Annað kvöld, á versta hugsanlega tíma fyrir Íslendinga í jólaundirbúningi og sérstaklega þau sem hanga á Laugaveginum á Þorláksmessu fer United til Leicester og tekst á við Englandsmeistarana frá því fyrir ári.
Þetta er fyrsti leikurinn í seinni umferðinni, United vann Leicester nokkuð örugglega í ágúst en Leicester hefur bara staðið sig þokkalega síðan og er í áttunda sæti, aðeins sex stóru og Burnley á undan þeim. Þeir voru búnir að vinna fimm leiki í röð í deild þegar Crystal Palace skellti þeim illa um síðustu helgi, 3-0. Varaliðið þeirra náði svo jafntefli gegn City í Carabao bikarnum á þriðjudaginn en tapaði í vítakeppni.