Á morgun fær Manchester United frábært tækifæri til sýna að liðið ætli sér toppslag í vetur og ekkert annað. Manchester City kemur á Old Trafford sem efsta lið deildarinnar en einungis 2 stigum á undan United.
Sigur á morgun kemur United í fyrsta eða annað sætið í deildinni, eftir því hvort Arsenal tapar stigum gegn Everton í eftirmiðdagsleiknum í dag eða ekki. Þetta eru leikirnir sem Manchester United á að snúast um og þetta eru leikirnir sem eiga að vinnast. Síðasti stórleikur fór illa þegar Arsenal snýtti okkar mönnum allhressilega og það er ekki bara ég sem lít á leikinn á morgun sem eins mikinn úrslitaleik og hægt er að tala um í október. Eftir leikinn á morgun taka við leikir sem topplið á að líta á sem skyldusigra og sigur á morgun myndi gefa liðinu byr undir báða vængi.