Erik ten Hag gerði engar breytingar frá síðasta liðsvali. Byrjunarliðið gegn Bournemouth var því svona:
Bekknurinn okkar var þunnskipaður en á honum voru þeir Bayindir, Fiorentino, Ogunneye, Amrabat, Mount, Eriksen, Amad Diallo, Forson og Wheatley.
Fyrri hálfleikur
Fyrsta korterið var afskaplega tíðindasnautt. Liðin skiptust á að reyna að komast í hættuleg færi en rennandi blautur völlurinn hafði sitthvað að segja og engin raunveruleg færi. En leið og það korter var liðið kom fyrsta færið í leiknum þegar Willy Kambwala var grafinn í grasinu fyrir utan vítateiginn okkar eftir rimmu við Dominic Solanke sem gerði sér lítið fyrir og skoraði 17. markið sitt í deildinni og breytti um leið stöðunni í 1-0.
Við það lifnaði aðeins við leiknum og Marcus Rashford fékk ágætisskotfæri þegar hann bar boltann hálfan völlinn og endaði inn í teignum en smellti tuðrunni í hliðarnetið. Hinu meginn á vellinum komst Kerkez í hörkufæri þegar Dalot var hvergi að finna en sem betur fer lokaði Onana vel á skotið hans úr þröngu færi.
Næst átti Sinisterra gott skot eftir að hann hristi Diogo Dalot af sér en hann dróg skot sitt rétt framhjá stönginni. Enn og aftur dynja skotin á okkar mönnum og virðist alveg sama hver mótherjinn er þá eru þetta eins og 90 mínútna skotæfing.
Enn á ný var samt eins og það vantaði smurningu eða 2-3 tannhjól í sóknarleikinn, því hann virtist vera að hökta á ýmsums stöðum á vellinum. Ekki tókst okkur að eiga skot á rammann fyrsta hálftímann þrátt fyrir að United fór að þrýsta á heimamenn. Það varð svo til þess að United missti boltann á miðjum vellinum og skyndisókn heimamanna endaði með skoti sem Onana las fyrir jól.
Hins vegar tókst United að eiga skot á rammann leið og fyrsti hálftíminn var liðinn eftir góða sókn þar sem Rashford náði að vinna seinni boltann í vítateigsboganum og kom honum á Garnacho hægra meginn í teignum. Sá stutti brunaði að endalínunni og sendi boltann fyrir markið þar sem Bruno hitti boltann illa en boltinn fór upp rétt yfir höfuð hans og sá portúgalski mundaði skotfótinn og hamraði boltann eins og heitt járn framhjá varnarlausum Neto í markinu.
Við þetta snaropnaðist leikurinn og liðin skiptust á að sækja og virkuðu bæði mjög óskipulögð varnarlega. Það færðu heimamenn sér í nyt þegar Dalot var enn og aftur í einskismannslandi og Justin Kluivert komst einn og óvaldaður framhjá varnarmönnunum og setti boltann í nærhornið framhjá Onana og tók forystuna á ný fyrir heimamenn. 2-1.
Þeir votu nálægt því að auka forystuna rétt fyrir hálfleik þegar Kerkez fékk gullfallega sendingu og skallaði í slánna en enginn varnarmaður United virtist vera meðvitaður um grunneðlisfræði að það sem fer upp í loftið kemur aftur niður því hann fékk bara aðra tilraun án þess að nokkur reyndi nokkuð að trufla félagann. Kamerúninn okkar í búrinn tók einn góðan Schmeichel á þetta og þanndi raddböndin til að reyna að vekja varnarlínuna sem greinilega var ekki alveg með á nótunum fyrstu 45 mínúturnar.
Aftur tók Onana og bjargaði liðinu þegar Kluivert fékk vippusendingu inn fyrir vörnina og var einn á móti markverðinum. Hann lokaði vel á skotið sem verður að teljast algjört dauðafæri en Kluivert virtist ekki ná að smellhitta boltann.
