Rasmus Höjlund var lykilmaður í öllum mörkum Manchester United þegar liðið vann Bodø/Glimt 3-2 í Evrópudeildinni í kvöld. Þetta var fyrsti leikur United á Old Trafford undir stjórn Ruben Amorim.
Amorim þarf að nota fyrstu leiki sína til að skoða leikmenn, prófa þá í mismunandi stöðum og finna út sitt besta lið. Hann nýtti því eðlilega tækifærið gegn Bodø/Glimt í kvöld. Sex nýir leikmenn komu inn í byrjunarliðið miðað við Ipswich. Lisandro Martinez sem vinstri miðvörður í stað Jonny Evans, sem er meiddur. Tyrrell Malacia lék sinn fyrsta leik í 550 daga og byrjaði sem vinstri kantbakvörður í stað Digeo Dalot. Antony sem hægri kantbakvörður í stað Amad, Rasmus Höjlund fram í stað Rashford og Manuel Ugarte inn á miðjuna í stað Casemiro. Mason Mount fékk líka tækifæri á kostnað Christians Eriksen. Mount spilaði sem sóknartengilliður en Bruno Fernandes var færður aftar á miðjuna með Ugarte.
Leikurinn byrjaði nógu glæsilega með marki United eftir slétta mínútu. Höjlund elti sendingu til baka á markvörð Bodø/Glimt, sem í stað þess að þruma boltanum strax fram ákvað að reyna að leika honum. Nema Höjlund var fljótari og náði að koma boltanum frá markverðinum, sem greip um Danan og reyndi að halda honum. Það varð til þess að Höjlund skoraði ekki held mætti Alejandro Garnacho á svæðið og skoraði.
En United fylgdi þessu ekki. Bodø/Glimt stillti oft upp í góða pressu og leikmenn United áttu erfitt með að koma boltanum sín á milli. Eftir slakar hreinsanir Malacia og De Ligt unnu gestirnir boltann aftur á miðjunni, komu honum inn á teiginn vinstra megin og þaðan út aftur þar sem Hakon Evjen mætti og sendi boltann upp vinkill. Þar með var staðan orðin jöfn á 19. mínútu.
Fjórum mínútum síðar ákvað Martinez að hlaupa upp úr vörninni til að mæta hægri bakverði Bodø/Glimt. Sá fékk ekki boltann, heldur kom löng sending af miðjunni upp á hægri kantinn. Þar var Philip Zinckernagel kominn í maður á mann stöðu gegn Malacia og einfaldlega stakk af. De Ligt var of langt frá og Martinez í skógarferð og Zinckernagel negldi boltanum undir Onana.
Glæsilegt jöfnunarmark
Eftir þetta tók United völdin á vellinum. Liðinu gekk betur en undanfarna mánuði að koma boltanum upp völlin og inn á teig. Það skilaði ekki dauðafærum en nokkrum fínum skotfærum og vænlegum stöðum. United liðið náði líka að stíga upp og vinna boltann framarlega á vellinum.
Þannig kom jöfnunarmarkið. Bodø/Glimt hafði reynt að hreinsa fram en United náði strax á miðjunni, boltinn barst til Noussair Mazraoui sem lék aðeins áfram, áður en hann lyfti boltanum í átt að Höjlund, sem tók á móti honum með vinstri áður en hann smellti honum viðstöðulaust í fjærhornið með hægri.
Alltaf yfir en aldrei öruggt
United komst síðan yfir á 50. mínútu. United spilaði sig inn á teiginn hægra megin, nett snerting Mount losaði um Ugarte sem sendi boltann þvert fyrir markið þar sem Höjlund var í hárfínni línu við miðvörðinn og potaði boltanum í markið.
United hélt þessari stöðu og tökum á leiknum, þótt það sigldi alls ekki lygnan sjó. Bodø/Glimt komst 2-3 í góða stöðu, Onana slapp þótt boltinn færi í hendina á honum utan teigs og hjartsláttur United-fólks róaðist ekki fyrr en á annarri mínútu uppbótartíma, þegar búið var að hreinsa eftir aukaspyrnu sem gestirnir fengu við vítateiginn og áttu gott skot úr. United fékk þó fleiri vænlegar stöður en besta færið var trúlega skot í þverslá frá Mount.
