Það er sannarlega skammt stórra högga á milli hjá Manchester United. Á fimmtudaginn gerði liðið afar svekkjandi 1-1 jafntefli við AC Milan og þremur dögum síðar tekur við annað stórt verkefni. David Moyes og spútniklið West Ham koma í heimsókn á sunnudaginn. Leikurinn hefst kl. 19:15 og má búast við hörkuleik.
Lítið hefur verið um glansfótbolta af okkar hálfu undanfarið, en það má segja um fleiri lið. West Ham hafa verið á ágætis skriði undanfarið og eina tap þeirra í síðustu fimm deildarleikjum kom gegn meistaraefnum Manchester City.