Erik ten Hag stýrði Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í dag þegar Brighton kom í heimsókn. Nýr stjóri og tveir nýir leikmenn í byrjunarliði dugðu ekki gegn Brighton því með þeim inn á voru níu leikmenn frá síðustu leiktíð.
Að mörgu leyti er það synd að skrifa um þennan leik fyrir Manchester United síðu því það kallar á að fyrst og fremst er fjallað um United. Brighton verðskuldar hins vegar fullt af fögrum orðum fyrir sigurinn sem byggðist á framúrskarandi fyrri hálfleik.