Eftir tvo frábæra sigra í röð í ensku úrvalsdeildinni er aftur kominn tími til að beina sjónum okkar að Evrópukeppninni sem liðið okkar tekur þátt í þennan veturinn. Það er komið að sjötta og síðasta leiknum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. United hefur þegar tryggt sér sæti í 32-liða úrslitunum en það er þó mikilvægt að halda efsta sætinu því þannig sleppur liðið við að mæta efstu liðunum í hinum riðlunum eða þeim fjórum liðum sem koma úr Meistaradeildinni með bestan árangur. Að auki myndi liðið þá fá seinni leik á heimavelli. Jafntefli dugar Manchester United til að halda efsta sætinu í riðlinum en við viljum auðvitað enda þessa riðlakeppni með sigri. Það verður dregið í 32-liða úrslitin á mánudaginn, klukkan 12:00 að íslenskum tíma.
Evrópudeildin heldur áfram
Eftir fjóra útileiki í röð (í öllum keppnum) fáum við loksins aftur heimaleik. Það er Evrópudeildin og Partizan frá Belgrad kemur í heimsókn. United hefur ekkert verið að spila glimrandi skemmtilegan bolta í þessari keppni en árangursríkan að því leyti að liðið hefur ekki enn fengið á sig mark og er efst í sínum riðli.
Leikurinn hefst kl. 20:00 annað kvöld, fimmtudaginn 7. nóvember. Dómari leiksins verður Mattias Gestranius frá Finnlandi.
Chelsea 1:2 Manchester United
Sextán liða úrslit deildarbikarsins, Carabaodrykkjardollunnar, hófust í gærkvöldi. Þá tryggðu Leicester City, Colchester United, Everton, Manchester City og Oxford United sér áfram í 8-liða úrslit. Í kvöld bættust svo þrjú lið við í þann hóp. Aston Villa vann Úlfana 2-1 í venjulegum leiktíma en Liverpool þurfti víti til að vinna Arsenal eftir að staðan var 5-5 að loknum 90 mínútum. Að lokum var það svo Manchester United sem var síðasta liðið til að tryggja sig inn í fjórðungsúrslitin með verulega sætum 2-1 sigri á lærisveinum Franks Lampard í London.
Bikarslagur á Brúnni
Manchester United hafði ekki unnið leik á útivelli síðan kraftaverkið í París átti sér stað í byrjun mars á þessu ári. Þegar Rashford tryggði United sigur með dramatískri vítapspyrnu var United að vinna 9. útileikinn í röð. Síðan þá hafði liðið spilað 11 útileiki í öllum keppnum, tapað 7 þeirra og gert 4 jafntefli. En þá kom að því að liðið braut ísinn, með strembnum útisigri gegn Partisan í Serbíu. Eftir það fylgdi svo annar útisigur, töluvert auðveldari, gegn Norwich í ensku úrvalsdeildinni. Nú er svo komið að þriðja útileiknum í röð, deildarbikarslagur gegn heitu Chelsealiði Franks Lampard. Solskjær hafði betur í slag þessara ungu stjóra, tveggja fyrrum goðsagnaleikmanna sinna félaga, í fyrstu umferð deildarinnar en Lampard virðist þó vera að sýna það að hann sé tilbúnari í sitt verkefnið en Norðmaðurinn okkar. Í það minnsta hefur hann verið að fá meira út úr sínu liði en Solskjær og virðist vera að fá meira bæði út úr reynslumiklu leikmönnunum og ungu, efnilegu leikmönnunum sínum.
Manchester United 1:1 Arsenal
Viðureignir Manchester United og Arsenal eru svo sannarlega ekki eins og þær voru hérna í kringum aldamótin. Það var mánudagsleg stemning hjá liðunum í kvöld þegar þau gerðu jafntefli. Enn vantar upp á hressleikann fram á við hjá United og það er ekkert skrýtið við það að United-fréttir gærkvöldsins og dagsins í dag snerust helst um hvaða sóknarmenn United ætla að reyna að fá í janúarglugganum.