Maður vissi að þessi dagur mundi einn daginn renna upp. Hvar byrjar maður?
Í gær fór orðrómur á stað um að Sir Alex Ferguson myndi stíga niður sem knattspyrnustjóri Manchester United við lok tímabilsins og rétt í þessu var það staðfest af liðinu í yfirlýsingu. Maður á bágt með að trúa þessu. Fyrstu viðbrögð mín og flestra sem ég fylgist með á Twitter voru svipuð, menn höfðu enga trú á því að orðrómurinn væri sannur en eftir því sem leið á kvöldið breyttist hljóðið örlítið, kannski var eitthvað sannleikskorn í þessu. Vísbendingarnar hafa nefnilega birst okkur smám saman síðustu tímabil en við höfum auðvitað ekki tekið eftir þeim, eða kannski bara hunsað þær, enda tilhugsunin um Manchester United án Sir Alex Ferguson eitthvað sem maður hefur bægt frá sér þó að reynsla og skynsemi segi manni að ekkert endist að eilífu, sama hversu gott það er.