Fyrir hálfleik vildu heimamenn fá vítaspyrnu eftir samstuð innan teigs en í endursýningu sást að engin ástæða var til að benda á punktinn að þessu sinni. Hinu meginn átti Bruno fína tilraun af 26-7 metrunum en gott skot hans lenti ofan á slánni. 2-1 í fyrri hálfleik fyrir heimamönnum.
Síðari hálfleikur
Erik ten Hag virðist hafa verið ósáttur við fyrri hálfleikinn en hann ákvað að gera skiptingu í hálfleik og settir Amad Diallo inn á í stað Garnacho. Skiptingin skilaði sér nú ekki strax en heimamenn áttu fyrstu 5-6 mínúturnar af hálfleiknum með húð og hári.
En eftir það byrjaði United að taka aðeins völdin á vellinum og heimamenn virtust alveg sáttir við að sitja þéttir aftarlega á vellinum og halda fengnum hlut í þær 40 mínútur sem eftir lifðu leiks. Eða svo hélt maður en hver sem veit eitthvað um Kirstuberin þá eru þau alltaf hættuleg í skyndisóknum sínum.
Dominic Solanke komst í hörkufæri eftir sendingu frá vinstri vængnum á 59. mínútu en Willy Kambwala átti hreint út sagt stórkostlega tæklingu og bjargaði í horn.
En það var afskaplega lítið að gerast annað en að liðin skiptust á að tapa boltanum þegar loksins kom eitthvað markvert þegar Kobbie Mainoo reyndi að senda boltann inn í teiginn en boltinn fór af varnarmanni og í handlegginn á Smith. Dómarinn var ekki lengi að benda á punktinn sem virtist þó örlítið strangur dómur en mögulega leit hann á það sem svo að Smith hefði reynt að setja höndina viljandi í boltann. En vítadómurinn stóð og fyrirliðinn nálgaðist punktinn.
Hann stillti upp boltanum og sendi Neto í rangt horn og jafnaði fyrir gestina. 2-2 og um 25 mínútur eftir af venjulegum leiktíma. Heimamenn virtust hafa meiri áhuga á að sækja stigin þrjú og lágu á okkar mönnum næstu mínúturnar.
Það virtist sem svo að leikurinn væri að fjara út síðustu mínúturnar en það er náttúrulega ekki United leikur þar sem það er ekki einhver dramatík í lok leiksins. Að þessu sinni var komið að vítaspyrnudómi á United en heimamenn vildu fá víti þegar Kambwala breyttist í vegg og stöðvaði þannig Favre sem var á fleygiferð inn í teiginn en eftir að búið var að ráðfæra sig við VAR varð niðurstaðan aukaspyrna á vítateigslínunni.
Enes Unal tók aukaspyrnuna og setti hana í vegginn og þaðan í horn og hélt sókninni gangandi en uppgefinn viðbótartími var löngu liðinn þegar spyrnan var tekin en Onana greip boltann og kom honum hratt í leik og United blés til sóknar. Því miður varð sú sókn alveg eins bit- og vonlaus eins og flestar sóknir United í leiknum. Þannig fjaraði leikurinn út og leiknum lauk með 2-2 jafntefli.
Það þýðir að United er í 7. sæti deildarinnar með jafnmörg stig og Newcastle en mun verri markatölu en þeir svarthvítu. Núna hefur United einungis unnið einn af síðustu sjö deildarleikjum og virðist óðfluga stefna í að Erik ten Hag stýri liðinu úr Evrópusæti ef ekki fer eitthvað að breytast.
Næsti leikur er viðureign okkar í undanúrslitum bikarsins gegn Coventry City. Leikurinn fer fram á Wembley á sunnudaginn kemur kl 14:30.
EgillG says
váá!!!…bara vá hvað við erum skítlélegir
Elis says
7.sæti
Zorro says
það hefur enginn áhuga á þessu lengur….einfalt svar
Gummi says
Að það sé ekki búið að reka þennan horbjóð sem þjálfara er fáránlegt þetta er lélegasta united lið sem ég hef horft á