 kerfinu.
Það sem Dyche hefur hins vegar fengið þetta Everton lið til að gera er að berjast til síðasta blóðdropa í allar 90 mínúturnar sem er meira en forveri hans getur sagt. Til marks um það má einmitt nefna síðasta leik liðsins þar sem þeir lentu marki og manni undir snemma í leiknum en tókst hins vegar að nappa jafnteflinu áður en dómarinn flautaði leikinn af einmitt með hörku baráttu og áræðni.
Fyrir leikinn á morgun eru nokkrir leikmenn á meiðslalistanum og svo fékk Abdoulaye Doucoure að líta rauða spjaldið í leiknum gegn Tottenham á mánudaginn var eftir að hann skemmdi gerviaugnhárin hans (munnleg heimild: Sean Dyche) og verður því í leikbanni, rétt eins og Casemiro hjá okkur sem tekur út þriðja leikinn í fjögra leikja banni. Aðrir sem ekki verða í hópnum á morgun eru þeir Townsend, Vinagre og Calvert-Lewin en framherjinn er nánast varla búinn að snerta grasið í deildinni í vetur.
Manchester United
Það var erfiður og torsóttur sigur gegn Brentford á miðvikudaginn var en þrjú stig enduðu á töflunni sem var gífurlega mikilvægt í ljósi úrslitanna um helgina og á mánudagskvöldið. Sem stendur er liðið í mikilli baráttu við Tottenham og Newcastle um þetta mikilvæga sæti í Meistaradeildinni en ekki nóg með það þá þurfti liðið að svara fyrir getuleysið og kraftleysið frá því á St. James’ Park á sunnudaginn.
Það fréttnæmasta við þennan leik gegn Everton er að kurteisi og vinalegi Daninn okkar, Christian Eriksen, er loksins kominn aftur í hóp en án hans hefur liðið verið mun hugmyndasnauðara á fremsta þriðjungi vallarins og öll tölfræði rökstyður það. Miðjumennirnir okkar hafa ekki beint verið að stíga nægilega mikið upp í fjarveru hans og Casemiro en McTominay og Sabitzer byrjuðu á miðvikudaginn var og áttu óvenju fínan leik.
Leikurinn gegn Brentford sá okkar menn loksins brjóta múrinn eftir að vera ekki búnir að skora í 3 leiki í röð í deildinni en það eru samt bilkur á lofti með það því svo virðist sem liðið sé ófært um að skora mörk ef Marcus Rashford gerir það ekki fyrir okkur. Án hans virðist engin hætta skapast, Antony hefur ekki ennþá reimað á sig réttu skóna og Sancho er skugginn af Dortmund-Sancho, Weghorst virðist ófær um að finna markið þó hann hlaupi um allan völlinn að leita, Bruno er að spila dýpra en nokkru sinni áður fyrir United og Garnacho er meiddur. Eini vonarneistinn virðist vera sá að Anthony Martial virðist vera að komast í leikform aftur og það styttist í Casemiro og Eriksen.
Aðrir á meiðslalistanum eru Luke Shaw (sem fór útaf í leiknum gegn Brentford en óljóst er hvort hann geti verið með á morgun), Tom Heaton og svo Donny van de Beek og Garnacho einsog áður sagði. Því spái ég liðinu svona:
Leikurinn hefst kl 11:30 og á flautunni verður stórvinur vors og blóma, Michael Oliver. Koma svo!
Skildu eftir svar