Ralg Rangnick gerði eina breytingu á liðinu sem mætti Aston Villa á sunnudaginn var. Í stað Cavani kom Ronaldo inn.
Á bekknum voru þeir: Henderson, Heaton, Maguire(’70), Mata, Jones, Matic(’84), van de Beek, Rashford(’70) og Martial.
Fyrri hálfleikur
Leikurinn byrjaði ekki vel, a.m.k. ekki fyrir United menn. Brentford mættu eins og þeir hefðu gírað sig upp í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og voru dýrvitlausir framan af. Fyrstu mínúturnar virtist mark liggja í loftinu og einungis David de Gea í fantaformi sem sá við þeim. United var kannski meira með boltann en þeir hunskuðust ekki til að gera nokkurn skapaðan hlut af viti með hann. Mathias Jensen og Vitaly Janelt fengu sitthvort dauðafæri sem de Gea varði með lipurri fótafimi og Bryan Mbeumo var eins og gazella út um allan völl og mætti halda að það hefðu verið þrjú eintök af honum á vellinum.