Á morgun mætum við bikarmeisturum Wigan (já, þið lásuð rétt) í árlega leik meistara meistaranna eða Samfélagsskildinum. Ég man ekki hvenær það gerðist síðast að annað liðanna í þessum leik var ekki í úrvalsdeildinni og ykkur er velkomið lesendur góðir að minna mig á það í athugasemdunum.
Lið United fór um víðan völl þetta undirbúningstímabil og úrslitin kannski ekki þau bestu enda sjaldan stillt upp sterkasta liði. Ungu strákarnir fengu að njóta sín og þá sérstaklega litu þeir vel út Adnan Januzaj og Wilfried Zaha og ég yrði fyrir vonbrigðum ef þeir verða lánaðir. Margir stuðningsmenn eru pirraðir á getuleysi United á leikmannamarkaðinum og hafa þeir ýmislegt til síns máls. Kannski hefði verið betra að reyna við raunhæfari markmið en við skulum ekki örvænta alveg strax enda eru rúmar 3 vikur til loka félagsskiptagluggans.