Tæpt var það, Teitur. Manchester United marði heimasigur gegn Nottingham Forest 3-2 í leik sem vissulega þandi taugarnar óþægilega mikið. Veðrið hafði sitt að segja en himnarnir hreinlega opnuðust í miðjum leiknum og úrkoman í Manchesterborg hefur verið mæld í tommum en ekki millimetrum. Það gerði leikmönnum erfitt um vik og boltinn var augljóslega þungur og óútreiknanlegur.
Erik ten Hag neyddist til að gera breytingar á liðinu þar sem Luke Shaw var frá vegna meiðsla. En það var ekki eina breytingin heldur tók hann Garnacho út úr liðinu og í hans stað kom Anthony Martial sem þýddi að Rashford fór á vinstri vænginn.
Á bekknum voru þeir Henderson, Maguire, Lindelöf, Pellistri, Sancho, Gore, Garnacho, McTominay og Fernandez.
Steve Cooper gerði mannabreytingar og uppstillingarbreytingar á Forest liðinu sem vann Sheffield United í síðustu viku. Hann stillti upp í 3-4-2-1 leikkerfi og í liðið kom Yates í stað Mangala. Að öðru leyti var liðið óbreytt.
Þeir sem vonuðust eftir öflugri byrjun á þessum leik hafa ekki verið sviknir. En United brunaði upp í sókn og uppskar hornspyrnu strax á fyrstu sekúndum leiksins. Það var upphafið af skelfilegum kafla þar sem gestirnir náðu að hreinsa boltann út úr teignum og unnu seinni boltann. Einungis Antony og Rashford voru fyrir utan teiginn þar sem boltinn barst á Taiwo Awoniyi sem tók á sprett og hristi Rashford af sér og var einn á auðum sjó með allan United vallarhelminginn fyrir framan sig og boltann líka. Nígeríumaðurinn bar boltann inn í teig, tók smá gagnhreyfingu til að plata Onana og lagði boltann svo í hægra hornið þó Onana hefði náð að koma við boltann. 1-0 fyrir gestina og ekki komnar 90 sekúndur á klukkuna hjá Stuart Atwell.
United fór úr öskunni í eldinn skömmu síðar. Heimamenn gáfu klaufalega aukaspyrnu á vinstri kantinum. Fyrirgjöfin kom og Lisandro Martinez skallaði boltann frá en fór ekki betur en svo að boltinn fór í höfuðið á Willy Boly og þaðan í markið framhjá Onana sem virtist ekki sjá boltann fyrr en hann snerti netið. Staðan orðin 2-0 og ekki komnar fimm mínútur gegn liðinu með einn slakasta árangur á útivelli á síðustu leiktíð.
United reyndu hvað þeir gátu að girða sig í brók eftir þessa tvöföldu rassskellingu en þrátt fyrir að vera 91% með boltann fyrsta korterið eða svo, var lítið að frétta fyrir framan mark gestanna. Það reyndi lítið á Matt Turner í markinu enda datt vörn gestanna mjög djúft og hugðist halda fengnum hlut. Það virtist leikmönnum United ansi strembið framan af að halda tempóinu í leiknum því margir þeirra áttu slakar sendingar og fyrsta snertingin brást mörgum.
Það kom svo loksins að því á 17. mínútu eftir þunga pressu United að stíflan brast. Bruno átti skot fyrir utan teig sem Turner varði út í vítateiginn þar sem Rashford komst á boltann. Hann tók þríhyrningaspil við Martial og komst upp að endalínunni og sendi boltann inn í markmannsteiginn. Þar var kominn svífandi léttur Dani á fleygiferð, þó ekki Hojlund heldur Christian Eriksen sem tók temmilega netta snertingu með utanverðri ristinni á boltann og stýrði honum í fjærhornið og breytti stöðunni í 2-1.
Það liðu ekki nema þrjár mínútur áður en næsta tækifæri féll okkur í skaut þegar Casemiro átti þrususkot sem Turner þurfi að verja en gerði það líka vel. Gestirnir héldu að sér höndunum og fóru ekki mikið fram völlinn á þessum tíma. Þegar 26. mínútur voru liðnar kom næsta dauðafærið þegar United fékk hornspyrnu eftir skot frá Bruno Fernandes. Úr horninu kom fyrirgjöf sem rataði á pönnuna á Casemiro sem stóð einn og óvaldaður við fjærstöngina. En þrátt fyrir að markvörðurinn væri viðsfjarri og markið stóð autt tókst okkar manni að skalla framhjá stönginn sem hefur líklegast verið erfiðara en að skalla inn í tómt markið.
