Þá eru félagsskipti Ángelo Henríquez frá Universidad de Chile til Manchester United loksins formlega frágengin. Nokkuð er síðan að Henríquez fékk atvinnuleyfi á Englandi og er hann því núna United leikmaður. Henríquez mun leika í treyju nr.21 í vetur. Kaupverðið var ekki gefið upp en er talið vera í kringum 4 milljónir punda.
Henríquez er fæddur 13.apríl 1994 í Santiago, Chile. Hann er uppalinn hjá Universidad og spilaði 17 deildarleiki fyrir þá og skoraði 11 mörk. Hann hefur leikið með öllum yngri landsliðum Chile, samtals 18 leiki og skorað 21 mark. Þess má til gamans að geta að hann skoraði 14 mörk í 9 leikjum með U-20 ára liði Chile.