Þá er komið að því að enski boltinn byrjar að rúlla aftur eftir landsleikjahlé. Það er að því er virðist ár og öld frá því United spilaði síðast keppnisleik en sá leikur kom á Villa Park í markalausu og bragðdaufu jafntefli við strákana hans Emery.
Þar á undan sáum við 3-3 jafntefli við FC Twente Enschede og 0-3 tap fyrir Tottenham í hreint út sagt ömurlegri viku fyrir okkar menn. Staðan á liðinu er ekkert sérstök, liðið situr í neðri hluta deildarinnar með 8 stig eftir 7 leiki og -3 í markatölu. Gjörsamlega óviðunandi með öllu og funheitt undir stjóranum.