Aron Wan-Bissaka átti fínan leik og sýndi laglega takta þegar hann potaði boltanum framhjá varnarmanninum sem stóð eins og pottaplanta á meðan Englendingurinn hljóp kringum hann og reyndi að koma boltanum inn í teiginn en færið rann út í sandinn. Áfram hélt United að blása og blása en virki heimamanna hélt fram að hálfleik og andrúmsloftið á Old Trafford virtist eima af einhvers konar vonleysi um að liðið væri fært um að ná inn tveimur mörkum í viðbót þrátt fyrir að vera miklu meira með boltann.
Síðari hálfleikur
Erik ten Hag var ekki séttur við fyrri hálfleikinn rétt eins og sérhver United maður og hann var ekki að bíða með skiptingarnar. Lindelöf kom inn fyrir Varane sem var búinn að vera frekar daufur í leiknum. Honum hefur líklegast líka tekist að hrista aðeins upp í leikmönnunum því þeir virtust ekki mæta huglausir inn í síðari hálfleikinn eins og í Tottenham leiknum. Það leið ekki á löngu áður en fyrsta markverða atvikið leit dagsins ljós.
Fyrirliðinn og töframaðurin Bruno Fernandes tók aukaspyrnu út á vængnum en boltinn endaði hjá Rashford sem var utan við teiginn. Sá enski átti hins vegar gullfallega fyrirgjöf inn í teiginn, beint á ennið á Bruno sem skallaði boltann yfir á fjærstöngina þar sem Casemiro kom á ferðinni, tók hálfvandræðalega snertingu með innanverðu lærinu en tókst samt sem áður að skófla boltanum inn í netið og bæta þar með upp fyrir mistökin fyrr í leiknum. 2-2 og Old Trafford tók við sér að nýju enda meira en 40 mínútur eftir af leiknum með viðbótartíma.
Leikmenn liðsins nýttu sér það sem byr undir báða vængi og einungis tveimur mínútum eftir markið fékk Antony stórhættulegt færi þar sem hann tók hreyfingar sem hann er þekktur fyrir og leitaði inn á völlinn og skaut með vinstri fæti, snúningstuðru sem skrúfaðist í áttina að innanverðu hliðarnetinu en Matt Turner kom eins og þruma úr heiðskýru með sjónvarpsvörslu og bjargaði í horn.
United hélt áfram að þjarma að gestunum sem vörðust vel og settu 10 útileikmenn fyrir aftan boltann flestum stundum. Þar til á 67. mínútu þegar Bruno fékk háa stungusendingu inn fyrir varnarlínuna og fyrirliðinn Worrall ákvað að reyna klæða hann úr í stað þess að hleypa honum einum inn fyrir. Stuart Atwell var ekki lengi að rífa upp rauða kortið og senda Worrall í sturtu. VAR herbergið staðfesti dóminn og gestirnir orðnir einum manni færri þegar 23 mínútur lifðu eftir af leiknum.
Aukaspyrnan var eitthvað sem United menn vilja fljótt gleyma, Bruno ætlaði að taka renna boltanum á Diogo Dalot sem stóð tiltölulega einn og óvaldaður vinstra meginn í teignum en portúgalski bakvörðurinn var með hugann einhvers staðar allt annars staðar en á Old Trafford það augnablik og virtist búast við skoti frá samlanda sínum.
Loksins virtist Rashford fá sitt gamla sjálfstraust aftur þegar hann tók Danilo á og með laglegri elastico hreyfingu setti hann Danilo úr jafnvægi og komst framhjá honum utanvert og tók af rás inn í teig. Danilo reyndi að stöðva hann en fór í hægri löppina á Rashford og Atwell benti á vítapunktinn óhikað. Takmörkuð snerting en vissulega hægt að færa góð rök fyrir því að hann stöðvar Rashford ólöglega og fyrirliðinn fékk að stilla sér upp.
Matt Turner valdi rétt horn en Bruno var öryggið uppmálað og setti boltann bæði fast og alveg út við stöngina og kom United yfir í fyrsta sinn í leiknum. 3-2 og stuðningsmennirnir trylltust í stúkunni.
En gestirnir lögðust ekkert í kör heldur færðu sig framar á völlinn og hafa eflaust tvíelfst þegar þeir sáu að uppbótartíminn var heilar 11 mínútur. Þeim tókst að þvinga Onana í sjónvarpsvörslu á 84. mínútu eftir að Willy Boly skaut boltanum af stuttu færi og í endursýningu sást að boltinn stefndi inn í markið út við stöngina. Virkilega vel gert hjá nýja markverðinum okkar sem hafði ekkert átt sérstakan dag í rammanum.
