Manchester United mætti Galatasaray í næstsíðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Erik ten Hag stillti upp áhugaverðu byrjunarliði en enginn Casemiro né Rashford voru í hópnum í dag. Sá enski í banni og sá brasilíski meiddur. Leiknum lauk með 3-3 jafntefli eftir bráðfjörugan leik, sérstaklega síðari hálfleik. Vonin lifir, en veik er vonin um að komast áfram í 16-liða úrslitin í Meistaradeildinni.
Á bekknum voru þeir Bayindir, Heaton, Reguilon, Varane, Dalot, Gore, Mainoo, Mejbri, Martial, Pellistri og Hugill.
Fyrri hálfleikur
Leikurinn var þess merki strax frá fyrstu mínútu að mikið væri undir. United virtust öflugri fyrstu mínúturnar en heimamenn voru samt líflegir líka. Fyrsta færið leit dagsins ljós þegar United kom boltanum í teig af vinstri hluta vallarins og Garnacho renndi boltanum inn í markmannsteiginn.
Rasmus Hojlund, sem hefur verið magnaður í Meistaradeildinni fyrir United, tókst að komast fram fyrir varnarmanninn en hitti boltann ekki en fékk hann þess í stað aftan á kálfann eða í hælinn og upp fyrir sig og var nánast búinn að skapa annað færi fyrir sig um leið en boltinn útaf vellinum án þess að hann næði aftur til hans.
Skömmu seinna kom laglegasta spilamennska United í fyrri hálfleik þegar Antony fékk boltann á hægri kantinum og varði góðu korteri í að stoppa og horfa á Bruno Fernandes sem stóð einn og óvaldaður við vítateigshornið en ákvað að gefa ekki á hann heldur pota boltanum inn í teiginn.
Þar gerði Hojlund sig stóran og hlífði boltanum og lagði hann út á Bruno sem dróg varnarmennina í sig og renndi boltanum á eitt stykki argentískan táning að nafni Garnacho. Sá stutti var einn á auðum sjó, lagði boltann fyrir vinstri löppina og harmaði boltann af 9 metra færi upp í þaknetið þar sem Muslera í markinu kom engum vörnum við.
1-0 og United tók forystuna í þessum mikilvæga leik. Gestirnir voru reyndar nánast búnir að svara um leið. Þeir fengu gott tækifæri stuttu síðar þegar þeir fengu horn en Onana gerði virkilega vel í að loka búrinu. Hins vegar kom það næsta áhugaverða þegar Bruno fékk sendingu fyrir utan vítateig heimamanna í næstu sókn.
Enginn leikmaður Galatasaray virtist vita að sá portúgalski kann að skjóta af þessu færi því enginn virtist nálgast hann eða ætla að trufla hann að neinu leyti svo fyrirliðinn okkar ákvað að hamra hann inn í markið án mikillar mótspyrnu mótherjanna.
United hefði geta verið komið í 0-3 eftir að Rasmus Hojlund var að valda usla í síðasta þriðjungnum á vellinum og varnarmennirnir virstust ekki ráða við hann en þess í stað komust heimamenn í sókn sem endaði með því að Bruno Fernandes ákvað að taka Hakim Ziyech niður á frábærum stað rétt fyrir utan vítateiginn. Ziyech steig upp sjálfur og stillti boltanum á meðan United stillti upp í vegg og sömuleiðis heimamenn.
Þeir mynduðu vegg við hliðiná veggnum okkar en Ziyech skaut í það gat sem myndaðist þegar þeir færðu sig. Hefði átt að fara laflaust á markið og vera einfalt fyrir Onana í markmannshorninu en hann hafði stolið nokkrum metrum í hina áttina þegar skotið reið af. Hann rann til og boltinn lak í netið. Ótrúlegt mistök og allt í einu kom stressið aftur þegar staðan var orðin 1-2.
