Annað kvöld byrjar ballið aftur hjá okkar mönnum, eftir tveggja vikna landsleikjahlé, þegar United skutlar sér í tveggja tíma rútuferð til West Bromwich í úthverfi Birmingham. Þar mæta þeir heimamönnum í West Bromwich Albion á The Hawthorns vellinum. Leikurinn byrjar klukkan 19:00 og verður Mike Dean á flautunni.
Oft hefur maður nú fundist þessi landsleikjahlé frekar leiðinleg en íslenska landsliðið hefur svo sannarlega breytt því viðhorfi með árangri sínum undanfarið. Það er vonandi að United standi sig jafn vel og drengirnir okkar í landsliðinu því það er gríðarlega mikilvægt að vinna leikinn á morgun ef United ætlar að halda sér meðal þeirra bestu. Dagskráin framundan er ansi erfið því eftir leikinn á morgun á liðið leik við Chelsea (H), Man City (Ú), Crystal Palace (H) og svo Arsenal (Ú). Þó svo farið sé í hvern leik til að sigra hann, má alveg gera ráð fyrir einhverjum töpuðum stigum í þessum viðureignum, það er því mikilvægt að misstíga sig ekki gegn liðum eins og WBA og Crystal Palace.