Þá er komið að næstsíðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu en United á eftir útileik við Galatasaray og heimaleik í lokaumferðinni gegn Bayern Munich. Fyrir leik morgundagsins er liðið á botni A-riðils með einungis 3 stig úr heimasigri gegn FC Kaupmannahöfn. Liðið hefur tapað úti gegn FCK og Bayern og tapaði á heimavelli fyrir tyrkneska liðinu og stendur því eftir sem fyrr segir á botninum. Það er þó örlítill vonarneisti fyrir stuðningsmenn United ef liðinu tekst að kreista fram sigur gegn Galatasaray og FCK tapar fyrir Bayern á útivelli.
Þá væri liðið með 6 stig í öðru sæti riðilsins og þyrfti ákjósanleg úrslit úr síðustu umferðinni til að eiga möguleika á að komast í 16-liða úrslitin. Fari hins vegar svo að United sigli ekki heim með stigin þrjú er liðið svo gott sem úr leik. Það er því sannkallaður úrslitaleikur í vændnum og nú er að duga eða drepast í Tyrklandi.
Manchester United
United hefur átt ágætisgengi að fagna í deildinni að undanförnu þó vissulega hafi frammistaða liðsins ekki kannski endurspeglað það. Úrslitin hafa ekki látið standa á sér en leikirnir hafa ekki verið glæsilegir ef frá er talin síðasta viðureign þar sem Alejandro Garnacho ákvað upp á sitt einsdæmi að bjóða í sannkallaða 5-sekúndna flugeldasýningu í formi hjólhestaspyrnu af dýrustu gerð. Henni var svo fylgt eftir með tveimur mjög góðum mörkum, fyrsta sem kom úr vítaspyrnu eftir að Martial var felldur í teignum og það þriðja kom eftir huggulegt samspil liðsins þar sem Frakkinn rak svo endahnykkinn á með laglegu vippumarki.
Liðið hefur unnið 5 af síðustu 6 deildarleikjum og er búið að klifra upp töfluna hægt og sígandi en alls ekki með neinum glæsibrag og því kannski ekki margir stuðningsmenn sem eru hoppandi hæð sína af kæti yfir spilamennsku liðsins þó sigrar hafi unnist.
En í öðrum keppnum hefur ekki gengið vel (og í raun gekk alls ekki vel í deildinni framan af leiktíðinni) en United hefur runnið á rassgatið í öðru hverju skrefi þar. Liðið flaug út úr deildarbikarnum gegn Newcastle sem gerðu 8 breytingar á sínu liði og svo hafa Galatasaray og FCK unnið sitthvorn leikinn gegn okkur í Meistaradeildinni og eru með stigi meira en við en sambærilega markatölu. Rasmus Hojlund hefur verið okkar besti leikmaður í Evrópukeppni en Onana hefur líka spilað stóra rullu en bæði jákvæða og neikvæða þegar kemur að viðureignum í Meistaradeildinni.
En núna er Daninn meiddur og óljóst hvort hann verði með og því eru allar líkur á að Martial leiði línuna. En áður en við lítum á spá fyrir liðsuppstillingu er vert að líta til hvernig viðureignir United gegn tyrkneskum liðum hafa reynst okkur. Liðið mætti Bursaspor í Meistaradeildinni 10/11 en United sigraði 3-0 heima og 0-1 úti. Þá mætti liðið Besiktas á tímabilinu á undan en liðið skiptust þá á 1-0 sigrum á útivöllum. Fenerbache mættu okkur 96/97 en United tætti þá gjörsamlega í sig í frumeindir, fyrst 0-2 á útivelli og svo 6-2 á Old Trafford. Þessi lið mættust svo aftur í Evrópudeildinni 16/17 þar sem United vann heimaleikinn 4-1 en tapaði 1-2 í Tyrklandi.
Það var svo árið 1993 þegar United mætti á heimavöll Galatasaray þar sem heimamenn tóku á móti okkar mönnum með orðunum „Welcome to Hell“ eftir að liðin höfðu gert 3-3 jafntefli á Old Trafford. Síðari viðureign liðanna endaði þó með markalausu jafntefli og það var ekki fyrr en 2012 sem Galtasaray tókst að sigra gegn United 1-0 á heimavelli. Var það þá í fyrsta sinn sem þeir skoruðu gegn Rauðu djölfunum frá því 1993 en milli þessara leikja mættust liðin fjórum sinnum.
En þeim tókst að skora þrjú mörk á Old Trafford í október og það verður því ansi strembið að mæta á svona erfiðan útivöll í miðri viku og eiga Newcastle sem virðast vera í fantaformi um næstu helgi.
Ég spái því að ten Hag vilji fá sinn mann á hægri vænginn fyrir varnarvinnuna sem hann skilar. Garnacho var verulega duglegur um allan vinstri hluta vallarins um helgina og tel ég að hann muni halda sæti sínu og því komi stjórinn til með að setja Rashford upp á toppinn og Brassinn fái tækifærið í Tyrklandi.
Mainoo ætti að byrja eftir þessa glæsilegu frammistöðu á sunnudaginn en það verður að hafa það í huga að þetta er táningur og ekki eðlilegt að gera þær kröfur á hann að byrja leiki svo ört þó við værum líklegast öll til í að sjá meira af honum enda ferskur andblær inn í þetta United lið um þessar mundir.
