Eftir síðasta landsleikjahléð í bili heldur lífið í enska boltanum áfram sinn vanagang. Piltarnir í Manchester United halda suður á bóginn og heimsækja Hertfordskíri, norðan Lundúna, til að spila deildarleik við Watford. Leikurinn hefst á hinum klassíska tíma, klukkan 15:00 á laugardegi. Dómari leiksins verður Jonathan Moss.
Solskjær er enn stjóri Manchester United. Eftir tapið hrikalega gegn Liverpool fengu ansi margir stuðningsmenn nóg og slúðrið um að brottrekstur væri yfirvofandi hékk yfir honum. Einhverjir miðlar fjölluðu um að Solskjær fengi næstu þrjá leiki, fram að landsleikjahléi, til að bjarga starfinu. En úrslitin úr þeim leikjum voru ekkert til að hrópa húrra fyrir. Mjög öruggt tap gegn Manchester City eftir að liðið hafði rétt bjargað stigi gegn Atalanta á útivelli í Meistaradeildinni. Vissulega hafði fyrsti leikurinn verið öruggur sigur á Tottenham sem gagnaðist Solskjær að því leyti að það varð til þess að Spurs rak sinn stjóra og réð einn þeirra sem virtist vera ofarlega á blaði til að taka við af Solskjær ef hann væri rekinn. Conte er líklega einn af fáum stjórum sem gæti tekið þennan núverandi hóp Manchester United og unnið ensku úrvalsdeildina með honum.