Á morgun fara okkar menn í heimsókn til Newcastle United. Fyrri leikur liðanna var fyrsti af mörgum 0-0 leikjum tímabilsins. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, okkar menn sitja í 5. sæti með 33 stig, níu stigum frá Arsenal sem situr í efsta sæti deildarinnar. Á meðan situr Newcastle í 18. sæti deildarinnar með 17 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.
Newcastle United
Eins mikið og manni langar að kvarta undan hversu marga leikmenn vantar alltaf í leikmannahóp Manchester United vegna meiðsla þá mælir undirritaður ekki með því að væla í Newcastle United stuðningsmönnum. Meiðslalisti þeirra telur 14 leikmenn samkvæmt Physio Room. Fyrirliðinn Fabricio Coloccini og rauðhærði Pirlo (Jack Colback) ættu þó að geta náð leiknum á morgun. Annars vantar þá; Tim Kruul, Florian Thauvin, Vurnon Anita, Papiss Cisse, Mike Williamson, Massadio Haidara, Gabriel Obertan, Steven Taylor, Rolando Aarons, Kevin Mbabu, Emmanuel Riviere og Curtis Good.