Þá geta tuðrusparksáhugamenn og -konur komið sér vel fyrir framan skjáinn eftir langt og strembið landsleikjahlé því Enska úrvalsdeildin heldur áfram um helgina. Okkar menn gera sér ferð aftur suður með sjó og að þessu sinni mæta þeir á St. Mary’s Stadium þar sem þeir hitta fyrir nýliðana í Southampton. Síðasta ferðalag okkar suður endaði með 2-1 tapi gegn Brighton sem hefði hæglega geta farið á annan veg á öðrum degi en á milli þessara leikja var svo afhroð á Old Trafford gegn erkifjendunum í Liverpool þar sem liðið steinlá gegn öðru af tveimur efstu liðunum.
Liðið liggur þar af leiðandi heldur neðarlega á töflunni eða í 14. sæti eftir þrjá fyrstu leiki tímabilsins með þrjú stig. Einu liðin sem eru fyrir neðan okkur eru liðin sem hafa ekki ennþá unnið leik á tímabilinu. Markaskorun eða öllu heldur færanýtingin heldur áfram að vera Akkílesarhæll okkar og það mun reynast liðinu mjög dýrkeypt ef það mun ekki breytast fljótlega. Það hitnar alltaf meira og meira undir sæti stjórans í hvert sinn sem liðið tapar stigum og eflaust einhverjir sem telja Erik ten Hag líklegan til að tapa sætinu til aðstoðarstjórans innan nokkurra vikna.
Næstu fjórir leikir eru gríðarlega mikilvæg prófraun fyrir stjórann sem hefur þó skilað okkur málmum á síðustu tveimur leiktíðum þrátt fyrir að spilamennska liðsins hafi ekki beint bent til mikilla afreka. Liðið mætir Southampton á útivelli núna í hádegisleiknum á morgun áður en þeir halda svo aftur á heimaslóðir þar sem Barnsley úr C-deildinni heimsækir okkur á Old Trafford. Því næst tekur Crystal Palace á móti United á Selhurst Park og þessari leikjahrinu lýkur svo með heimaleik gegn Twente í Evrópudeildinni. Fjórir leikir á ellefu dögum en sem betur fer engin ferðalög erlendis að þessu sinni.
Southampton
Í fyrra voru Southampton í Championship deildinni (B-deildinni) og enduðu tímabilið nokkuð þægilega í fjórða sætinu og komust í gegnum umspilið eftir að hafa lagt Leeds í úrslitaleiknum. Þeir féllu tímabilið 22/23 en þetta var fyrsta ár Dýrlinganna í B-deildinni frá því herrans ári 2012 en á árunum á milli höfðu þeir verið í deild þeirra bestu þótt þeir hafi oft á tíðum daðrað við falldrauginn. Á því tímabili (22/23) ráku þeir stjórann, Ralf Hassenhuttl sem hafði þá verið með liðið í 4 ár samfleytt. Nathan Jones tók við en hann entist ekki nema þrjá mánuði í starfi og skildi við liðið á botni deildarinnar og Ruben Sellés tók við sem bráðabirgðastjóri en honum mistókst að vinna það kraftaverk sem honum var ætlað, það er að halda liðinu uppi. Liðið ákvað að framlengja ekki við hann og fékk í hans stað Russell Martin á þriggja ára saming.
Russell Martin er 38 ára gamall Englendingur sem spilaði lengst af fyrir Norwich og Wycombe Wanderers en eftir að fótboltaferlinum lauk hjá MK Dons árið 2019 tók hann við sem stjóri liðsins yfir tvö tímabil. Þrátt fyrir að hafa endað fyrsta tímabilið í 19. sæti og það næsta í 13. sæti ákvað Swansea City að tryggja sér þjónustu hans um mitt ár 2021. Þar tókst honum ekkert mikið betur til en liðið endaði í 15. sæti og árið eftir í 10. sæti sem ekki er hægt að telja sem mikinn árangur miðað við að liðið komst í umspil eftir að hafa lent í 4. sæti á tímabilinu fyrir komu hans.
