Við erum komin vel á veg með seinni hluta tímabilsins. Það eru tíu deildarleikir eftir, þrjátíu stig í boði og stjóralausa liðið Reading að koma í heimsókn á Old Trafford. Þetta verður síðasti leikurinn fyrir landsleikjafrí og spilar United ekki næst fyrr en þrítugasta mars, gegn Sunderland á útivelli.
Reading rak stjórann sinn, Brian McDermott, á dögunum og leitar að eftirmanni hans sem þýðir að Eamonn Dolan mun sjá um stjórn liðsins á morgun. Reading deilir neðsta sæti deildarinnar með QPR, bæði lið með tuttugu og þrjú stig og markahlutfallið -21. Reading hafa nú tapað 5 leikjum í röð í öllum keppnum (deildin + FA bikarinn) en síðustu 6 deildarleikir Reading hafa endað með einu jafntefli, einum sigri og svo fjóra tapleiki í röð. Svo til að bæta gráu ofan á svart fyrir Reading, þá hafa síðustu sex útileikir liðsins endað með 5 töpum og einum sigri. En þrátt fyrir slæma frammistöðu í síðustu fimm leikjum þá var Reading búið að vinna 6 af síðustu átta leikjum í öllum keppnum fyrir það. Varla þarf ég að minna ykkur á leik liðanna á Madejski Stadium 1. desember, sem endaði 4-3 fyrir United þar sem öll mörkin voru skoruð á fyrstu 35 mínútunum? Reading eru semsagt sýnd veiði en alls ekki gefin!