Manchester United leikur sinn síðasta heimaleik í kvöld. Andstæðingurinn er Brentford og hefst leikurinn kl. 19:00. Það eru engar líkur á því að liðið hafni í Meistaradeildarsæti, en aðeins meiri líkur eru á því að liðið gæti endað í 7. sæti og þar með í Sambandsdeild Evrópu. Okkar menn sitja sem sakir standa í 6. sæti, með 55 stig en West Ham eru sæti neðar með 52 stig. Undirritaður hlakkar ekkert sérlega til þess að hlusta á Evrópudeildarlagið fyrir leiki á fimmtudögum, en ég ætli það það sé ekki skömminni skárra en að hlakka til leikja gegn liðunum sem að lentu í 9. sæti í efstu deild í Færeyjum og Finnlandi. Þetta er staðan og henni verður að taka eins og hverju öðru hundsbiti.
Enska úrvalsdeildin
Manchester United 1:1 Chelsea
Málshátturinn segir að „litlu verði Vöggur feginn.“ Manchester United verðskuldaði vart stig í kvöld en eftir tvö hrikalega ósigra í röð er stigið velkomið í baráttunni um að slefa inn í Evrópukeppni. Jöfnunarmarkið á líka heima í samantekt yfir það besta frá liðinu í vetur – þótt samkeppnin þar sé ekki hörð.
Chelsea kemur í heimsókn
Jæja! United fær tækifæri til að svara fyrir ófarirnar á Emirates og verkefnið gæti orðið býsna strembið. Á morgun, fimmtudag, mæta Evrópumeistarar Chelsea í heimsókn á Old Trafford. Leikurinn hefst kl. 18:45. Formið hjá bláliðum Thomas Tuchel hefur verið fínt, en tap gegn Arsenal hefur sennilega sviðið sárt. Við eigum það að minnsta kosti sameiginlegt. Þá datt liðið úr Meistaradeildinni eftir frábært einvígi gegn Real Madrid, þar sem að Karim Benzema reyndist munurinn á liðunum. Fæst orð bera minnsta ábyrgð hvað okkar form varðar.
Arsenal 3:1 Man Utd
Manchester United liðið fer tómhent frá London í dag. 3-1 tap niðurstaðan í leik sem að þurfti alls ekki að tapast. Öfugt við undanfarna leiki þá náði liðið að skapa sér talsvert af marktækifærum, en allt kom fyrir ekki. Dómgæslan í leiknum var ekki uppá marga fiska og stóru augnablikin féllu okkur ekki í vil, hvort sem að það var okkur að þakka eða flautugerpinu.
Rauðu Djöflarnir mæta Skyttunum
Arsenal gegn Manchester United. Í kringum aldamótin var þetta leikurinn. Wenger gegn Ferguson. Keane gegn Vieira. Tvö langbestu lið Englands að etja kappi. Umræðan fyrir viðureignir þessara liða í kringum aldamótin var eins og fyrir þungavigtarbardaga í hnefaleikum. Pressan át upp öll skot og ummæli sem að hægt var að snúa útúr, eins og það þyrfti að kasta meiri olíu á eldinn. Á leikdag gerðist svo yfirleitt eitthvað sem að mátti kjamsa á – stundum bókstaflega! Það er skemmst frá því að segja að sú er ekki raunin í dag. Liðin hafa í besta falli verið sæmileg undanfarin misseri og heyja nú stórundarlega baráttu um þetta eftirsótta 4. sæti – ásamt Tottenham og West Ham. Þar standa Norður-Lundúnaliðin, Spurs og Arsenal, betur að vígi en Man Utd og West Ham.