Manchester United mætir í heimsókn á Emirates völlinn í Lundúnum á morgun (sunnudag) og mætir það liði Arsenal klukkan 15:30. Lærisveinar Erik ten Hag munu leitast þar við að landa fyrsta útisigri United á tímabilinu. Heimasigrar gegn Wolves og Nottingham Forest og tap gegn Tottenham þar á milli er uppskera United eftir þrjár umferðir í ensku úrvalsdeildinni. Það er aðeins ein umferð í úrvalsdeildinni áður en okkur úrvalsdeildarunnendum er kippt niður á jörðina með einu stykki landsleikjahléi. Já aðeins ein umferð áður en þessar tæpu tvær landsleikjavikur stöðva skemmtilegustu deild í heimi og bjóða okkur frekar upp á Svartfjallaland – Búlgaría. Það er heldur betur ærið verkefni sem bíður United í seinasta leik fyrir landsleikjahlé en Arsenal eru farnir að gera sig heldur betur gildandi á nýjan leik. Skytturnar frá norður-London voru stóryrtir eftir gott gengi á síðustu leiktíð (tjah fyrir utan kannski apríl og maí) og ætla sér heldur betur að pakka þessari deild saman, a.m.k. láta stuðningsmenn liðsins þannig á samfélagsmiðlum.
Gluggadagur og félagsskipti
United voru líflegir seinustu daga og klukkutíma félagsskiptagluggans, Sergio Regulion og Sofyan Amrabat komu á láni til félagsins og þá koma markmaðurinn Altay Bayindir sömuleiðis. Sergio Regulion kemur þar sem Luke Shaw og Malacia eru báðir meiddur og verður hægt að senda hann tilbaka til Tottenham í janúar ef að ekki er þörf á kröftum hans lengur. Sofyan á hinn bóginn kemur til United á láni með möguleika um kaup eftir tímabilið ef að hann stendur sig vel. Teden Mengi var seldur til Luton og Marc Jurado skrifaði undir hjá Espanyol. Þá fóru Charlie McNeill, Alvaro Fernandez og Logan Pye allir á lán (Pye -> Stevenage, McNeill -> Burnley og Fernandez -> Granada). Þá kláruðust félagsskipti Dean Henderson til Crystal Palace sem höfðu legið lengi í loftinu.
Arsenal gerði nú ekki mikið á loka dögum gluggans en voru ágætlega aktívir fyrr í glugganum og fengu til sín þá Declan Rice, Jurrien Timber, Kai Havertz og David Raya (á láni).
Meiðsli
Nýjasti meðlimur meiðslalista United er Raphael Varane, en meiðsli hans eftir leikinn gegn Nottingham Forest voru staðfest á miðvikudaginn. Luke Shaw, Kobbie Mainoo, Tyrell Malacia, Tom Heaton og Amad eru allir fjarri góðu gamni, sem og Mason Mount. Það virðist hins vegar allt benda til þess að Rasmus Hojlund sé að verða tilbúinn en Ten Hag sagði að hann gæti mögulega byrjað gegn Arsenal.
Hjá Byssumönnum meiddist Jurrien Timber á hné í opnunarleik leiktíðarinnar gegn Nottingham Forest og verður hann frá í langan tíma. Gabriel Jesus er kominn af stað en óljóst hvort að hann geti byrjað gegn United.
Líkleg byrjunarlið
United:
Þrátt fyrir smá „tease“ frá Ten Hag um að Hojlund geti mögulega byrjað og að Reguilon sé kominn þá spái ég óbreyttu liði frá leiknum gegn Forest með einni breytingu. Varane er meiddur og tel ég alveg öruggt að Lindelöf komi inn í hans stað. Það gæti vel verið að Hojlund byrji þar sem Martial var talsvert slappur gegn Forest en ólíklegt er að hann sé tilbúinn í heilan leik. Það er líka eitthvað sem segir mér að Ten Hag gæti komið öllum á óvart og látið McTominay byrja á kostnað Eriksen.
Arsenal:
Stuðningsmenn Arsenal hafa kallað eftir því í upphafi tímabils að Arteta breyti um uppstillingu og færi sig aftur í það skipulag sem virkaði fyrir þá lengst af á seinasta tímabili. Það myndi þýða að Gabriel kæmi inn í liðið og ýtti Ben White út í hægri bakvörð, Thomas Partey sem hefur leikið þar í upphafi tímabils myndi þá fara inn á miðju líklegast á kostnað Kai Havertz. Ég vona þó að hann breyti engu þar sem Arsenal hefur ekki litið jafn vel út í byrjun tímabils og á seinasta tímabili, þá virðist Kai Havertz ekki vera alveg kominn í takt við Arsenal liðið þó Arsenal menn reyni að halda öðru fram. Nketiah, Jesus eða Trossard gætu allir byrjað sem fremsti maður en ég held þó að Jesus sé kannski ekki alveg tilbúinn.
United hefur unnið Arsenal 99 sinnum í öllum keppnum í gegnum tíðina, í þessum 238 leiki á milli félaganna. Arsenal hafa hins vegar unnið 86 af þessum leikjum. Sigri Rauðu Djöflarnir á Emirates á sunnudaginn, munu sigrarnir verða 100 – og yrði United fyrsta liðið til þess að sigra Arsenal 100 sinnum. Leikurinn er mikilvægur og er kannski fyrsta alvöru prófið á tímabilinu, United liðið virðist alltaf vera í betra og betra standi, kannski ekki skrítið því það virtist vera við frostmark í fyrsta leik gegn Úlfunum. Þá hefur líka lifnað aftur yfir ríg United og Arsenal stuðningsmanna sem virtist vera látinn, kistulagður og grafinn. Rígurinn sem litaði deildina frá 1996 með komu Arsene Wenger og gerði það næsta áratuginn og endaði óumdeilanlega með sigri Sir Alex Ferguson, virðist eins og Jesús (ekki Gabriel eða Navas) vera risinn aftur og montrétturinn svo sannarlega kominn aftur á borðið. Ef stuðningsmenn vilja hita enn betur upp fyrir stórleikinn þá mæli ég með heimildarþætti á YouTube „The Feud – Sir Alex Ferguson vs Arsene Wenger – Exclusive Documentary“.
Helgi P says
Glazer draslið hættir við að selja þessi klúbbur er ekki hægt