Manchester United lýkur árinu 2023 á útivelli gegn Nottingham Forest á morgun, laugardag 30. desember klukkan 17:30. Bæði lið unnu í síðustu umferð en hvorugt hefur getað stólað á stöðuga sigra í vetur.
United hefur gjarnan átt einn þolanlegan leik og þann næsta hörmulegan. Miðað við 60 góðar mínútur sem skiluðu 3-2 sigri eftir að hafa verið 0-2 undir gegn Aston Villa á öðrum degi jóla er kannski ekki rétt að fara með miklar væntingar í leikinn gegn Forest.
Á blaðamannafundi í morgun sagðist Erik ten Hag hafa úr svipuðum hópi að velja og gegn Aston Villa. Þar voru bæði Luke Shaw og Sofyan Amrabat frá með smávægileg meiðsli. Miðað við orð þjálfarans þá verða þeir ekki tiltækir. Markus Rashford fór meiddur af velli en virðist að sama skapi tiltækur.
Þetta þýðir líka að ten Hag hefur ekki úr miklu að spila þótt hann vildi hrista upp í liðsskipaninni og fá inn ferska menn í þéttri leikjatörn. Anthony byrjaði á bekknum gegn Villa og var ekki saknað úr byrjunarliðinu vegna frábærrar frammistöðu Alejandro Garnacho og Marcus Rashford. Óskandi er að mestu byrðinni sé létt af Rasmus Höjlund og hann skili fleiri mörkum.
United gæti því stillt upp sama miðvarðaparinu, jafnvel sömu varnarlínunni, annan leikinn í röð. Það teljast tíðindi á þessu tímabili. Síðan gæti það verið búið í bil því Andre Onana er á leið á Afríkukeppnina með Kamerún en hún hefst í byrjun janúar. Fær þá Altay Bayindir væntanlega tækifærið.
Mason Mount er farinn að æfa með hópnum og Lisandro Martinez sagði í jólaviðtali að hans endurhæfingu miðaði vel. Það sama gildir þó um þá sem og flesta aðra sem eru meiddir hjá United að þeirra er vænst aftur í liðið um eða eftir miðjan janúar.
Nuno Espirito Santo tók við Forest fyrir jól og í öðrum deildarleik sínum pakkaði lið hans saman Newcastle 0-3. Enn óvæntara var þó að Chris Woods skildi skora þrennu.
Liðið er án framherjans Taiwo Awoniyi og varnarmannanna Felipe og Serge Aurier. Willy Boly er laus allra mála eftir að hafa farið í leikmann fyrir furðulegt seinna gula spjald gegn Sheffield United. Miðjumaðurinn Ibrahim Sangare þarf hins vegar að sitja af sér bann vegna spjalda á morgun.
Skildu eftir svar