Jæja, fyrsti sigur Tottenham á Old Trafford síðan 1989 staðreynd. Ekki alveg það sem ég bjóst við, reyndi að vera bjartsýnn á að United myndi koma ferskir til leiks og vinna frekar sannfærandi sigur. Hinsvegar voru það 45 mínútur af hörmulegum fótbolta Manchester United í fyrri hálfleik skóp sigur Tottenham í leiknum. Þrátt fyrir að halda alltaf í vonina var ég nánast búinn að sætta mig við tap í hálfleik, þú getur ekki gefið Tottenham tvö mörk með þessum hætti. Í seinni hálfleik spilaði liðið svo frábærlega og í lok leiksins er ég vonsvikinn að hafa ekki a.m.k. fengið eitt stig út úr leiknum. Dómar í óhag, skot í stöng og slá, nokkur dauðafæri, einn af þessum dögum býst ég við. Við skulum hinsvegar byrja á byrjuninni og skoða liðin.
Byrjunarliðið gegn Tottenham
Jæja, þá er stjórinn búinn að koma með sýna útgáfu af byrjunarliðinu. Skoðum hvað hann leggur til.
Lindegaard
Rafael Evans Ferdinand Evra
Nani Scholes Carrick Giggs
Kagawa
Van Persie
Bekkur: De Gea, Anderson, Rooney, Hernandez, Welbeck, Cleverley, Wootton
Jæja, ekki alveg eins og ég spáði, en samt sem áður ekkert sem kemur á óvart, nema kannski að það er smá útfærslubreyting á kerfinu. Virðast ætla að spila meira 4-4-1-1, mér lýst bara vel á það! Markverðirnir halda áfram að skiptast á, þeir gömlu halda sínum sætum, Rooney kemur ekki inn eins og ég hafði spáð (og vonað) og Nani er á sínum stað þrátt fyrir vandræði hans í vikunni. Kannski hefur Ferguson ekki aðra möguleika varðandi Nani, fyrst Valencia og Young eru meiddir, en það voru sögur á kreiki þess efnis að stjórinn hafi verið brjálaður yfir því að Nani hafi slegið Petrucci á æfingarsvæðinu í vikunni. Ef öll sú saga reynist rétt, þá er Nani ekki refsað fyrir það, allavega eins og er.
Tottenham á Old Trafford á morgun
Það er í nægu að snúast þessa dagana fyrir okkur United menn, leikjaplanið er ansi þétt og núna er komið að því að leika við Tottenham í deildinni á Old Trafford. Leikurinn fer fram á morgun (laugardag) klukkan 16:30. Liðinu hefur gengið afskaplega vel gegn Tottenham undanfarin ár, í síðustu 20 leikjum á Old Trafford hefur Man Utd aldrei tapað, hafa unnið 17 leiki, gert 3 jafntefli og markatalan er 42 mörk gegn 8. Tottenham eru með mjög sterkt lið og auðvitað nýjan þjálfara. Villas-Boas reið kannski ekki feitum hesti gegn United þegar hann var með Chelsea en hver veit, kannski hefur hann lært eitt og annað síðan þá og kannski hentar honum betur að mæta á Old Trafford sem lítilmagninn. Ó vangaveltur.
United menn í landsliðsverkefnum
Eins og við Íslendingar vitum manna best þá var spilað í gærkvöldi í undankeppninni fyrir heimsmeistaramótið. Nokkrir leikmenn Man Utd voru í eldlínunni og því við hæfi að minnast á gengi þeirra.
Tom Cleverley, Michael Carrick og Danny Welbeck spiluðu allir í 5-0 stórsigri Englands á Moldavíu. Carrick kom inn á í hálfleik fyrir Gerrard og Welbeck komu svo inn á þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum. Báðir stóðu sig ágætlega en bestur United manna var klárlega Cleverley sem átti afskaplega góðan dag á miðjunni. Hann spilaði allan leikinn fyrir framan Lampard og Gerrard/Carrick, var mjög sprækur og fiskaði vítaspyrnu sem skóp fyrsta mark Englendinga. Frábær opnun hjá stráknum en þetta var fyrsti alvöru landsleikur hans fyrir England.
Fréttir út Fantasy deildinni
Það er rífandi gangur í Fantasy deildinni okkar en 191 einstaklingar hafa nú þegar skráð sig til leiks og 15 munu svo bætast í hópinn í næstu umferð. Við viljum endilega fá sem flesta til að taka þátt þannig að ef þið eruð ekki búin að skrá ykkur í deildina, endilega gerið það með því að nota númerið 45375-320165.
Robin van Persie var augljóslega besti leikmaður Man Utd í síðustu umferð með því að setja þrennu gegn Southampton. Fyrir það hlaut hann 15 stig, 12 stig fyrir mörkin og 3 bónus stig fyrir að vera besti leikmaður liðsins í leiknum. Hann fékk reyndar 2 stig í viðbót fyrir að spila 90 mínútur en þeim stigum tapaði hann fyrir að misnota vítið. Valencia og Ferdinand komu næstir í stigasöfnun, báðir með 5 stig, Nani var með 4 stig og aðrir leikmenn minna. Van Persie er nú atkvæðamestur United manna heilt yfir með 25 stig, Kagawa er næstur með 11 stig og svo koma þeir Rafael og Evra báðir með 10 stig.