Galatasaray voru nálægt því að jafna metin skömmu síðar en Maguire gerði vel í að koma sér fyrir skot Icardi. Lengra komust þeir þó ekki þrátt fyrir hetjulega baráttu og fór United inn í leikhlé með eins marks forystu. Hættulegustu menn heimamanna voru þeir Ziyech og Boey á hægri kantinum ásamt Mertens og Icardi en Zaha virtist vera í vasanum á fyrrum samherja sínum á vinstri vængnum.
Luke Shaw og Garnacho áttu í einhverjum erfiðleikum með að reikna út underlaps hjá Boey og virtust samskipti enska bakvarðarins og argentíska kantmannsins benda til þess að þeir hefðu ekki spilað saman áður.
Síðari hálfleikur
Fyrsta færi síðari hálfleiks lét ekki standa á sér. Dries Mertens átti þá fyrirgjöf af hægri vængnum en sem betur fer brást Kan Achan bogalistin og hann setti boltann í hliðarnetið úr stórgóðu færi. Heimamenn héldu áfram að vera með tögl og haldir í leiknum. United tókst þó að tengja saman gott spil og skapa smá hættu með fyrirgjöf frá Bruno en Muslera virtist ekki átta sig á fluginu á boltanum en tókst þó að blaka honum út í teiginn og Galatasaray tókst að losa boltann.
En svo hófst síðari leikur fyrir alvöru. Antony og Wan-Bissaka léku léttan þríhyrning á hægri kantinum og enduðu með að koma Wan-Bissaka í ákjósanlega fyrirgjafarstöðu. Þá mætti engin önnur en skoska hraðlestin á fleygiferð inn í teiginn og renndi sér á boltann og setti hann í netið. 3-1 og United aftur komið í bílstjórasætið í þessari viðureign.
Erik ten Hag gerði þá tvöfalda breytingu, Anthony Martial og Kobbie Mainoo inn á fyrir þá Amrabat og Hojlund. Marokkómaðurinn á gulu og Daninn að stíga upp úr meiðslum. Skynsamlegt í stöðunni. Heimamenn gerðu þá líka skiptingar, Ndombele og Mertens út fyrir Olivera og Akturkoglu þegar hálftími var eftir af venjulegum leiktíma.
Aftur braut Bruno Fernandes á Ziyech á sama stað fyrir utan teiginn með nákvæmlega sömu aðferð, narti í hælana. Það reyndist vera fyrirboði fyrir endurtekningu á því sem gerðist í fyrirhálfleik. Ziyech fiskaði aukaspyrnuna og tók hann og skoraði úr henni vegna mistaka hjá Onana. Það er hreint ótrúlegt hvað þetta mark var keimlíkt mark. Ótrúlegt með öllu. Martial virtist trufla hann með því að gera atlögu að boltanum en náði ekki til hans. En Kamerúninn átti að gera miklu, miklu betur.
Völlurinn tók við sér við þetta og það er erfitt að vera í þessari gryfju með 52 þús manns á móti þér og þurfa að hanga á forystu í hálftíma. Rétt nokkrum sekúndu síðar komst Akturkoglu í gráupplagt færi fyrir utan teig en Onana gerði betur þar og handsamaði boltann auðveldlega.
Heimamenn komust svo í stórhættulega skyndisókn þegar United pressaði þá hátt á vellinum en þeir komu boltanum hátt upp hægri kantinn þar sem Torreira renndi boltanum svo til baka út að vítateigshorninu þar sem Ziyech var mættur og reyndi að skrúfa boltann inn í fjærhornið en Onana stökk hátt og klófesti boltann örugglega. Áfram héldu heimamenn að þjarma að United og pressan jókst og stressið einnig.
Það tók ekki langan tíma fyrir heimamenn að jafna. Akturkoglu átti þá frábæran sprett þegar hann skildi Mainoo eftir og komst inn fyrir vörnina og hamraði boltann á nærstöngina og Onana kom engum vörnum við. 3-3 og vonir United að fjara út.
