Við höldum áfram að birta jóladagatalið hans Halldórs.
Harry Stafford og Major
Þann 3. desember ‘98 voru okkar menn mættir til Lundúna til að keppa við Arsenal. Ekki þó á Highbury heldur á Manor Ground og ekki gegn Arsenal FC heldur hét félagið þá Woolwich Arsenal. Því þarna er ekki átt við árið 1998 heldur árið 1898 og okkar menn hétu á þeim tíma Newton Heath.
En þetta var þó knattspyrnuleikur á laugardegi. Sumt breytist seint. Þetta var leikur í 2. deildinni þar sem Newton Heath var að spila á sínu 7. tímabili en Woolwich Arsenal að eiga sitt 5. tímabil. Jimmy Collinson skoraði mark fyrir Newton Heath í þessum leik. Collinson spilaði aðallega sem bakvörður á ferli sínum með Newton Heath en í þessum leik spilaði hann sem innherji hægra megin. En þetta eina mark sem hann skoraði dugði skammt því Woolwich Arsenal skoraði 5 mörk í leiknum. Merkilegt nokk var þetta 3. leikurinn í röð milli þessara liða sem endaði 5-1. Alltaf var það heimaliðið sem vann, Arsenal tvisvar og Newton Heath 1 sinni.