Jæja, þar kom að því. Manchester United tapaði sínum fyrsta leik undir stjórn Ole Gunnar Solskjær. Í fyrsta skipti síðan hann tók við liðinu náði það ekki að skora mark en fékk á sig tvö þar sem varnarleikur liðsins leit alls ekki vel út.
Fyrir leikinn leyfði maður sér ákveðna bjartsýni. Kannski gæti liðið púllað Solskjær á þetta, komið inn eins og í leikjunum gegn Arsenal og Tottenham og fundið einhverjar sniðugar leiðir til að koma andstæðingnum í vandræði. Kannski væri liðið með nægilegt sjálfstraust til að keppa við eitt af bestu liðum Evrópu. Kannski væri United jafnvel sigurstranglegra liðið, í það minnsta í þessum fyrri leik á Old Trafford. En öll þessi bjartsýni dugði ekki nema rétt út fyrri hálfleikinn, svo tók PSG yfir og sýndi einfaldlega meiri gæði og meiri karakter.