Tempóið snarjókst við þetta og komust liðin í álitlegar sóknir til skiptist næstu mínúturnar. Bæði lið þyrftu öll þrjú stigin til að styrkja stöðu sína og möguleika um leið á 16-liða úrslitunum. Garnacho komst í gott færi þegar United komst í álitlega sókn 4 á 3 en skot hans rétt framhjá. Aftur komst United í góða sókn strax í kjölfarið en McTominay bar boltann í átt að teignum og átti gott skot en rétt framhjá. Allt í járnum.
Þá gerði ten Hag næstu breytingar þegar hann tók Garnacho og Wan-Bissaka útaf fyrir þá Diogo Dalot og Facundo Pellistri. United gerði orrahríð að marki heimamanna með skotum á þessum kafla leiksins en þau voru misgóð og mishættuleg. Pellistri tíjst að prjóna sig inn í teiginn og draga fjóra varnarmenn í átt að sér en ákvað að skjóta sjálfur í stað þess að renna boltanum út á samherja sem hefði verið betra í stöðunni.
Þetta kvöld virtist stefna í jafntefli sem gerði lítið fyrir bæði liðin. United yrði þá að treysta á heimasigur gegn Bayern og Galatasaray þyrfti að treysta á útisigur gegn FCK.
Næst fékk Wilfred Zaha færi þegar hann var með boltann fyrir framan d bogann og smellti boltanum beint í fangið á Onana sem var fljót að koma boltanum í leik og United brunaði í sókn. Dalot bar boltann upp hægri vænginn og renndi honum svo út á Bruno sem hafði allan tímann í heiminum og lagði hann fyrir sig og hamraði boltann í stöngina og aftur fyrir endamörk.
Það var eins og að verið væri að horfa á góðan tennisleik. United komst aftur í góða sókn þegar Martial sendi boltann á Pellistri sem náði að koma boltanum aftur á Martial sem bjó sér til smá pláss og var að hlaða í skotið en missti hann aðeins of langt frá sér og boltinn barst út fyrir teig þar sem McTominay átti slakt skot yfir markið.
Aftur kom stórhættuleg færi United þegar Dalot renndi boltanum inn í markmannsteiginn þar sem Pellistri var að reyna koma boltanum á markið en Muslera og Torreira náðu einhvern veginn í sameiningu að loka á hann og halda liðinu í leiknum. United gerði gríðarlega harða atlögu að marki heimamanna í uppbótartímanum en tókst ekki að nýta sér það.
3-3 er niðurstaðan og fyrir hlutlausa var þessi leikur fínasta skemmtun. United getur gengið sátt frá borði með stigið en stór spurning verður sett við Onana í þessum viðureignum við Galatasaray í Meistaradeildinni. Fyrstu tvö mörkin skrifast á hann og United kasta frá sér tveggja marka forystu í tvígang. Þessar aukaspyrnur voru jafn mikil óþarfi og derhúfa í gaddinum í janúar og fyrirliðinn verður að líta í eigin barm þar sem hann gaf þær báðar á silfurfati.
Núna stendur riðill þannig að United þarf að treysta á að Galatasaray fari ekki með sigur af hólmi í næstu umferð á útivelli gegn FCK. Þá þurfum við að sigra Bayern á heimavelli en þeir hafa ekki tapað leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í síðustu 36 leikjum. Þannig að brekkan er orðin að þverhnípi en frammistaðan í kvöld var aðdáunarverð sé tekið inn í reikninginn hve mikið var undir, ferðalag liðsins, erfiður heimavöllur og fjarvera lykilleikmanna. Í raun mjög góð frammistaða hjá útileikmönnum liðsins en því miður brást rammaverndarinn.
Næsti leikur liðsins er leikur gegn Newcastle í deildinni á erfiðum heimavelli þeirra, St. James’s Park. Glory, glory!
Helgi P says
Þvílík byrjun á þessum leik koma svo meira af þessu
Egill says
Þvílíkt master move að losa sig við De Gea og borga stórfé fyrir þennan Onana trúð.
Hvað næst? Ronaldo út fyrir Weighorst?