Svo er það virkilega gott að vera kominn aftur með Luke Shaw í bakvörðinn eftir þessi meiðsli en ég tel líklegt að Wan-Bissaka byrji á hinum enda varnarinnar. Hann var hvíldur í deildarleiknum enda kannski búist við því að United yrði meira með boltann en í þessum leik verður varnarvinnan að vera skotheld og hann er að mörgum talinn sterkari varnarlega en portúgalski samherjinn hans.
Varnarlína United hefur reyndar haldið hreinu í nokkrum af síðustu leikjum sínum en það verður að stimplast örlítið á heppni eða getuleysi mótherjanna til að klára færin sín því nóg fengu t.d. Everton menn af færum um helgina. En Lindelöf og Maguire hafa þó verið að stíga upp í fjarveru Varane og Martinez og nú virðist sá franski ekki eiga aftur leið inn í liðið. Spurning hvort ten Hag vilji ekki rugga bátnum of mikið í öftustu línu.
Galatasaray
Heimamenn í Galatasaray stálu sigrinum gegn okkur á Old Trafford eftir að United komst tvívegis yfir í leiknum. Casemiro fékk rautt spjald í leiknum og skömmu síðar komust þeir yfir og United gerði ekki nægjanlega mikið til að ná stigi úr þeim leik. Heima í Tyrklandi er Galatasaray eitt af stórveldunum og hafa þeir, ásamt Besiktas og Fenerbache verið í sérklassa undan farna áratugi. Liðið situr í 2. sæti með jafnmörg stig og Fenerbache sem er í fyrsta en með betri markatölu. Þeir hafa unnið alla sex heimaleiki sína og unnið fimm útileiki og hafa einungis tapað einum og eru með eitt jafntefli í útileikjum í deildinni á tímabilinu.
Eina liðið sem hefur sigrað þá á útivelli var Bayern Munich sem lentu reyndar undir til að byrja með en skriðu yfir línuna að lokum og unnu 2-1 sigur. Við FCK gerðu þeir svo 2-2 jafntefli á þessum velli en voru 0-2 undir þar til á 86. mínútu þegar þeir skoruðu tvö mörk á tveggja mínútna kafla. En nú er komið að okkar mönnum og þeir hafa harma að hefna og sjálfsagt enginn meira en Andre Onana sem átti arfaslakan leik gegn þeim á heimavelli.
Galatasaray hefur gengið í gegnum miklar mannabreytingar að undanförnu en í liðinu má sjá leikmenn á borð við Tete, Wilfred Zaha, hinn skrautlega Mauro Icardi, Davinson Sanchez og fyrrum Man City bakvörðinn Angelino. Lucas Torreira er fastamaður á miðjunni þeirra ásamt þeim Akturkoglu og Ayhan en það verður áhugavert að sjá hvernig Erik ten Hag stillir miðjunni upp á morgun sérstaklega í ljósi þess að þetta miðju-tríó valtaði yfir miðjuna okkar í síðustu viðureign liðanna. Miðjan okkar samanstóð af Mason Mount, Casemiro og Hannibal Mejbri en miðjubardaginn tapaðist algjörlega.
Á morgun geri ég hins vegar ráð fyrir því að sjá Dries Mertens í tíunni og Tanguy Ndombelé í stað heimamannanna ofangreindu. Óneitanlega öflugri og reyndari miðjumenn og því er á brattann að sækja fyrir okkar menn. Ndombele hefur þó ekki spilað nema 157 mínútur það sem af er leiktíð og því mögulega spilar Ayhan á morgun.
Icardi hefur verið langbesti leikmaður Galatasaray í vetur og reikna ég með því að hann verði hættulegastur heimamanna en Wilfried Zaha er einnig leikmaður sem United þekkir vel til enda hefur hann oftar en áður reynst okkur erfiður. En sem betur fer fyrir okkur eigum við mótefnið við honum en fyrrum samherji hans er einmitt Aaron Wan-Bissaka.
Bakvörðurinn átti einmitt hreint út sagt magnað tæklingu sem bjargaði marki þegar Zaha var kominn einn inn fyrir vörn United í leik með Crystal Palace á síðustu leiktíð. Í viðtali eftir leikinn lýsti Zaha einmitt því augnabliki þegar hann áttaði sig á því að köngulóin var að elta hann og sagði jafnframt að hann (Wan-Bissaka) væri sá eini sem getur náð svona tæklingum og við vonum að hann haldi uppteknum hætti, það er að halda aftur af Zaha, á morgun.
Okan Buruk er frekar vanafastur og ósveigjanlegur þegar kemur að liðsuppstillingum og því geri ég ráð fyrir að hann stilli upp í hefðbundið 4-2-3-1 og við sjáum liðið ekki ósvipað þessu:
Leikurinn hefst klukkan 17:45 á morgun og Spánverjinn Jose Sanchez dansar um völlinn með flautuna en leikur Bayern og FCK hefst kl 20:00 en leikið er á Allianz vellinum, heimavelli Bayern. Við verðum að vona að Bæjarar geri okkur greiða og haldi áfram að vinna leiki í Meistaradeildinni og á sama tíma verðum við að hamra járnið á meðan það er heitt og taka öll þrjú stigin með okkur heim!
Lalli says
Højlund er klár í leikinn og Rashford tekur út leikbann 😉
ghe says
4 null fyrir man utd.