Gagnrýnin á Ole Gunnar Solskjær hefur verið óvægin frá því að Norðmaðurinn geðþekki tók endanlega við starfinu sem knattspyrnustjóri Manchester United í mars 2019. Nú er það engu að síður svo að hann getur komið liðinu á topp deildarinnar ef United tekst að sigra Burnley á Turf Moor á morgun – kl. 20:15.
Undirritaður hreinlega man ekki hvenær Manchester United vermdi toppsætið síðast þegar svona langt er liðið á tímabilið og þó er það ekki einu sinni hálfnað! Líklega var það kveðjutímabil Sir Alex Ferguson þegar við unnum deildina með yfirburðum og Robin van Persie gladdi hjörtu okkar vikulega. Nú er öldin önnur, en vonandi mjökumst við þó nær því að geta keppt um deildartitilinn.