Fyrri hálfleikur
Leikurinn fór ágætlega af stað að hálfu Manchester United. Liðið var ekki endilega að spila stórkostlega en það virtist ágætt flæði á sóknarleik liðsins. Á 7. mínútu tók Alex Telles hornspyrnu sem Alexandru Epureanu miðvörður Başakşehir hreinsaði klaufalega úr teig gestanna og þar var Bruno Fernandes mættur og negldi boltanna í markið og markvörðurinn átti ekki séns á að verja. Nokkrum mínútum síðar virtist Marcus Rashford hafa tvöfaldað forystu United en við nánari athugun reyndist hann rangstæður. Á þessum kafli voru United menn orðnir beittir og greinilega með blóðbragð í munninum. Á 19. mínútu átti Telles aftur fyrirgjöf en í þetta skipti misreiknaði markvörðurinn boltann og Bruno Fernandes var aftur mættur og skoraði þægilega og United komið með tveggja marka forystu. Kortéri síðar var brotið á Marcus Rashford inni í teig og eftir VAR-skoðun var dæmd vítaspyrna á gestina og fékk Rashford leyfi frá Bruno til að framkvæma spyrnuna. Rashford tók nett Pogba aðhlaup að boltanum en skoraði svo örugglega og United leiddi í hálfleik 3:0.