Það jafnast ekkert á við að vinna bikar og á morgun getur United stigið skref í átt að því að gera þetta tímabil eftirminnilegra en það á kannske skilið og komast á Wembley. Að vísu bíður City eða Chelsea og það hefur fennt verulega yfir tapið í úrslitaleiknum í fyrra. En það var þá og þetta er núna. Bikar er bikar og sigur á morgun gerir margt betra.
Coventry
Andstæðingurinn á morgun er lið Coventry City. Við sem komin erum á miðjan aldur ólumst upp við Coventry City sem langtímalið í efstu deild, féllu aldrei en gerðu ekki garðinn frægan að ráði. Og þó. Sigur þeirra í bikarkeppninni 1987 var eitthvert mesta afrek minna liðs á þeim tíma, og það þegar bikarinn skipti alvöru máli.