Í hádeginu morgun er það ferð til Wales sem er á dagskránni. Í fyrradag lauk einni af lengstu sölusögum sumarsins og þeirri sem Íslendingar fylgdust mest með þegar Swansea seldi sinn besta mann, Gylfa Sigurðsson, fyrir 45 milljónir punda til Everton. Þeir hafa augljóslega ekki náð að koma þeim peningum í lóg og verða því veikari en ella gegn United.
Gylfi hefur verið duglegur að skora gegn liðinu sem hann heldur með og um tíma gekk Swansea mjög vel gegn United, unnu þrjá leiki í röð 2014 og 2015 en síðan unnust tveir. Leikurinn í vor var hins vegar enn eitt jafnteflið á jafnteflisvetrinum mikla og það var auðvitað Gylfi sem skoraði mark Swansea.
Embed from Getty Images
Það er ekki bara Gylfi sem verður ekki í liði Swansea á morgun, heldur eru Fernando Llorente, Ki Sung-Yeung og Nathan Dyer líka frá vegna meiðsla. Það verður því 19 ára lánsmaðurinn frá Chelsea, Tammy Abraham sem verður fremsti maðurinn í víglínu Swansea. Eini maðurinn sem þeir hafa bætt við sig að ráði er Roque Mesa, 28 ára miðjumaður frá Spáni sem var ekki með í fyrsta leik Swansea, dræmu 0-0 jafntefli gegn Southampton á St Mary’s. Búast má við Swansea óbreyttu úr þeim leik, og því er þetta sams konar lið og rétt slapp við fall í fyrra, að Abraham frátöldum. Reyndar gekk Swansea þokkalega í síðustu upphitunarleikjunum, unnu B-deildarlið Birmingham 2-0 og síðan Sampdoria auðveldlega 4-0.