Æfingaleikur eða keppnisleikur? Bikar er alltaf bikar og stolt er alltaf í húfi gegn Manchester City. En leikurinn í dag mun aldrei gefa of mikið til kynna hvers megi vænta frá liðunum í vetur.
Nýtt tímabil vekur alltaf bjartsýni, kannski sérstaklega þar sem hið síðasta var sérlega ömurlegt. Enn leifir þó af gömlum vandræðum því United hefur strax tekið forustu í meiðslatöflu úrvalsdeildarinnar með tíu leikmenn meidda eða tæpa. Sú tafla var hin eina sem liðið leiddi nokkuð örugglega á síðustu leiktíð.
Vinstri bakverðirnir Luke Shaw og Tyrrell Malacia eru meiddir. Malacia virðist hafa fengið enn eitt bakslagið í endurhæfingunni meðan lítið hefur spurst til meiðsla Shaw. Nýi miðvörðurinn Leny Yoro meiddur langt fram eftir hausti og Harry Maguire og Victor Lindelöf tæpir. Maguire er þó í hóp. Harry Amass, sem spilað hefur vinstri bakvörðinn á undirbúningstímabilinu, er líka í hóp en hann trúlega enn númerum of lítill í City eða úrvalsdeildina.
Menn á borð við Bruno Fernandez, Lisandro Martinez, Diego Dalot, Alejandro Garnacho, Kobbie Mainoo, Facundo Pellistri og nýi framherjinn Joshua Zirkzee spiluðu ekkert á undirbúningstímabilinu vegna þáttöku í landsmótum frameftir sumri. Einhverjir þeirra fá mínútur í dag en hvort þeir spili frá byrjun er annað mál.
Brýn þörf gæti þó verið á Martinez og Dalot vegna meiðsla í vörninni, eða Bruno eða Zirkzee vegna meiðsla framherjans Rasmus Höjlund.
Áhugavert gæti veirð að sjá hvaða vængmenn verða fyrir valinu því það gæti gefið tóninn fyrir tímabilið. Af þeim Amad, Marchus Rashford, Jadon Sancho, Anthony og Garnacho byrja aldrei nema í mesta lagi þrír. Ákveðna furðu vekur að Pellistri sé í hóp því hann hlýtur að eiga að selja því hann hefur lítið í hina fimm að gera.
Casemiro er enn á sínum stað á miðjunni. Valið fyrir framan gæti haft áhrif á hver verður við hlið hans, til dæmis hvort Mason Mount verði þar ef Bruno kemur inn í sóknartengilliðinn eins og hann er vanur. Christian Eriksen fékk sinn skerf af mínútum í Bandaríkjaferðinni og sömuleiðis Toby Collyer sem lofar góðu fyrir framtíðina.
Auk Casemiro er André Onana hinn leikmaðurinn sem fullyrða má með vissu að byrji leikinn í dag.
Þjálfarar meiðast ekki og því verður glænýtt þjálfaralið til sýnis í dag. Ruud van Nistelrooy og Réne Hake eru komnir í stað Steve McClaren og Mitchell van der Gaag. Andreas Georgsson á að þjálfa föst leikatriði eftir að Eric Ramsay fór að þjálfa í MLS í fyrra. Jelle ten Rouwelaar þjálfar markverðina í stað Richard Hartis og sóknarþjálfarinn Benny McCarthy er farinn.
Eins verður forvitnilegt að sjá hvaða leikkerfi Erik ten Hag veðjar á. Í lok síðasta tímabils var hann kominn í 4-2-2-2 sem skilaði bikarmeistaratitlinum. Á undirbúningstímabilinu hefur liðið aftur spilar 4-2-3-1. Ef það verður fyrir valinu gæti orðið fróðlegt að sjá hvort áherslan verði á hollenskt samspil eða þýska hápressu.
Leikurinn hefst klukkan 14:00 og verður sendur út beint á Vodafone Sport/Viaplay.
dr. Gylforce says
Það er alltaf fúlt að tapa en vító er bara 50/50. Frammistaðan var heilt yfir góð, fyrstu 30 mínúturnar reyndar ekki góðar en fínn leikur hjá okkar mönnum eftir það. Margt jákvætt og verður spennandi að sjá hvernig gengur gegn Fulham á föstudaginn. Mason Mount olli vonbrigðum eins og venjulega en aðrir ágætir.
Dór says
Þetta er bara drasl leikmenn sem Ten Hag er búinn að kaupa