En hvað er þá það sem fékk Southampton til að stökkva um borð með Russell Martin? Til þess að glöggva sig á því getur verið ágætt að rýna í tölfræðina og skoða leikstíl liðanna sem hann hefur stýrt en þau eiga það öll sameiginlegt að vera óvenjumikið með boltann í leikjum. Reyndar svo að einungis Barcelona (65,11%) og Man City (63,83%) voru með hærra hlutfall með boltann en MK Dons (63,82%) á fyrra tímabilinu hans með MK Dons (the Athletic). Á sama tímabili setti liðið met þegar þeir áttu 56 sendingar án þess að mótherjinn kæmi við boltann áður en þeir skoruðu (3-2 tap gegn Gillingham).
Í Championship deildinni hélt Russell Martin áfram að spila þennan bolta, þar sem liðið toppaði marga tölfræðiþætti deildarinnar eins og hlutfall heppnaðra sendinga (87,7%), flestar sendingar (28.747), með flestar aðgerðir sem leiddu til skots (1255) og auðvitað hlutfall með bolta (65,5%). En tölfræðin vinnur ekki leikina og það er heldur ekki eins og liðin sem hann hafi stýrt hafi valtað yfir mótherjana.
Liðið slapp með naumindum í gegnum umspilið og hefur ekki farið af stað með neinni flugeldasýningu í deild þeirra bestu. Liðið hefur leikið þrjá leiki og tapað þeim öllum, 1-0 gegn 10 leikmönnum Newcastle, 0-1 á heimavelli gegn Nottingham Forest og að lokum 1-3 tap á útivelli gegn Brentford. Þrátt fyrir að liðið sitji á botni deildarinnar er liðið í öðru sæti þegar kemur að fjölda snertinga í leikjum og með næst flestar sendingar aðeins á eftir Man City en þeim tekst einhvern veginn ekki að nýta sér þá „yfirburði“ til að hala inn stigum ef yfirburði mætti kalla.
Russell Martin stillir mjög gjarnan upp í 3-5-2 og hefur notað það kerfi í öllum leikjunum í deildinni en stillti upp í 4-3-3 gegn Cardiff í bikarnum (3-5 útisigur). Hann virðist þó vera heldur vanafastur og því ætla ég að spá því að hann stilli áfram upp í 3-5-2 og reyni að spila sinn bolta, sérstaklega þar sem liðið er á heimavelli.
Þeirra hættulegustu leikmenn verða án vafa Brereton Días og Adam Armstrong en sá síðarnefndi raðaði inn 21 deildarmarki á síðustu leiktíð þó hann sé ekki enn kominn á blað á þessari leiktíð. Þá mæli ég eindregið með að gefa Tyler Dibling sérstaklega auga í þessum leik en hann er 18 ára leikmaður sem hefur spilað með flestöllum yngri landsliðum Englands og er gríðarlega efnilegur. Á meiðslalistanum hjá Dýrlingunum eru þeir Juan Larios, Gavin Bazunu, Kamaldeen Sulemana og Ross Stewart.
Manchester United
Það eru ansi mörg augu og spjót sem beinast að stjóranum okkar um þessar mundir enda hefur byrjun tímabilsins farið illa ofan í margan stuðningsmanninn. Sumarglugginn lokaði eftir að við fengum töluvert spennandi liðsauka (Zirkzee, de Ligt, Mazraoui, Yoro og að lokum Ugarte auk efnilegra yngri leikmanna) en sú eftirvænting og spenna sem farin var að byggjast upp virðist löngu dauð núna. Liðið situr í 14. sæti, einn sigur gegn Fulham og svo tveir tapleikir í röð sem gerir það að verkum að allt annað en sigur í leiknum á morgun er ekki nógu gott. Jafnvel mætti færa rök fyrir því að liðið verði ekki bara að sigra heldur sigra sannfærandi og örugglega til að reyna að rétta af skútuna. En það er langt síðan United vann síðast leik með sannfærandi og öruggum hætti svo best væri að skala niður væntingar og kröfur okkar um slíkt.
