31. ágúst 2008 var viðburðaríkur dagur í Manchester. Sheikarnir frá Abu Dhabi keyptu Manchester City, og í æsingnum við að kaupa sterkan leikmann buðu þeir meira að segja 30m punda í Lionel Messi þegar einhver misskildi orð annars um að „things were getting messy“. Þeir buðu líka í Dimitar Berbatov. En Manchester United bauð líka í Dimi og í hans huga kom ekkert annað til greina. Manchester United hafði eytt yfir 20 milljónum punda í leikmann í fyrsta sinn síðan Malcolm Glazer keypti félagið og reyndar í síðasta sinn þangað til Robin van Persie kom til liðsins fyrir tveimur vikum. Verðið var reyndar rúmar 30 milljónir og Berbatov er dýrasti leikmaður í sögu félagsins.
Morgunfréttirnar
Eins og vænta má, þrem dögum fyrir lokun félagaskiptagluggans, ræður slúðrið ríkjum. Dimitar Berbatov er skv. fréttum í flugvél á leiðinni til Flórens í læknisskoðun eftir að United tók tilboði Fiorentina, sem ku vera um 4 milljónir punda. Virðist nokkuð vel staðfest frétt.
Moussa Dembélé, sem margir United menn hafa viljað sjá koma til félagsins, er hins vegar á leiðinni til Tottenham Hotspur eftir að þeir buðu þær 15 milljónir sem útkaupaklásúlan í samningi hans kvað á um. Orðið á götunni er að United hafi haft áhuga en ekki sem svaraði meira en 11 milljónum.
Henríquez fær atvinnuleyfi og slúður
United hefur staðfest að Ángelo Henríquez er kominn með atvinnuleyfi og mun ganga til liðs við United eftir að leika sinn síðasta leik með Universidad de Chile í dag.
Henríques er 18 ára sóknarmaður sem United hefur haft forkaupsrétt á i 3 ár og hefur komið reglulega til æfinga í Manchester. Hann hefur síðasta árið slegið í gegn með La U eins og Universidad er kallað og verið lykilsóknarmaður þeirra síðasta ár sem hefur verið gjöfult. La U eru ‘Apertura’ meistarar þessa árs, en það er fyrri hluti sílensku deildarinnar. Nú er seinni hlutinn í gangi og eru La U næst efstir með leiki til góða. Einnig komust þeir í undanúrslit Copa Libertadores, suður-amerísku Meistaradeildarinnar í vor. Liðið þykir spila einhverja skemmtilegustu knattspyrnuna þar í álfu. Henríquez er búinn að skora 11 mörk í 17 deildarleikjum. Það er því ekki annað hægt að búast við öðru en góðu af pilti, en enn er óljóst hvort hann verður sendur í lán eitthvert. Það er ekki eins og við séum alveg á flæðiskeri staddir með framherja eins og stendur.
Alexander Büttner á leiðinni til Manchester United
Öllum að óvörum dúkkuðu allt í upp fréttir í gær frá Hollandi að United væri við það að kaupa 23ja ára gamlan leikmann frá Vitesse Arnhem. Enn hefur ekkert heyrst frá United um málið en svo virðist sem fréttirnar hafi verið staðfestar af bæði Büttner og Vitesse. Óhætt er að segja að alla hafi rekið í rogastans, bæði þau okkar sem ekkert þekkja til pilts og hinna líka, viðbrögðin frá Hollandi virðast flestöll á þann veg að hann sé alls ekki af United klassa. Büttner virtist á leið til Southampton fyrr í sumar en ágreiningur um greiðslur til þriðja aðila stöðvuðu það. Nú hafa United og Sir Alex ekki talað fallega um umboðsmenn og slíkar greiðslur, en það er alla vega ekki að stöðva þetta núna.
Robin van Persie til Manchester United (staðfest)
Í fyrsta skipti síðan Rio Ferdinand kom til liðsins 2002 kaupir United leikmann sem á án nokkurs vafa að smella beint inn í hópinn. Þegar Berbatov kom voru fyrir Tevez, Rooney og Ronaldo og Dimi kom inn í baráttu um stöður. Það er hins vegar deginum ljósara að Robin van Persie mun spila hvenær sem hann er heill.
Það þarf ekki að ræða það í löngu máli að í nokkur ár hafa flestir stuðningsmenn verið sammála um að það vanti sterkan jaxl á miðjuna, en hvað sem tautar og raular er Sir Alex ekki sammála því og þess vegna þýðir lítið að vera að ræða hvaða menn við vildum frekar sjá en Van Persie.