Það var fátt sem kom á óvart í liðsvali Erik ten Hag í dag fyrir utan það að Reguilón kom inn í vinstri bakvörðinn og Dalot var færður hægra megin. Þetta var 50. deildarleikur ten Hag á Englandi.
Luton stilltu upp í 3-4-2-1.
Fyrri hálfleikur
Leikurinn bar þess merki snemma að Luton hugðist sitja aftur og United fengi að hanga verulega á boltanum. Strax á fimmtu mínútu kom fyrsta VAR atvikið þegar fyrirgjöf frá Bruno Fernandes af vinstri vængnum endaði í upphandlegg eins varnarmanna gestanna en vítaspyrnudómur hefði verið ansi strangur.
United tókst ágætisstjórn á leiknum og ef þessi leikur hefði verið tekinn út fyrir sviga þá hefðu fáir talið sigurinn í hættu miðað við hvernig leikurinn. En fljótlega voru einhverjar blikur á lofti þar sem þetta virtist verða „einn af þessum leikjum“. Hvert færið á fætur öðru rann út í sandinn, Rashford fékk fínt færi en skaut yfir markið en hefði átt að gera miklu betur.
Hættulegasta færið í fyrri hálfleik féll í skaut Hojlund þegar Rashford kom með fyrirgjöf af hægri vængnum. Daninn sem stóð beint fyrir framan markið fékk boltann í óþægilegri hæð en gerði vel og setti lærið í boltann og á markið en Kaminski gerði mjög vel og varði boltann á línunni og varnarmennirnir skófluðu svo boltanum í horn. Enn þurfti Hojlund því að bíða eftir fyrsta deildarmarkinu sínu á Englandi.
United var reyndar að gera vel þegar kom að því að skapa færin en enn og aftur var nýtingin hroðaleg. Hefði hún verið í sama gæðaflokki og færasköpun í leiknum þá hefði United verið 2 eða 3 mörkum yfir á fyrsta hálftímanum.
Luton menn gerðu sig einnig líklega en það var eins og við mátti búast einna helst í gegnum föst leikatriði, sérstaklega hornspyrnur. Reyndar gerði Onana mjög vel þegar Morris fékk tækifæri eftir fyrirgjöf frá Kaboré djúpt á vellinum. Framherjinn bjó sér til pláss og stökk manna hæst upp í teignum og skallaði að markinu en Onana var vel á verðinum og varði boltann sem þó var vel út við stöngina.
United komst aftur í gott færi eftir hornspyrnu sem endaði hjá Rashford sem átti fyrirgjöf en boltinn endaði í varnarmanni og fór aftur fyrir. Miðverðir gestanna áttu fullt í fangi með að hreinsa fyrirgjafir United en voru vel á verði og stóðu sig með prýði.
Þá varð Eriksen fyrir því óláni að snúa sig og það endaði með því að hann neyddist til að koma útaf og Mason Mount kom í stað hans.
Annað dauðafæri leit dagsins ljós rétt fyrir lok hálfleiksins þegar Hojlund stakk boltanum gegnum alla vörn Luton og á Garnacho sem var einn og yfirgefinn inn í teig gestanna og gerði vel í að plata Kaminski sem var kominn í hina áttina. Eitthvað reyndist Argentínutáningurinn óákveðinn og tók of langan tíma svo Lockyer náði að trufla hann og færið varð að engu.
Síðari hálfleikur
Fyrsta færið kom snemma í síðari hálfleik þegar Fernandes læsti miðið á pönnuna á Hojlund og fyrirgjöfin var eins og sniðið fyrir stoðsendingu en skalli Danans var ekki nógu góður og fór framhjá markinu. Hefði verið auðveldara að skora bara.
Luton vörðust með kjafti og klóm og það verður að segjast eins og er að það er mikið og stórt hjarta í þessu Luton liði og ef þeir halda svona áfram munum við sjálfsagt sjá þá á næstu leiktíð líka.
En það var svo loksins á 59. mínútu að ísinn brotnaði en hann var brotinn af ísmanninum sjálfum. Framherjar United hafa verið langt frá því að skora eða leggja upp nógu mikið í ár og því virðast varnarmennirnir vera að draga þá að landi hvað það varðar. United fékk aukaspyrnu eftir að brotið var á Mount upp við endalínuna.
Fyrirgjöfin rataði á Rashford sem var svolítið á auðum sjó hinu megin í vítateignum og hann setti boltann fast inn í pakkann þar sem Victor Lindelöf var fyrstur að átta sig og smellti boltanum innanfótar framhja Kaminski og svona 7 leikmönnum. 1-0 og United loksins komið með tögl og haldir í leiknum.
Eftir markið virtist United aðeins slaka á bensíngjöfinni og bíða eftir lokaflautinu í stað þess að klára leikinn. Það gaf Luton mönnum von og færðu þeir sig framar á völlinn. Okkar maður, Tahith Chong mætti inn á völlinn og við það breyttist leikur Luton og flæðið varð mun betra og héldu þer boltanum talsvert meira en þeir höfðu gert fyrsta klukkutímann.