En honum tókst þó að halda markinu tómu út uppbótartímann jafnvel þótt leikurinn gengi langt fram yfir uppgefnar 11 mínúturnar og 3-2 baráttusigur á heimavell gegn Nottingham Forest staðreynd.
Pælingar eftir leikinn
Þessi leikur spilaðist ekki eins og höfundur vonaðist eftir. Enn og aftur virðast leikmennirnir okkar ekki mæta með rétt hugarfar frá upphafi til enda leiksins og það kostar okkur mistök og mörk. United var mun meira með boltann eins og búist var við enda er mótherjinn ekkert ófeiminn við að sitja djúpt og beita skyndisóknum. Þær svínvirkuðu og leikplanið gekk vel eftir. United var 67% með boltann og var með 2,91 xG og skoraði 3 mörk. Jafnframt var liðið með 18 skot og fengu fjögur dauðafæri (big chances) á sama tíma og Nottingham Forest var með eitt slík og xG 1,24 en skoraði tvö.
Byrjum á gagnrýninni svo hægt sé að enda á betri nótum. Liðið er alls ekki vel still saman í öftustu línu. Martinez og Varane virtust ekki tala sama tungumálið í fyrri hálfleiknum og bakverðirnir voru oft víðsfjarri enda leikplanið þannig að þeir áttu að leita inn á miðjuna. Martial var alls ekki upp á sitt besta og tókst engan veginn að réttlæta það að byrja aftur í næsta leik en Rasmus Hojlund verður að öllumlíkindum klár þá og mögulega var þetta tækifærið fyrir Frakkann.
Onana virtist ekki geisla af sér sama sjálfstrausti og -öryggi og hann gerði fyrr í mánuðinum. Hann var ragur af línunni og hefði mögulega geta gert betur í öðru markinu. Liðið í heild skortir sjálfsöryggi og greddu til að mæta inn í leikina og það verður að skrifast á stjórann.
En þetta voru þrír punktar á heimavelli og þrátt fyrir að mótherjinn hafi ekki verið hátt skrifaður á blaði fyrir þessa leiktíð þá náðu þeir í góð úrslit á síðustu leiktíð og létu Arsenal menn virkilega hafa fyrir hlutunum í fyrstu umferðinni. Bruno Fernandes var augljóslega maður leiksins en Portúgalinn var alls staðar á vellinum og sinnti báðum hlutverkum sínum, sem fyrirliði og sem skapandi miðjumaður, af einskærri snilld. Þá var það auðvitað við hæfi að hann var sá sem rak smiðshöggið á endurkomusigurinn með vítaspyrnunni.
United er nú með sex stig eftir þrjá leiki og vonandi eru einhverjar stíflur brostnar í markaskoruninni og menn að komast í gang enda ekki seinna vænna. Vonandi blæs þessi endurkoma nýju lífi og sjálfstrausti í okkar menn enda stórleikur um næstu helgi þegar liðið mætir á Emirates völlinn gegn Arsenal senm sitja fyrir ofan okkur með 7 stig. Sá leikur er á sunnudaginn 15:30.
Helgi P says
Maður er farinn að missa alla trú á Ten Hag þetta er nú meira drasl liðið sem hann er að setja saman
Bjarni says
Með hvaða hugarfar fóru menn í leikinn, alveg hreint til skammar fyrstu mínúturnar. Reyndar minnkuðu muninn núna en það sjá það allir að það virðist vera auðvelt að keyra á okkur.
Egillg says
Úff….aldrei í hættu
Tony D says
Þessi byrjun… úff!!!
Sem betur fer slapp þetta fyrir horn og gott að hafa tekið þessa 3 punkta. En það virðist eitthvað mikið vera að í hópnum og það þarf eitthvað hressilegt til að koma liðinu almennilega í gang. Þetta er einfaldlega ekki boðlegt og betra lið hefði refsað hressilega.
Það hringja ansi margar viðvörunarbjöllur ansi hátt og spurningin er hvort okkar menn séu að fara að taka þátt í þessari deild? Það er einfaldlega ekki nóg að mæta inn á völlinn. Þessi tvö mörk sem gestirnir skoruðu, maður minn lifandi. Ég á ekki orð…
En að þessu sögðu þá gekk sóknarlega vel að skapa færi og skjóta á markið. Það er allavega bónus. Áfram í næsta leik og gera töluvert betur þar.
