Manchester United og West Ham United hefja Þorláksmessu hátíðina á morgun klukkan 12:30, þegar að United heimsækir Hamrana á London Stadium. United fékk frí í miðri viku þar sem liðið er dottið út úr orkudrykkjabikarnum „Carabao Cup“ en West Ham heimsótti þöglan Anfield á miðvikudagskvöldið. David Moyes ákvað ekki að taka blaðsíðu úr Anfield varnartaktík Ten Hag og fékk þ.a.l. á sig 5 mörk en liðið hans laumaði þó inn einu sárabótarmarki í stöðunni 4-0. United gerði að sjálfsögðu 0-0 jafntefli við erkifjendur sína í Liverpool síðustu helgi, þeir leikir eru vanalega frekar minnistæðir, það verður þó seint sagt um þennan leik. United gerðu vel í að loka á sóknir Liverpool en bítlaborgarliðið hélt talsvert betur í boltann þó að almennileg færi hafi verið af skornum skammti. Miðað við undanfarna spilamennsku United þá er varla hægt að kvarta yfir 0-0 jafntefli og leikurinn í raun vel lagður upp þar sem United hefði alveg getað stolið sigri. Lykil setningin er þó stolið sigri því þó United hafi mögulega átt hættulegasta færi leiksins þá var spilamennskan fram á við ekkert sérstök. Liðið koma þó haltrandi inn í leikinn með urmul leikmanna í meiðslum og bönnum, á meðan hafði Liverpool skorað í öllum deildarleikjum sínum á tímabili og í efsta sæti það var því við rammann reip að draga. Jafntefli voru því ágætis úrslit miðað við allt og allt, þó að sigur eigi yfirleitt að vera markmið United í öllum leikjum.
Meiðslalisti United er alltaf jafn langur, líklegast þarf ekki að minnast á hverjir liggja á sjúkrabekknum á Carrington. Casemiro, Eriksen, Malacia, Mount, Martinez, Lindelöf, Maguire og Martial eru allir meiddir. Þá er Diogo Dalot í banni gegn West Ham eftir galna ákvörðun Michael Oliver dómar í leiknum gegn Liverpool. Sama vandamál er ekki upp á teningnum hjá West Ham en einungis Michael Antonio er meiddur af leikmönnum Lundúnarliðsins. West Ham situr í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 27 stig, stigi á eftir United sem er í því sjöunda. Spilamennska liðsins hefur verið svona upp og ofan en það er óhætt að segja að nýi leikmaður þeirra Mohammed Kudus hafi byrjað afar vel í treyju West Ham, fólk má endilega fylgjast með honum á föstudaginn.
Útileikir gegn West Ham eru yfirleitt frekar erfiðir, David Moyes getur vel skellt í lás ef honum þóknast það og spilað algjöran krafta bolta með Alvarez og Soucek á miðjunni. Þá er West Ham með eitt stykki James Ward-Prowse til þess að lofta boltanum inn í hverju einasta fasta leikatriði sem Moyes finnst ekkert leiðinlegt. Líkt og flestir leikir verður þetta þar af leiðandi engin gönguferð í garðinum fyrir Manchester United.
Líkleg byrjunarlið
Ég spái því að Evans og Varane byrji í miðvörðunum líkt og í síðasta leik, þá finnst mér eiginlega augljóst að Bruno kominn beint aftur í liðið eftir að hafa tekið út leikbann. Ég ætla líka að spá því að Rashford fái kallið í byrjunarliðinu eftir að hafa verið kældur réttilega undanfarið.
Að lokum
United þarf að vinna leik til þess að halda sér í humáttinni á eftir fremstu liðum deildarinnar, liðið er komið talsvert nálægt miðjupakka deildarinnar. Þetta West Ham lið er mjög erfitt að festa fingur á, þeir geta verið mjög góðir en líka mjög slakir. Líkt og Ten Hag sagði um United í byrjun þessa mánaðar „Við erum ekki nógu góðir til að vera stöðugir“ algjörlega á það sama við um West Ham. Ég ætla því að spá því að annað liðið verði gott í þessum leik en hitt talsvert fjarri lagi, vonandi verður United það fyrr nefnda. Það er eitthvað sem blundar í mér að Rashford muni gera eitthvað í leiknum og aðeins rífa sig úr meðalmennskunni sem hann hefur verið í allt tímabilið. Simon Hooper er dómari leiksins á morgun.
Skildu eftir svar