Á svipuðum tíma kom Antony inn á fyrir Garnacho sem átti ekkert sérstakan dag í dag. En Antony átti sterka innkomu og skapaði færi fyrir Rashford stuttu eftir að hann kom inn á. En Rashford fór einstaklega illa með færið, í stað þess að þruma á markið eða leggja boltann snyrtilega í annað hvort hornið ákvað Englendingurinn að setja hann í belginn á markverðinum.
Hinu meginn á vellinum gaf Reguilón tilgangslausa aukaspyrnu 2-3 metra fyrir utan teiginn þegar hann sparkaði Chong niður í grasið. En sem betur fer fór skot gestanna úr aukaspyrnunni beint í Maguire, nema kannski fyrir Maguire sjálfan.
Hojlund og Reguilón fór svo útaf fyrir þá Martial og Varane. United átti svo góð færi og fékk McTominay t.a.m. fínt tækifæri á 81. mínútu þegar hann skallaði boltann á markið eftir flotta fyrirgjöf frá Bruno en enn og aftur varði Kaminski vel. En siðustu mínútur leiksins voru taugastrekkjandi og liðu hægt fyrir heimamenn og stuðningsmenn í stúkunni. En svo fór að ekki voru fleiri mörk skoruð og United sigldi sigrinum heim en ekki var það hins vegar öruggt.
Næsti leikur er svo gegn Everton þann 26. nóvember en núna tekur við landsleikjahlé, okkur öllum til mikillar gleði. Glory, glory!
Gummi says
Ekki var þetta sannfærandi frammistaða við þurfum að fara fá þjálfara sem þorir að spila fótbolta
EgillG says
þetta var eins og flestir leikir hjá united undanfarið…fucking leiðinlegt
Egill says
Ömurlegt.
Tæpur sig gegn einu af lélegustu liðum deildarinnar, og tvö ný meiðsli.
Eriksen var að byrja sinn 3 leik á einni viku, það er alveg ástæða fyrir medsari meiðslakrísu, það er verið að keyra menn út.
Jákvæða er þó frammistaða Mount í leiknum, hann var alveg frábær.
Radhford má síðan fara í janúar
Ólafur Kristjánsson says
Mér fannst þetta frekar leiðinlegur leikur. Þó gat ég ekki annð en hlegið þegar þessir kappar voru að reyna að skjóta á markið. Fljótlega eftir að Svíinn sýndi mönnum hvernig á að skora mark nennti ég ekki að horfa lengur.
Arni says
Er Ten Hag búinn að gera einn góð kaup síðan hann tók við þetta er farið að líta hálf vandræðilega út fyrir Ten Hag
Laddi says
Byrjum á því neikvæða:
– Enn og aftur klára menn ekki færin sín, sem voru þó ansi góð. Garnacho átti að skora, Rashford átti að skora, Højlund var einstaklega óheppinn en hefði líklega átt að skalla frekar en að reyna að taka með mjöðminni. Það þarf að taka ansi hressilega æfingu í færaslúttun á Carrington í landsleikjahléinu.
– Højlund og Eriksen útaf meiddir, öll þessi meiðsli eru farin að verða helvíti þreytt…
– Spilið framávið gengur allt of hægt, sérstaklega þegar liðið vinnur boltann ofarlega á vellinum, það þarf að keyra hratt, sérstaklega á þessi lið sem liggja svona neðarlega, lang líklegast að skora á þau þannig. Rashford og Maguire eru verstir með þetta, taka of margar snertingar þegar þeir fá boltann í stað þess að losa hann hratt.
En það var margt jákvætt:
– Clean sheet þar sem Onana þurfti ekki að verja mikið en gerði vel í þau fáu skipti sem á hann reyndi.
– Vörnin var heilt yfir frekar solid og það var fínt hvað Reguilon og Dalor voru duglegir að koma boltanum inn í teiginn framan af leiknum, þurfum meira af því.
– Lindelöf vel staðsettur til að klára leikinn með fínu marki.
– Højlund duglegur að bjóða sig en fær enn of litla þjónustu.
Annars var þetta frekar leiðinlegur leikur, lítið að gerast og lítið um opnanir og þær sem mynduðust illa nýttar. Vonandi koma menn úr meiðslum eftir landsleikjahléið, þurfa alvarlega á því að halda að geta róterað liðinu meira. Hefði viljað sjá EtH nýta þennan leik í að koma Hannibal og Mainoo meira inn í þetta og það hefði líklega gerst ef framherjarnir hefðu klárað færin sín og leikurinn kominn á öruggt ról. En því miður þá gekk það ekki eftir og þessi þrjú stig, eins kærkomin og þau eru í heildina, var meira svona fengin haltrandi yfir endalínuna…
S says
Er Varane núna næsti sem Ten Hag ætlar að brjóta niður og henda úr liðinu?
Dór says
Það er bara ekki hægt að verja Ten Hag lengur þetta er bara galið hvernig hann er koma fram við suma leikmenn