Hjöri says
Hefur það nokkurntíman skeð að Utd hafi fengið á sig 2 mörk á fyrstu fjórum mínútunum?
Egill says
Þetta er ekki boðlegt. Sem betur fer var þetta Nottingham Forest en ekki eitthvað lið sem verður ofar en 16. sæti í vor.
Liðið er ekki tilbúið, illa þjálfað og virðist ekki í formi. Þeir leikmenn sem ETH hefur verið að kaupa eru annaðhvort hreinlega lélegir eða virka á síðustu metrunum. Það eru ENGAR framfarir frá því í fyrra.
Ronaldo og De Gea áttu að vera vandamálið í fyrra, svo held ég að menn hljóti að átta sig á því að það var kjaftæði. Rashford, Antony, og Martial hafa ekkert að gera í þessu liði. Rashford virkar fínt fyrir lið sem sitja til baka og sækja á skyndisóknum, og bara þá. Martial er lúxus leikmaður sem gæti virkað fínt í góðu liði, ekki okkar liði. Antony er svo bara rusl eins og flest annað sem þessi þjálfarabjáni kaupir.
Þvílíka samansafnið af rusli sem þetta lið er, og þar er þjálfarinn fremstur meðal jafningja.
Frikki says
Hvaða væl er þetta, leiktíðin rétt að byrja og 6 stig komin í hús. Vorum óheppnir að fá ekkert út úr tottenhamleiknum í hörkuleik. Tel okkur ásamt city líklegasta til að taka dolluna. Erum með hörkulið og góða breidd.
Auðunn says
Þótt byrjunin á tímabilinu hafi ekki verið neitt sérstaklega góð þá finnst mér að menn mættu nú alveg anda aðeins með nefinu og falla ekki í þá gryfju að hrauna yfir ETH strax. Við skulum ath það að hann er á sínu öðru tímabili og það er ekki hægt að segja annað enn að hann sé búinn að gera góða hluti so far.
Ná þriðja sætinu, bikar og úrslitaleikur í FA cup á sínu fyrsta tímabili er meira en mörgum öðrum hefur tekist.
Ef við ættlum að skipta um þjálfara á 6 eða 12 mán fresti þá getum við gleymt því að ná einhvertíma árangri.
Það má jú alveg setja út á einhver kaup hans, sumir hafa einfaldlega ekki staðið sig en það má segja um leikmenn sem fyrir voru .
ETH þarf fullan stuðning stjórnarinnar, vandamálið virðist hinsvegar vera að koma þessum mönnum sem hann vill losna við út. Þeir eru vel launaðir og hafa það bara ansi gott þótt það sé engin not fyrir þá.
Ingi says
Ég skil ekki alveg hvaða pönk Martial er að fá úr þessum leik. Ég var handviss um að ef hann myndi byrja og Rashford færi í sína stöðu að við myndum skora mörk. Ógnin af Rashford kemur þar, ekki þegar hann snýr baki í markið því hann kann ekki og vill ekki spila sem fremsti maður. Um leið og Rashford er vinstra megin vita andstæðingarnir meira af honum og það dregur fleiri menn að honum. Martial átti þríhyrningin við hann og dróg til sín varnarmann þegar Eriksen skoraði og Martial hreinsaði upp boltann og lagði hann á Rashford þegar hann fékk víti.
Þetta var amk 10x betri sóknarleikur en í fyrstu tveimur leikjunum og vonandi er Ten Hag búinn að sætta sig við það að Rashford virkar bara í einni stöðu.
Ingi says
Ég skil ekki alveg hvaða pönk Martial er að fá úr þessum leik. Ég var handviss um að ef hann myndi byrja og Rashford færi í sína stöðu að við myndum skora mörk. Ógnin af Rashford kemur þar, ekki þegar hann snýr baki í markið því hann kann ekki og vill ekki spila sem fremsti maður. Um leið og Rashford er vinstra megin vita andstæðingarnir meira af honum og það dregur fleiri menn að honum. Martial átti þríhyrningin við hann og dróg til sín varnarmann þegar Eriksen skoraði og Martial hreinsaði upp boltann og lagði hann á Rashford þegar hann fékk víti.
Þetta var amk 10x betri sóknarleikur en í fyrstu tveimur leikjunum og vonandi er Ten Hag búinn að sætta sig við það að Rashford virkar bara í einni stöðu og við Utd stuðningsmenn líka.