Eftir uppskerulítið ferðalag til Þýskalands þar sem Rauðu djöflarnir heimsóttu ríkjandi meistara þar á bæ er röðin aftur komin að deildarleik á enskri grund, í þetta sinn gegn Burnley. Síðasti leikur þeirra var viburðarrík viðureign gegn Nottingham Forest sem lauk með 1-1 jafntefli en United spilaði við Bayern í miðri viku. Nú þegar hefur tímabil United verið dæmt dautt og jafnvel einhverjir svartsýnir stuðningsmenn farnir að trúa því að liðið verði mögulega ekki í Meistaradeildarbaráttunni í ár. Liðið situr í 13. sæti deildarinnar og nú þegar orðið 9 stigum á eftir nágrönnum sínum á toppnum. Til að bæta gráu ofan á svart þá er United á botni riðilsins í Meistaradeildinni þar sem FC Kaupmannahöfn og Galatasary gerðu 2-2 jafntefli.
Það er því nokkuð til í því að byrjunin lofi ekki góðu. En batnandi mönnum er best að lifa og ef litið er til næstu leikja liðsins ætti Erik ten Hag að ná að þræða í gegnum næstu vikur og safna sigrum og stigum á töfluna því 6 af næstu 7 leikjum (í öllum keppnum) eru á heimavelli. Eftir leikinn gegn Burnley fylgja tvær viðureignir við Crystal Palace (H), svo Brentford (H), Sheffield (Ú) og loks Man city (H) auk þess að liðið mætir FCK og Galatasary mitt á milli þessara leikja.
Burnley
Vincent Kompany tók við liðinu eftir að þeir féllu úr deild þeirra bestu eftir að hafa hangið uppi í þónokkur ár með aðferðafræði Sean Dyche sem gekk að mati sumra út á grjótharða, enska knattspyrnu þar sem ekkert var gefið eftir og líkamlegt atgervi og vinnusemi í hávegum höfð.
Margir töldu að það hefðu verið mistök að reka Dyche sem hafði gert ótrúlega hluti með liðið með verulega takmarkaðri fjárhagsaðstoð. En hann var látinn taka pokann sinn og þeir ákváðu að taka áhættu með því að ráða belgíska varnartröllið sem Kompany er og var og margir bjuggust við varnarsinnuðu og vel skipulögðu liði en það plan var ekki það sem Kompany hafði í huga. Í staðinn spilaði liðið glimmrandi fallegan og blússandi einbeittan sóknarbolta og gjörsamlega pakkaði saman Championship deildinni með 101 stig og +52 í markatölu.
Það má því segja að Burnley hafi tekið hraðlestina upp í Ensku úrvalsdeildina aftur og fyrir nýliða í deildinni þá var þeim samt ekki spáð miklu ströggli, svona samanborið við Sheffield og Luton. En byrjun Burnleymanna hefur reyndar verið ansi stembing og sitja þeir sem stendur í næstneðsta sæti deildarinnar með eitt stig úr leiknum á mánudaginn. Það er samt vissara að nefna það að þeir spiluðu ekki í 2. umferðinni þegar þeir áttu leik gegn Luton Town þar sem heimavöllur Luton var ekki tilbúinn.
Burnley spilar heimaleikina sína á Turf Moor sem er 140 ára á þessu ári. Liðið á sér langa sögu og hefur alla jafna verið viðloðandi efstu eða næst efstu deild Englands nánast frá upphafi ef frá er talið tímabilið 1980-2000 þegar liðið barðist fyrir lífi sínu í neðri deildunum (League One og Two í dag). Liðið komst í raun svo nálægt því að hverfa út atvinnumannadeildunum að það var ekki nema fyrir þá staðreynd að þeim tókst að vinna í lokaumferðinni á tímabilinu 1986/87 á meðan fallbaráttufélagar þeirra gerðu ekki svo vel. En síðan þá hefur leiðin legið upp á við þrátt fyrir að liðið hafi daðrað við falldrauginn þessi síðustu ár.
Kompany er vanur að stilla upp í 4-2-3-1 en er frekar sveigjanlegur eftir því hver mótherjinn er. Hann hefur t.a.m. beitt 4-4-2, sem Burnley stuðningsmenn þekkja allvel, en hann hefur líka sett niður 5-4-1 og 4-3-3. Það kann samt að vera að hann leggi upp með að þeir séu þéttir til baka og reiða sig á föst leikatriði og skyndisóknir þar sem búast má við að United verði meira með boltann. Þessi lið mættust í desember á síðasta ári í bikarnum þar sem United fór með sigur af hólmi 2-0 en þrátt fyrir að vera á heimavelli voru yfirburðir United ekki miklir en einstaklingsgæðin skiluðu þeim sigri.
