Manchester United sýndi enn einu sinni gríðarlegan karakter og seiglu eftir að hafa lent undir. Í þetta skiptið var þetta gegn einu allra sterkasta liði Evrópu, liði sem þykir eitt það sigurstranglegasta í Meistaradeildinni. Liði sem hafði ekki tapað leik á tímabilinu, sem hafði ekki tapað heimaleik á þessu stigi keppninnar nema einu sinni á síðustu 15 árum. Frábær úrslit!
United heimsækir Tórínó
Eftir tvo sigurleiki í röð í deildinni er komið að erfiðasta leiknum í Meistaradeildinni, útileiknum gegn Juventus. Eftir hann fær liðið lítið frí því þá kemur erfiðasti leikurinn í deildinni, útileikur gegn Manchester City. Tveir næstu leikir gætu því gert ansi mikið fyrir liðið, ef það nær góðum frammistöðum og úrslitum, eða komið allsvakalega niður á þegar brothættu sjálfstrausti liðsins ef liðið fær slæma útreið gegn tveimur af öflugustu liðum Evrópu.
Manchester United 0:1 Juventus
Enn einu sinni á Manchester United slakan fyrri hálfleik. Þrátt fyrir að bæta spilamennskuna í seinni hálfleik þá var það einfaldlega ekki nóg. Juventus vann verðskuldaðan sigur í þessum leik og siglir langefst á toppi H-riðils. Manchester United heldur 2. sætinu í bili, aðeins vegna þess að Young Boys og Valencia gerðu jafntefli í sínum leik í Sviss, 1-1.
Fyrir leik var ánægjulegt að sjá Mourinho gefa Tahith Chong verðlaun fyrir góðar frammistöður með yngri liðunum að undanförnu með sæti á bekknum. Byrjunarlið Manchester United var annars þannig skipað:
Juventus kemur í heimsókn
Eftir vonbrigðin sem fylgdu því að missa unninn leik niður í jafntefli í blálokin á brúnni er komið að næsta leik. Meistaradeild Evrópu heldur áfram og það er ekkert smálið sem kemur í heimsókn á Old Trafford í þessari umferð. Margfaldir Ítalíu- og Evrópumeistarar Juventus frá Tórínó. Félag sem hefur verið eitt af stóru liðunum í Meistaradeildinni síðustu ár, lið sem þekkir það vel að ná langt í þessari keppni og hefur gert kaup sem sýna að það stefnir á að landa titlinum. Þetta verður erfitt en áhugavert.
Manchester United 0:0 Valencia
Jæja, þetta var nú aldeilis stuðið, eða þannig. Lélegt form Manchester United heldur áfram, í þetta skiptið endaði leikurinn með markalausu jafntefli. Leikmenn liðsins virkuðu hugmyndasnauðir, þreyttir og litlir í sér. Mourinho gerði aðeins eina breytingu í leiknum og hún kom seint, miðað við hvernig liðinu gekk í leiknum.
Mourinho gerði nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. Helst má þar nefna að Eric Bailly fékk aftur séns í hjarta varnarinnar eftir þó nokkra fjarveru. Að auki fékk Alexis Sánchez, sem mikið hafði verið fjallað um í blöðum, sæti aftur í byrjunarliðinu.