Dór says
Onana er bara búinn að vera slakur síðan hann kom hann er búnn að vera góður í einum og einum leik það er bara ekki nóg
s says
Hvernig nennir maður þessu?
Arni says
Onana er búinn að klúðra allri meistaradeildinni fyrir okkur er ekki hægt að ná í de gea aftur er hann ekki án liðs
Elis says
Trúða lið með Trúða stjóra og Trúða markvörð.
Þegar dregið var í meistaradeildina þá var þetta líklega frekar góður dráttur. Lið frá Danmörku og Tyrknest lið sem geta aldrei neitt á útivelli en eru sterkir heima og eru fullir af leikmönum sem komast ekki í stærri lið í dag. Bayern klárlega langbestir en frekar þægilegt að ná í 2.sætið og áfram í verstu martröð að detta í Evrópukeppni félagsliða.
Staðan er sú að liðið getur endað í neðsta sæti í þessum riðli, FC Kaupmannahöfn eru fyrir ofan sem er ótrúlegt.
Onana er ekki nógu góður fyrir Utd það sjá það allir sem vilja. Hann eiginlega nánast einn er búinn að klúðra meistaradeildinni með fullt af gefins mörkum. Ég skal orða það þannig að útrunninn DeGea í markinu væri betri kostur(en samt lélegur kostur).
Staðan í deildinni er tálsýn. Liðið hefur verið að harka sér í gegnum eins marka sigra og lélega spilamennsku gegn lélegum liðum en liðið virkar eins og miðlungs lið sem er ofar en það á skilið.
Í DES er alvöru prógram Newcastle, Chelsea, Bournmouth, Bayern, Liverpool, West Ham, A.Villa og Forest. Hvað erum við að tala um marga sigra í þessum 8 leikjum. Tveir? Þrír? mesta lagi fjórir?(hægt að vonast eftir Bayern með varalið).
p.s Onana klúðra leiknum í kvöld en guð minn góður hvað Ten Hag þarf sjálfur að fara í naflaskoðun. Liðið er að spila ömurlegan fótbolta og hann er að taka margar slæmar ákvarðanir. Liðið á að loka sjoppunni 1-3 yfir.
Egill says
Bara sorry, það er ekki hægt að treysta Onana. Loksins þegar maður hélt að hann væri að ná trukki þá gerir hann þetta. Það verður aldrei hægt að treysta honum aftur, við vitum aldrei hvaða Onana mætir til leiks í mikilvægum leikjum. Ég vill ekki sjá hann eiga svona frammistöðu í úrslitaleik t.d. Eða gegn Dippers.
Burt með hann strax, og fíflið sem valdi hann af öllum markmönnunum sem voru fáanlegir í sumar.
Lalli says
Hraður og hrikalega spennandi leikur með urmull færa og vafaatriða. því miður fyrir okkur náðum við ekki að stjórna tempóinu þegar við vorum komnir í tveggja marka forystu og háir það okkur mikið að geta ekki spilað út úr hápressu, endar alltof oft með neglu fram. Onana skúrkurinn í dag, drengurinn verður að fara að sýna reglulega hvað hann getur.
Helgi P says
Við eigum ekkert erindi að fara áfram eða fara í Evrópu keppnina staðan er bara svona og maður er bara búinn að sætta sig við það að við erum bara orðið miðlungs lið
s says
@lalli
Hvernig getum við samt ekki ennþá spilað út úr hápressu? Ten Hag er búinn að vera með liðið í þetta langan tíma og ekki ennþá komið, ótrúlegt. Wolves eru betri í því en við í dag. Þjálfarinn þeirra kom fyrir tímabilið sem dæmi.
Vissulega okkar besti spilandi miðvörður meiddur en common, þetta er svo illa þjálfað lið að það nær engri átt.
Gummi says
Að við séum í neðsta sæti í þessum skíta riðli og búnir að fá á okkur 14 mörk í 5 leikjum við verðum að fara losna við þennan hrokafulla þjálfara og það strax