Þetta er ekki lengur bóla, þetta er sigurbraut. Það er orðið óhætt að slá þessu föstu. Hitt er svo annað mál að allar sigurhrinur taka að lokum enda þannig að þegar það gerist þá gerist það bara og án þess að þurfi að tala um að „bólan sé sprungin“.
Á morgun kemur Southampton í heimsókn á Old Trafford og reynir að verða fyrsta liðið til að vinna sigur á United liði Ole Gunnar Solskjær í deildinni. Southampton hefur ekki gengið vel á þessu tímabili, eru tveimur stigum frá fallsæti og það er sigri í síðasta leik gegn fallkandídötum Fulham að þakka. Mark Hughes var rekinn í desember og austurríkismaðurinn Ralph Hasenhüttl tók við en hann hefur aðeins náð að snúa gengi liðsins við með sigrum á m.a. Arsenal og Everton. En liðið tapaði tveimur og gerði tvö jafntefli fyrir sigurinn gegn Fulham og það er því von til þess að slakt gengi United gegn Southampton á Old Trafford haldi ekki áfram, en United hefur unnið einn af síðustu fimm leikjum gegn þeim þar, gert tvö jafntefli og tapað tveimur.