Á morgun þriðjudaginn 26. september, klukkan 19:00, hefst titilvörn Manchester United í deildarbikarnum. United tekur á móti lærisveinum Roy Hodgson í Crystal Palace í þriðju 8. umferð keppninnar. Tímabilið hjá United hefur byrjað heldur brösulega en sigur síðustu helgi á Turf Moor gegn Burnley var mjög svo kærkominn. Liðið er enn í miklum meiðsla vandræðum en það var þó hughreystandi að Raphael Varane og Sofyan Amrabat komu báðir inn á í leiknum gegn Burnley. Þá hefur eitthvað kvissast út að Mason Mount og Harry Maguire gætu verið í leikmannahópnum gegn Palace. Það hefur líklegast runnið kalt vatn milli skins og hörunds hjá stuðningsmönnum United þegar Reguilon virtist haltra af velli gegn Burnley um helgina, sérstaklega þegar flest allir bakverðir United liggja á sjúkrabekknum, það virðist vera þó allt í lagi með spánverjann sem eru mjög góðar fréttir.
Þetta verður fyrri leikurinn af tveimur gegn Crystal Palace í þessari viku hjá United en þeir leika einnig við liðið um helgina í úrvalsdeildinni. Þetta er fyrsti leikur United í deildarbikarkeppninni á þessu tímabili, en annar leikur Crystal Palace því liðið sigraði Plymouth Argyle í 2. umferð deildarbikarsins. Crystal Palace lenti 0-2 undir í þeim leik áður en Roy ákvað að hætta að fíflast og setti sína bestu menn inn á og að lokum sigraði Palace, Argyle-menn frekar þægilega 4-2. Palace hefur byrjað tímabilið ágætlega eða a.m.k. á þeirra mælikvarða en liðið hefur sigrað 2 leiki í úrvalsdeildinni, gert 2 jafntefli og tapað 2 leikjum. Liðið keypti 4 leikmenn á markaðnum í sumar; Rob Holding frá Arsenal, Matheus Franca frá Flamengo, Jefferson Lerma frá Bournemouth og að sjálfsögðu Dean Henderson frá United. Það er vonandi að sá síðast nefndi fari nú ekki að sýna einhvern stjörnuleik þ.e.a.s. ef hann byrjar leikinn.
Það er hægt að segja að leikurinn núna á morgun sé ekki alveg jafn mikilvægur og leikurinn gegn Burnley var en að sjálfsögðu vilja stuðningsmenn United og klúbburinn vinna alla bikara sem í boði eru. Erik Ten Hag mun að öllum líkindum breyta liðinu sínu eitthvað bara til þess að hvíla einhverja leikmenn, verst fyrir hann að þá eru flest allir leikmenn United sem hafa ekki spilað síðustu leiki meiddir. Ætli Jonny Evans fá ekki traustið eftir frábæra frammistöðu gegn Burnley sem og Mejbri, þá hefur orðið á götunni (twitter) verið að Bayindir fái að reyna fyrir sig í byrjunarliðinu. Þá er áhugavert að Dan Gore og James Nolan voru á meðal nokkurra ungra leikmanna sem æfðu með aðalliðinu fyrir leikinn, kannski að við sjáum einhvern óreyndan akademíu leikmann fá séns í byrjunarliðinu.
Hugsanlegt byrjunarlið
Það er erfitt að segja hvaða leikmenn Ten Hag ákveður að hvíla. Ég held að hann leyfi Rashford að byrja á bekknum sem og Casemiro, þá held ég að Lindelöf gæti fengið smá hvíld og Varane byrji með Evans. Varane er þó ólíklegur til þess að spila allan leikinn og gæti Maguire spilað einhverja rullu ef hann er orðinn heill. Þá held ég að Martial byrji leikinn og að Amrabat stilli sér upp við hlið Mejbri, Ten Hag gæti þótt það of sóknarsinnað og haft Amrabat og McTominay saman og Mejbri í holunni og ýtt Bruno út á kannt. Þetta er þó allt saman bara gisk.
Skildu eftir svar