Manchester United vann góðan og öruggan 4-1 sigur á Bournemouth í síðasta leik ensku Úrvalsdeildarinnar á þessu ári. Leikurinn fór rólega af stað en United liðið virtist einstaklega yfirvegað og einbeitingin skein af hverjum leikmanni. Ole Gunnar Solskjær gerði 4 breytingar frá síðasta leik en byrjunarliðið leit svona út:
Strax á 5. mínútu fékk Marcus Rashford boltann út á hægri vængnum, í raun alveg út við hliðarlínuna, meðan Nathan Aké sótti að honum. Rashford setti boltann öfugu megin við Bournemouth-manninn og tók svo flotta gagnhreyfingu og skildi annan varnarmann eftir og komst sér snyrtilega inn í teiginn. Þegar þangað var komið kom fyrirgjöf frá honum sem Paul Pogba náði að pota í markið. Glæsileg byrjun hjá okkar mönnum sem vildu greinilega halda áfram uppteknum hætti og skora snemma í leiknum.