Manchester United tekur á móti Reading í 4. umferð ensku bikarkeppninnar á Old Trafford kl 20:00 annað kvöld. United gerði sér lítið fyrir og vann Everton 3-1 í næstsíðasta leik þeirra bláklæddu undir stjórn Frank Lampard í síðustu umferð á meðan gestirnir í Reading lögðu Watford að velli með mörkum í uppbótartíma í sitthvorum hálfleiknum.
Á blaði gæti margur sagt að United hafi fengið auðvelda viðureign en bikarleikir hafa þá rómantík að þeir einfaldlega eru annars eðlis en hefðbundnir deildarleikir. Það væri þó afar lélegt af okkur að ganga út frá því að þetta verði léttur leikur því við höfum oftar en ekki brennt okkur á að vanmeta andstæðingana, sérstaklega þegar þeir fá að spila á „stóra sviðinu“. En þráhyggjukenndur sigurvilji Erik ten Hag er svo sterkur að hann einn og sér ætti að duga til að koma okkur áfram inn í næstu umferð bikarsins en lítum fyrst á mótherjana.