Fyrsti leikur á nýju ári er stutt skrepp til Wigan.
Eins og venjulega er Wigan í bullandi fallbaráttu, en aldrei þessu vant eru þeir ekki í fallsæti heldur heilu stigi frá. Það er orðið fastur liður að Wigan bjargi sér frá falli, oftar en ekki með góðum kaupum í janúarglugganum. Spurning hvort að það verði í þetta skiptið lánsmaðurinn frá okkur, Ángelo Henriquez. Fyrri leikurinn var öruggur sigur United en Wigan kemur í leikinn núna með meira sjálfstraust eftir góðan sigur á Villa á laugardaginn. Það er þó fyrsti sigur þeirra í mánuðinum og óþarfi fyrir United að hafa of miklar áhyggjur fyrir þennan leik. Gætum séð Scholes og Giggs í byrjunarliði en ég ætla bara að skjóta á að við setjum vídd á miðjuna, enda Wigan með þriggja manna vörn sem staðalbúnað. Valencia búinn að spila alla jólaleikina og fær að hvíla sig á bekknum, Young getur spilað hægra megin, nú eða Welbeck.