Þá er loksins biðin á enda, skrípaleikstímabilinu er lokið og enski boltinn farinn að rúlla á ný. Enska Úrvalsdeildin hófst í gær á Anfield þar sem heimamenn tóku á móti nýliðum kanarífuglanna í Norwich. Stórleikur helgarinnar er hins vegar leikur okkar manna gegn Chelsea á Old Trafford en leikurinn er sá síðast í fyrstu umferðinni.
Þetta verður í fyrsta sinn síðan á tímabilinu 2004/2005 þar sem þessi tvö lið mætast í fyrstu umferðinni en þeim leik lauk með 1-0 sigri Lundúnarliðsins með marki frá Eiði Smára Guðjohnsen. Þó að United hafi ekki tapað fyrir Chelsea í síðustu þremur viðureignum þessara liða þá hefur gengið brösuglega að ná í öll þrjú stigin í deildinni en í síðustu 13 úrvalsdeildarleikjum hefur United bara borið sigur úr býtum tvisvar sinnum.