United heimsótti Fulham í fyrsta leik 11. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar. Erik Ten Hag gerði talsvert margar breytingar frá liði United sem tapaði 0-3 gegn City um síðustu helgi. Rashford meiddist í vikunni og gat því ekki verið með, þá byrjaði Dalot í vinstir bakverði og Wan-Bissaka í þeim hægri. Maguire og Jonny Evans héldu byrjunarliðs sætum sínum en Varane var kominn á bekkinn. Garnacho byrjaði á vinstri kanti í staðinn fyrir meiddan Rashford. Eftir tvö 0-3 töp í röð var nokkuð augljóst að United þurfti að vinnan þennan leik þó það væri ekki nema til þess að stuðningsmenn myndu halda geðheilsunni.
Fyrrum United leikmaðurinn Andreas Pereira byrjaði fyrir Fulham og ef það er eitthvað sem er skrifað í skýin þá er það að fyrrum leikmaður United sem gat eiginlega ekki neitt fyrir United, mætir United, þá skorar hann eða á stórleik.
Byrjunarlið
Bekkur: Bayindir, Raguilon, Amrabat, Varane, Mount, Martial, Pellistri, Mainoo, Mejbri
Fyrri hálfleikur
Það fyrsta markverða sem gerðist í þessum fyrri hálfleik var að Maguire skallaði í öxlina á Fulham leikmanni og virðist vera vankaður eftir það. Það virtist sem svo að strax eftir mínútu leik þyrfti United að gera breytingu en eftir aðhlynningu gat Maguire haldið leik áfram. Á 8 mínútu fór þó að draga til tíðinda í leiknum, United fékk aukaspyrnu á fínum stað en talsvert of langt fyrir langskot. Eriksen teiknaði boltann á fjær þar sem Garnacho var mættur, argentíski unglingurinn lagði boltann fyrir markið og búmm hver var mættur annar en markóði skotinn, McTominay sem potaði boltanum þægilega í markið, 0-1 United. John Brooks ákvað samt að spyrja VAR teymið hvort markið hafi ekki örugglega verið löglegt, gamli góð VAR skjárinn kom upp. United menn flest allir líklegast kokhraustir, Garnacho aldrei rangstæður og McTominay ekki heldur. Skoðunin fór þó að taka furðu mikinn tíma, Harry Maguire sem var við hliðina á Garnacho var mögulega rangstæður en hann snerti aldrei boltann þó hann hafi reynt að ná til hans. Eftir 4-5 mínútna VAR tékk var Stockley Park enn í vafa hvað ætti að gera. Þeir sendu því John Brooks í skjáinn? Hvaða bíó var í gangi? John Brooks horfði lengi á skjáinn og ákvað svo að Harry Maguire sem var rétt svo rangstæður hefði haft áhrif á leikinn og markið dæmt af. GJÖRSAMLEGA galin ákvörðun en svo virðist sem United eigi ekki að fá mikið af VAR dómum með sér.
Leikurinn róaðist talsvert niður eftir þetta liðin skiptust á bitlausum sóknum, Fulham var ágætlega nálægt því að skora þegar Wilson átti fínt skot á markið sem Onana varði en flaggið fór á loft þannig það hefði ekki talið. Bruno Fernandes fékk fínt tækifæri fyrir utan teig og ætlaði að plassera tuðruna í hornið en skotið var alltof laust. Það var í raun allt of sumt í fyrri hálfleik bæði lið komustu í ágætar stöður oft á tíðum en loka sendingarnar/ákvarðanatökur voru alltaf slappar og runnu sóknirnar út í sandinn. Þetta var dapur fyrri hálfleikur en United virtist þó ágætlega stöðugt varnarlega þó ekki væri mikið að gerast fram á við. Liðinu tókst nokkrum sinnum að spila sig í gegnum miðju Fulham en ákvarðanataka fremstu manna var yfirleitt döpur. Staðan í hálfleik 0-0 þó að United hefði að sjálfsögðu átt að vera komið með mark, John Brooks bara rændi því af liðinu. Fulham var með 0.33 xG í fyrri og United 0.24 xG, dapurt.