Amorim hélt áfram að prófa sig áfram með liðið. Casemiro kom til dæmis inn í vörnina í stað de Ligt og Luke Shaw fyrir Martinez. Marcus Rashford skipti við Mount og ógnaði ágætlega með hraða sínum í þeirri stöðu. Amad var einnig góður sem hægri kantbakvörður.
Góði Malacia, lélegi Malacia
Eftir að hafa verið frá í eitt og hálft ár var viðbúið að Malacia væri ryðgaður. Hann var það varnarlega, bæði mörkin máttu að einhverju leyti rekja til hans. En sóknarlega var mikill munur að fá örvfættan bakvörð og Malacia stóð sig vel þar. Hann breikkaði völlinn og kom sér í fínar fyrirgjafarstöður uppi í horninu. Diego Dalot skipti við hann í hálfleik. Það þétti vörnina, en sóknarlega hefði mögulega verið betra að hafa Dalot hægra megin og færa Antony yfir til vinstri.
Boltanum loksins komið á Höjlund
Sú saga gekk í fyrra að ákveðnir leikmenn United vildu helst ekki senda boltann á Danann. Í kvöld var frekar leitað að honum með góðum árangri, það er að segja tveimur mörkum. Amorim virtist leggja upp með að koma boltanum upp kantana og fá fyrirgjafir, sem Höjlund þakkaði fyrir. Þetta eru jákvæð teikn.
Takk fyrir Mazraoui
Mazraoui hefur virkilega smollið inn í United liðið. Hann er traustur varnarmaður og frábær með boltann. Tölfræði hans í kvöld sýnir þetta 6/7 návígum unnin, 5 tæklingar og 114/120 sendingum á samherja, þar af ein stoðsending.
Ugarte hlýtur að vera orðinn byrjunarliðsmaður
Ugarte byrjaði á bekknum gegn Ipswich, eftir að hafa fest sig í sessi á stuttri stjóratíð Ruud van Nistelrooy. Hann hlýtur að halda sætinu núna. Tölfræðin er svipuð og hjá Mazraoui, 5/7 návígum unnin, 4 tæklingar, 3 lesnar sendingar og 90/95 sendingum á samherja, auk stoðsendingar.
Hvað gerir Amorim næst?
Það hlýtur að koma að því að hann byrji með örvfættan kantbakvörð vinstra megin og réttfættan hægra megin, þeir þurfa minna pláss til að koma boltanum fyrir. Kobbie Mainoo hefur ekki fengið tækifæri þessa fyrstu tvo leiki og miðað við frammistöðuna í kvöld verður samkeppnin hörð. Höjlund hlýtur líkt og Ugarte að hafa tryggt sæti sitt. Garnacho var öflugur en Rashford og Mount gætu átt eftir að berjast um sæti. United var viljugra en oft áður í að spila sig upp í hornin og inn á teig heldur en undanfarna mánuði. Það ætti að vita á gott. En óöryggið í vörninni er enn til staðar og sérstaklega síðasta kortérið sýndi Bodø/Glimt að leikurinn væri ekki búinn.
Hvað þýða úrslitin?
United er komið í 12. sæti Evrópudeildarinnar með 9 stig eftir tvo sigra í röð. Tvö stig eru upp í fjórða sætið, sem þýðir að ef liðið heldur áfram á þessari braut á það vel að geta komist í hóp átta efstu liðanna, sem eru þau sem fara beint í útsláttarkeppnina. Næsti leikur er 12. desember í Tékklandi gegn Viktoria Plzen, sem er með sama árangur og United: tvo sigra og þrjú jafntefli sem þýða 9 stig.
Helgi P says
Gott að fá loksinns þjálfara sem þorir að nota hópinn