Ef eitthvað er að marka síðustu leiki þessara liða þá verða ekki mörg mörk í leiknum þrjú jafntefli (eitt markalaust og hin 1-1) og einn 0-1 sigur á þessum velli. Ef við förum svo enn lengra aftur í tímann þá finnum við auðvitað 9-0 sigurinn sem er auðvitað merkilegur útaf fyrir sig en hefur ekkert forspárgildi fyrir komandi leik. Hins vegar hefur United ekki tapað fyrir Southampton í síðustu 12 viðureignum liðanna en verði jafntefli niðurstaðan munu stuðningsmenn United sjálfsagt upplifa það sem tap.
En þrátt fyrir þessa hroðalegu byrjun á tímabilinu hefur United ekki verið að spila eins illa og margir vilja meina. Einungis þrjú lið (Liverpool, Man City og Bournemouth) eru með hærra xG en við (5,2) á meðan við höfum bara skorað 2 mörk og þrátt fyrir að við séum búin að fá á okkur 5 mörk þá höfum við í raun bara fengið 7 skot á rammann en einungis fjögur lið hafa fengið færri skot á markið. Við erum hins vegar þar af leiðandi með lægsta markvörsluhlutfallið (44,4%) og því þarf stóri Karmerúninn okkar að fara sýna sitt rétta andlit. Honum til varnar verð ég þó að minnast á að við erum með þrjú mistök sem hafa leitt til marks en eina liðið sem hefur átt jafnmörg mistök sem leitt hafa til marks (3) er einmitt Southampton.
En að liðsuppstillingunni. Erik ten Hag sagði á fréttamannafundinum fyrir leikinn að Manuel Ugarte væri klár eftir að hann spilaði tvo leiki með Úrugvæ í landsleikjahléinu og væri tilbúinn en mögulega verður hann á bekknum ef ég þekki ten Hag rétt. Það sama á hins vegar ekki við um Luke Shaw og Rasmus Hojlund sem báðir eru frá vegna meiðsla en miðað við orð stjórans styttist óðfluga í að þeir snúi aftur. Aðrir á meiðslalistanum eru þeir Leny Yoro, Tyrell Malacia, Victor Lindelöf og Mason Mount.
Það væri óskandi að hann myndi treysta Úrúgvæanum í verkefnið því tvö af þessum fyrrnefndu mistökum komu frá Casemiro í síðasta leik. Það verður því áhugavert að sjá hvernig Hollendingurinn stillir upp í hádeginu á morgun því hann hefur bæði hent mönnum beint inn í liðið (t.d. Antony) og látið menn bíða heilllengi eftir sínu fyrsta tækifæir (t.d. Casemiro)
En þetta er liðið sem ég vil sjá á morgun:
Amad Diallo hefur verið ljósi punkturinn okkar í framlínunni og þrátt fyrir að hann hafi átt einn slakan leik þá virðist hann vera loksins að stíga upp og sýna hvers vegna hann var keyptur á rúmlega 20 millj. evra frá Atalanta á Ítalíu. Joshua Zirkzee er ábyggilega staðráðinn í að bæta upp fyrir Liverpool leikinn þar sem hann átti að vera með að lágmarki eitt ef ekki tvö mörk, hvoru tveggja eftir góða fyrirgjöf frá Rashford. Varnarlínan verður að ég held óbreytt, Matthjis de Ligt og Lisandro Martinez hefja sinn annan leik og bakverðirnir verða Diogo Dalot og Noussair Mazraoui. Þetta velur sig svolítið sjálft.
Leikurinn er sá fyrsti í 4. umferð og verður flautuleikari dagsins enginn annar en Stuart Atwell sem mun flauta leikinn á 11:30. Góðar stundir!
Mr.T says
Góð upphitun. Takk