Seinni hálfleikur
United byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega, Garnacho átti ágæta tilraun á 48. mínútu sem fór því miður af Iwobi og beint í fang Leno og stuttu seinna kom gott hlaup frá Garnacho en sending hans fyrir markið var varin af Leno og í horn. Á 57. mínútu missti Eriksen boltann á miðjunni og Fulhamm komst í hættulega sókn en sending Willian fyrir markið fór af Maguire og síðan af Wan-Bissakaog United náðu svo að hreinsa. Enn hélt Fulham áfram að ógna, Wilson átti fínasta skot fyrir utan teig sem Onana varði en út í teiginn, en Evans kom boltanum í horn sem betur fer. United gerði breytingu á 63. mínútu, Pellistri kom inn á fyrir Antony, Antony var búinn að vera skelfilegur í leiknum. Pellistri var fljótur að láta að sér kveða, stuttu eftir að hann kom inn á keyrði hann á vörnina, köttaði inn á vinstri en skot hans laust og enginn vandi fyrir Leno.
United gerði tvöfalda breytingu á 79. mínútu, Hojlund og Eriksen fóru útaf og Mason Mount og Martial komu inn á. Leikurinn virtist ætla að enda sem steindautt jafntefli, í raun besta tilraun United fram að 90. mínútu var aukaspyrna Bruno af 30 metrum sem Leno þurfti að verja vel. En á 91. mínútu keyrði Pellistri upp kantinn, missti hann of langt frá sér en hélt pressunni áfram, varnarmenn Fulham lentu í miklu basli við að hreinsa, boltinn endaði fyrir utan teig hjá Bruno sem reyndi þrönga sendingu á McTominay, hún gekk ekki vel. Bruno endaði þó aftur með boltann feikaði skot með vinstri, setti þar tvo Fulham menn á rassinn, tók síðan skot með hægri og inn fór boltinn, 0-1 LOKSINS. Þetta var í raun það síðasta markverða sem gerðist í leiknum, John Brooks sem hafði bætt fimm mínútum við ákvað samt að gera það að sjö mínútum en það kom ekki að sök. Sigur á Craven Cottage staðreynd!
United voru ekkert sérstaklega góðir í þessum leik bara líkt og þeir hafa verið allt þetta tímabil. Mér þótti liðið samt vera örlítið betra en í síðustu leikjum, liðið var á köflum að ná fínu uppspili en lokaákvarðanirnar voru ekki góðar. Bruno var ekkert sérstakur í leiknum en maður veit að hann getur alltaf poppað upp með einhverja snilld. Maguire og Evans voru fínir í vörninni og Onana fínn í rammanum. Garnacho var sprækur og það sama má segja um Pellistri eftir að hann kom inná. Antony var lang slakasti leikmaður United og Eriksen átti ekkert sérstaklega góðan leik. Þá verður að segjast að það er eins og þetta lið kunni ekki að spila með framherja eins og Hojlund, sjaldnast eða aldrei kemur bara sending inn í teig þegar að kantmennirnir okkar keyra upp völlinn og sendingarnar á hann eru oft á tíðum í haus hæð sem erfitt er að ráða við.
Þegar þó öllu er á botninn hvolft þá er þetta kærkominn sigur þó strembinn hafi hann verið. Þrjú stig í pokann góða og vonandi fer spilamennskan að batna enn meira. United á FCK í miðri viku og Luton um næstu helgi, þetta eru leikir þar sem hægt er að snúa við slæmu gengi.
Arni says
Maður er ekki að sjá að þessi spilamennska verði eitthvað betri með tímanum það er alveg hundleiðinlegt að horfa á þetta lið spila sama boltan leik eftir leik
Laddi says
Svona af því að það heyrist ekkert í fólki þegar liðið loksins vinnur leiki, þá finnst mér nauðsynlegt að hrósa því sem vel er gert: https://www.fotbolti.net/news/07-11-2023/lid-vikunnar-i-enska-maguire-i-vorninni
Maguire hefur svo sannarlega ekki staðið undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar og verðmiðinn gaf til kynna, en hann var hinsvegar maður leiksins á móti Fulham og á allt hrós skilið fyrir framlagið í leiknum, sérstaklega í ljósi þess að hann var augljóslega ekki 100% eftir samstuðið í upphafi hans.