Burnley fengu til liðs við sig í sumar þá James Trafford, Zeki Amdouni, Aaron Ramsey, Jordan Beyer og Sander Berge auk þess að fá Wout Weghorst til baka frá Old Trafford. Eins og með United þá hefur liðinu reynst erfiðast að setja boltann í netið en liðið er einungis búið að skora 4 mörk en United hefur skorað helmingi meira eða 6 mörk en Burnley hafa spilað einum leik færra.
Þegar kemur að liðsuppstillingu tel ég að Kompany stilli upp í 5-4-1 rétt eins og gegn City í 3. umferðinni en það er af og frá að hann fari inn í þennan leik gegn United án þess að telja sig eiga möguleika á öllum þremur stigunum, enda um vængbrotinn og haltan mótherja að ræða. Því spái ég liðinu á þennan veg:
Lyle Foster er í banni eftir að framherjinn náði sér í rautt spjald í uppbótartíma gegn Nottingham Forest á mánudaginn en annars eru Obafemi, Ekdal, Churlinov og Vitinho eru á meiðslalistanum.
United
Þegar rignir þá hellirignir. Það má segja um United þessa dagana. Slúðrið flýgur út eins og heitar lummur og fátt virðist veita liðinu nokkurn meðvind. Fyrir leikinn gegn Bayern voru eflaust margir stuðningsmenn sem óskuðu sem minnsta tapinu, fáir hafa búist við að liðið væri að fara gera nokkurn skapaðan hlut á þýskri grund. En nú eru liðnir 6 leikir af tímabilinu og fjórir þeirra hafa tapast. Það er hroðalegt á alla mælikvarða. En Erik ten Hag hefur sýnt það áður að honum hefur tekist að snúa við taflinu en það þarf margt að gerast á næstu vikum ef honum á að takast að létta lund stuðningsmanna liðsins.
6 stig eftir 5 leiki er ekki boðlegt en sumir hafa bent á erfitt leikjaprógram og reynt að fela sig bak við slíkar staðreyndir en staðreynd málsins er að United hefur ekki verið að spila nálægt getu og þegar þeim hefur tekist það þá endist það ekki nema í 20-25 mínútur í hverjum leik. Liðið hefur kreist fram tvo sigra með skrautlegum hætti í bæði skiptin og verið langt frá því að vera sannfærandi. Það er því miður bara ein leið til að svara gagnrýninni og það er með því að spila betur og vinna leiki.
Erik ten Hag lét hafa eftir sér að hann hefði aldrei frá því hann kom til United, spilað með „sitt sterkasta lið“ vegna meiðsla. Á þessu tímabili hafa hver meiðslin á fætur annarra dunið á liðinu rétt eins og um bráðsmitandi veiru væri að ræða. Nýju leikmennirnir Amrabat og Hojlund misstu af fyrstu leikjunum eftir að meiðsli komu í ljós við læknisskoðunina og Mount, Dalot, Shaw, Maguire, Malacia, Varane, Martinez, Mainoo og Martial hafa svo líka verið að glíma við meiðsli og misst úr leiki. Svo þarf varla að minnsta á hægri kantmennina okkar sem eru utan hóps.
En eðlisfræðin segir okkur að þegar botninum er náð er einungis hægt að fara upp á við og ekki annað hægt en að United spyrni sér nú af stað inn í tímabilið enda ekki seinna vænna. Í jákvæðni minni ætla ég að vonast til að Amrabat fái að byrja þennan leik gegn Burnley þar sem Eriksen spilaði í miðri viku og McTominay hefur ekki verið að heilla neinn annan en skoska landsliðsþjálfarann og skosku þjóðina að undanförnu.
Rasmus Hojlund kemur svo með ferskleika sem minnir óneitanlega á það þegar Adnan Januzaj var ljósi punkturinn í gegnum skelfingartímabil undir van Gaal. Ung og hrá markaþrá er einmitt það sem hefur vantað og ánægjulegt að sjá hlaupin sem Daninn tekur þó liðið í kring sé ekki ennþá alveg búið að stilla sig inn á sömu bylgjulengd og hann.
Pellistri hefur líka verið flottur og væri synd að sjá hann á bekknum eftir flotta frammistöðu gegn Bayern. Annars spái ég liðinu svona:
Það þarf takmarkað að ræða hvað gerist ef United tekur 3 stig, þá sitjum við uppi með 9 stig í deildinni en allt annað en sigur hlýtur að vera skráð sem tap þegar liðið er komið með bakið upp við vegginn.
Leikurinn hefst kl 19:00 að íslenskum tíma og á flautunni verður sjálfur Tony Harrington.
Dór says
Er Ten Hag að reyna látta reka sig með þessu byrjunarliði