Eftir ansi rólega tíð hjá okkar mönnum virðist eitthvað alvöru vera að leka upp á yfirborðið. Blaðamaðurinn Sid Lowe sem verður að teljast ansi örugg heimild um allt sem tengist spænskum fótbolta greinir frá því í Guardian í gær að United hafi formlega óskað eftir því að Sergio Ramos yrði að koma til Manchester United ef Real Madrid vill fá David de Gea.
Samkvæmt Sid Lowe hefur United þegar hafnað fyrsta boði Real Madrid í De Gea sem var bara eitthvað grín, 18 milljónir evra eða tæplega 13 milljónir punda. Persónulega hefði ég viljað að United hefði svarað því með að segja við Real Madrid: Við svörum ykkur ekki fyrr en þið eruð komnir í kringum 30 milljón pundin sem er að mínu viti algjört lágmarksverð fyrir David de Gea.